«

»

Molar um málfar og miðla 2056

HRÓS UM BYLGJUFRÉTTIR

Molavin skrifaði (18.11.2016): ,,Þess ber að geta sem vel er gert. Oft hafa villur og handvömm í fréttalestri valdið angri – en það var hreinn unaður að hlusta á hádegisfréttir Bylgjunnar í dag, 18.11. Hreinn, skýr og fallegur lestur og afburða vel skrifaðar fréttir á góðu máli. Til hamingju með það, Gissur Sigurðsson og félagar.“ Þetta tekur Molaskrifari heilshugar undir. Gissur er góður fréttamaður og prýðilega máli farinn og þar starfar fleira gott fólk.

 

NÝTT RÍKI Í BANDARÍKJUNUM !

Í íþróttafréttum í Ríkisútvarpinu í hádeginu í gær, sunnudag, (20.11.2016) sagði íþróttafréttamaður: Heimsmeistaramótið í kraftlyftingum var haldið í Orlandoríki í Bandaríkjunum …. Orlando er ekki ríki í Bandaríkjunum. Orlando er borg í Flórída. Flórída er ríki í Bandaríkjunum. http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/hadegisfrettir/20161120 (16:26)

Landafræðikunnáttan ekki upp á marga fiska. Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps um kvöldið var talað um Orlando í Bandaríkjunum.

 

UM SLETTUR

Molaskrifari hefur ekki hlustað mikið á morgunþátt Rásar tvö að undanförnu. Hlustaði þó skamma stund á fimmtudagsmorgni (17.11.2016). Enn flugu þar enskusletturnar. Lítil beyting þar á. Umsjónarmaður sagði um fréttavef New York Times, – ,, sem er minn go to fréttavefur“. Hvers vegna þurfti þarna að sletta á okkur ensku? Seinna í þættinum var flutt viðtal, eða eintal öllu frekar, kaflar úr viðtali á ensku. Það var að vísu þýtt eða endursagt að mestu leyti. Framhald var boðað daginn eftir.Verið var að vekja athygli á viðburði sem verður ( á ensku) í Hörpu í mars á næsta ári og að sala aðgöngumiða væri hafin eða að hefjast. Er Ríkisútvarpið ekki komið þarna út á hálan ís? Hallast að því. Þetta var daginn eftir dag íslenskrar tungu ! – Bæta má við, að á föstudagsmorgni (18.11.2016) á Rás eitt var rætt við fréttamann um stjórnmálaástandið hér á landi. Molaskrifari heyrði ekki betur en fréttamaður talaði um,,rebela“

( e.rebels– uppreisnarmenn). Vonandi var þetta misheyrn, en samt er spurt: Hversvegna enskuslettur í tíma og ótíma?

 

FALSKAR FRÉTTIR

Í fréttum Ríkissjónvarps (20.11.2016) var talað um falskar fréttir. Af því tilefni skrifaði Sólmundur:,, Hefur einhver heyrt um falskar fréttir :)? Hef nú heyrt um rangar fréttir og uppspuna, en aldrei falskar fréttir ! Molaskrifari þakkar Sólmundi bréfið. Hann hefur aldrei heyrt um falskar fréttir. Frekar ætti að talað um skáldaðar fréttir, uppdiktaðar fréttir eða upplognar fréttir.

http://www.ruv.is/frett/i-folskum-frettum-er-thetta-helst

 

 

REKA -REKJA

Í sama þætti og vitnaði er til hér að ofan var talað um ættir verðandi forseta í Bandaríkjunum, Donalds Trumps. Umsjónarmaður sagði: ,, …þar sem hann rak ættir sínar.“ Þarna ruglaði umsjónarmaður saman sögnunum að reka og að rekja, sem ekki hafa sömu merkingu.Hann var beðinn um að reka féð úr túninu. Hann rak féð úr túninu.Hann var beðinn að segja deili á sér og rakti þá ættir sínar. Þessi villa, eða meinloka, hefur svo sem heyrst áður. Sé fólk í vafa er nóg til af handbókum og svo er líka hægt að nýta sér góða vefi Árnastofnunar, til dæmis nýja vefinn málið.is. Það er nóg af fólki í Efstaleiti, sem er vel máli farið og vel ritfært. Það þarf að leiðbeina þeim sem lakar eru að sér. Kannski þarf fleiri málfarsráðunauta eða gera meiri kröfur um íslenskukunnáttu þeirra sem ráðnir eru til starfa.

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>