«

»

Molar um málfar og miðla 2057

KEYPT OG VERSLAÐ

Það er löngu tímabært, að málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins ræði sérstaklega við þá fréttamenn, sem ekki geta gert greinarmun á sögnunum að versla og að kaupa. Kunna ekki að nota þessar sagnir.

Í hádegisfréttum á föstudag (18.11.2016) sagði fréttamaður: ,, … en ólíkt því sem gerist þegar verslað er sælgæti í lausu í verslun eða fiskur í fiskbúðum …“

Það er rangt að tala um að versla sælgæti og getur ekki talist vandað mál. Við kaupum sælgæti, stundum í lausu og við kaupum fisk í fiskbúðum. Fiskbúðir versla með fisk. Þetta er ekkert flókið. Fréttamenn eiga að vanda sig.

 

METFÉ – AFTUR OG ENN

Alltaf er betra að vita hvað orðin þýða sem notuð eru í fréttum. Í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins sagði fréttamaður okkur frá frægum kjól,sem, seldur var fyrir hátt verð á uppboði vestanhafs: ,,Sögufrægur kjóll bandarísku leikkonunnar Marilyn Monroe seldist fyrir metfé á uppboði í Los Angeles í gærkvöldi. „ Metfé þýðir ekki að kjóllinn hafi selst fyrir hærrri upphæð en nokkur annar kjóll. Það er misskilningur sem oft heyrist í fréttum. Metfé þýðir verðmikill hlutur, úrvalsgripur. Úrelt merking er segir orðabókin , – hlutur sem ekki var fast verðlag á en meta varð til fjár hverju sinni. Skrítið að reyndir fréttamenn, yfirmenn á fréttastofu,skuli ekki vera með þetta á hreinu.

 

UPP MEÐ HVÍTÁ

Úr frétt á mbl.is (19.11.2016) um fenjabáta: ,, Ef áformað til­rauna­verk­efni á veg­um björg­un­ar­sveit­ar­inn­ar Brák­ar tekst vel geta opn­ast mögu­leika til rekst­urs slíkra báta til skemmtisigl­inga með ferðafólk um þetta svæði og upp með Hvítá.“ Það eru merkilegir bátar sem geta farið með fólk í skemmtisiglingar upp með Hvítá. Sennilega á að sigla upp Hvítá, ef vel gengur. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/11/19/fenjabatar_a_borgarfjordinn/

 

ÍTARLEGUR – ÝTARLEGUR

Orðið ýtarlegur, eða ítarlegur, þýðir nákvæmur eða rækilegur,segir orðabókin. Í frétt um risahótel, sem byggt verður á bökkum Mývatns segir svo í frétt mbl.is (18.11.2016): ,, Í leyfi Umhverfisstofnunar kemur fram að eigendur hótelsins á Flatskalla hafi lagt fram gögn sem sýna að þeir ætli sér að reisa skólphreinsistöð sem verður mun ítarlegri en aðrar slíkar stöðvar. „ Vandséð er að hægt sé að tala um ítarlega skólphreinsistöð. Hér hefði til dæmis mátt segja,- öflugri en aðrar slíkar stöðvar, eða , – sem hreinsi skólp mun betur en aðrar slíkar stöðvar.

 

 

AF…AF….

Hér í Molum er oft vikið að óþarfri og einkar hvimleiðri þolmyndarnotkun í fréttum. Dæmi úr hádegisfréttum Ríkisútvarps (19.11.2016) þar sem sagt var frá ketti, sem bjargað var úr eldsvoða: ,,Hann var svo fluttur af lögreglumönnum til dýralæknis….“ Úr sömu frétt: ,,Íbúum tókst að komast út og voru þeir hýstir af nágrönnum sínum meðan eldurinn var slökktur.“ Íbúunum tókst að komast út og skutu nágrannar skjólshúsi yfir þá meðan eldurinn var slökktur. Íbúunum tókst að komast út og fengu þeir inni hjá nágrönnum sínum meðan eldurinn var slökktur. Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (20.11.2016) … þar sem hann var stöðvaður af lögreglu. Þar sem lögreglan stöðvaði hann. – Germynd er alltaf betri.

 

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>