«

»

Molar um málfar og miðla 2046

 

ÖMMUBÖRN OG LANGÖMMUBÖRN

Jakob sendi Molum eftirfarandi (03.11.2016):

,,Heill og sæll,

Hlustaði í hádeginu á „dánarfregnir og jarðarfarir“ að venju. Tók þá enn eftir „smábarnanafnorðinu“ „ömmubörn“ og „langömmubörn“. Án þess ég hafi lagzt í rannsóknir, gæti ég trúað að þetta barnamál sé ekki nema svona þrjátíu til fjörutíu ára sem algengt mál. Á mér brennur spurningin, hvort einhver hefur hugsað út í það, hver séu tengsl „ömmubarns“ við börn konunnar, er „ömmubarnið“ ekki barn ömmunnar og þar af leiðandi systkini annarra barna hennar? Ef til vill væri rétt að spyrja  “Orðfræðisvið Stofnunar Árna Magnússonar“ eins og „Orðabók Háskólans“ mun heita núna um fyrstu þekkta notkun og tíðni þessara orða.”  Kærar þakkir  fyrir ábendinguna. Vissulega umhugsunarefni.

 

FORSETINN Á FASBÓK

Blaðamaður á visir.is leggur forseta Íslands málvillu í munn , þegar blaðamaðurinn skrifar (02.11.2016): Hann nefnir hins vegar á Facebook að hann geri sér grein fyrir að meðlimir kjararáðs sé gefið ákveðið hlutverk. „Meðlimir kjararáðs eru ekki vont fólk.“

Þetta er ekki rétt. Forseti sagði:

Meðlimir kjararáðs eru ekki vont fólk. Þeim er gefið ákveðið hlutverk.

Hann sagði ekki að meðlimir kjararáðs sé …. eins og blaðamaðurinn Birgir Olgeirsson skrifar. Hroðvirkni eða vankunnátta í meðferð móðurmálsins.

http://www.visir.is/forsetinn-fer-a-facebook-til-ad-utskyra-hvad-hann-atti-vid-med-modir-teresu-ummaelunum/article/2016161109746

 

ENN OG AFTUR

Sífellt hnýtur maður um sömu villurnar. Eins og þessa af visir,is (03.11.2016): Jónas segir hóp sinn, sem er allur skipaður konum frá Ástralíu, Hong Kong, Bandaríkjunum og víðar, hafa verið brugðið í fyrstu en svo hafi uppákoman kryddað daginn þeirra. Þetta sé ekki eitthvað sem fólk sjái á hverjum degi. Það hafi í raun verið mögnuð sjón að fylgjast með bílnum í lóninu. Segir hóp sinn … hafa verið brugðið! Segir hóp/hópi sínum hafa verið brugðið, hefði þetta átt að vera. – Það er svo auðvitað dálítið sérstakt að íslenskum fararstjóra þykir þessi óheppni, ógæfa, þessara erlendu ferðamanna hafa kryddað daginn hjá fólkinu sem hann var með. Undarlegur hugsunarháttur, að ekki sé meira sagt.

http://www.visir.is/omurlegur-endir-a-islandsdvol-i-jokulsarloni—is-it-our-car–/article/2016161109636

 

AFKOMA VIÐKOMA

Í fyrirsögn á bls. 14 í Morgunblaðinu (03.11.2016) segir: Léleg afkoma rjúpna á Austurlandi 2015. Í huga Molaskrifara ( og í orðabókinni) þýðir afkoma , arður, eða afrakstur.  Sérfræðingur Náttúrufræðistofnunar Íslands talar hinsvegar um viðkomuna hjá rjúpunni. Viðkoma, segir orðabókin meðal annars að þýði , frjósemi, fjöldi fæðinga, vöxtur, árleg fjölgun , aukning. Það orð hefði átt að nota í fyrirsögninni.

 

VEÐRIÐ – Í FÆREYJUM

Molaskrifari er áhugamaður um veður, – og veðurfréttir. Hann hrósaði því hér á dögunum, að nú væri farið að birta okkur hitastigið í Færeyjum á Evrópukortinu í veðurfréttum Ríkissjónvarps. Það var Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur sem það gerði. Síðan hefur Molaskrifari ekki haft neinar fréttir af veðri í Færeyjum fyrr en á miðvikudagskvöld (02.11.2016) og aftur í gærkvöldi og þá var Einar Sveinbjörnsson aftur á ferð. Hann sýndi líka hitastigið á Kanaríeyjum, sem margir Íslendingar  vilja gjarnan sjá. Einar á hrós skilið og þakkir , en Molaskrifari botnar eiginlega ekkert í því hversvegna hann er eini veðurfræðingurinn sem kemur vinum okkar og grönnum í Færeyjum á kortið.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>