«

»

Molar um málfar og miðla 2033

ÞARFAR ÁBENDINGAR

JT sendi eftirfarandi (10.10.2016): Úr netmogganum mánudaginn 10. október – í frétt af mögulegum morðum á börnum í Kenýju:

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/10/10/stefna_yfirvalda_ad_utryma_bornunum/

Marg­ir neydd­ust til að hoppa út í ánna. Lög­reglu­menn reiddu bana­höggið þegar þeir skutu tára­gasi ofan í vatnið.

Margir hoppuðu út í ána – ekki ánna. Og fengu sér ekki í tána eða fóru ekki í skóna.

Úr stuttri frétt dv.is mánudag 10. okt.:

http://www.dv.is/frettir/2016/10/10/madurinn-sem-fell-i-hver-fludum-enn-gjorgaeslu/

Slysið varð með þeim hætti að maðurinn fór inn á svæði við Gömul laugina þar sem hverir eru.

Varað er við vatninu á skiltum sem þar eru en virðast hafa farið framhjá manninum.
Svæðið sem maðurinn fór inn á var ekki afgirt að öðru leyti.

Þá segir að vatn hafi skvetts á manninn sem varð til þess að hann féll ofan í hverinn.

Enn eitt dæmi um frétt sem skutlað er inn án yfirlesturs eins og Molaskrifari hamrar svo oft og vel á. Hefði ein mínúta farið í yfirlestur þessarar stuttu fréttar hefðu undirstrikuðu orðin trúlega verið lagfærð.

—-

Og mætti alveg hamra á þessu líka:

Að veita verðlaun – að afhenda verðlaun. Það er tvennt ólíkt.

Margir veita verðlaun fyrir hitt og þetta og tilkynnt með viðhöfn. Þegar svo kannski kemur að því síðar að afhenda verðlaunin eru fengnir til þess einhverjir góðborgarar sem tengjast málum eða framámenn (framámenn eða frammámenn…??). En þeir VEITA ekki verðlaunin heldur AFHENDA þau. Á því er grundvallarmunur en oft ekki gætt að þessu orðalagi í fréttum.

Kærar þakkir JT  fyrir þessar þörfu ábendingar. En rétt er að fram komi að Moggafréttin ,sem vísað er til upphafi var síðar lagfærð og málfar fært til betri vegar.

AÐ HYLMA YFIR

Að hylma yfir eitthvað er að halda einhverju leyndu, þegja yfir einhverju, sem ef til vill væri refsivert. Í hádegisfréttum Ríkisútvarps í vikunni var sagt frá kappræðum forsetaframbjóðenda í Bandaríkjunum. Sagt var að Donald Trump sakaði Hillary um að hylma yfir glæpum. Rétt hefði verið að tala um að hylma yfir glæp eða glæpi. Leyna glæp eða glæpum.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>