«

»

Molar um málfar og miðla 2059

ÁREITI – ÁREITNI

Flosi Kristjánsson skrifaði (22.11.2016):,, Góðan daginn, Eiður.

Hef kíkt á piistla þína af og til undanfarin ár. Þykir gott að menn skuli vilja viðhalda vönduðu málfari. Hef litlu við að bæta.

Tveimur orðum er iðulega ruglað saman, þó ekki sé það alsiða: áreiti – áreitni

Er minnisstætt frá námsárum í Kennararskólanum, að orðaparið stimulus – response, og notað var í sálfræði, hafði verið þýtt með áreiti – andsvar.

Þess vegna finnst mér það ekki rétt, þegar t.d. karlar eru með dónaskap við konur, að þeir hafi haft í frammi kynferðislegt áreiti. Slík átroðsla heitir áreitni. Þetta ásamt því að fara erlendis mundi ég vilja kveða niður í eitt skipti fyrir öll. „- Kærar þakkir, Flosi fyrir lofsamleg ummæli, – og þarfa ábendingu um merkingarrugl, sem því miður er of algengt.

 

HÁTT RYK

Víkverji Morgunblaðsins (21.11.2016) segir frá verslunarferð þar sem hann við afgreiðslukassann var næstur á undan manni,sem áfengislykt lagði af. ,,Hafði greinilega verið á slarki í fyrrinótt og ekki var hátt á honum rykið“, skrifaði Víkverji. Hér hefur eitthvað skolast til. Sennilega hefur Víkverji ætlað að segja , — og ekki var hátt á honum risið. Hann var ekki upplitsdjarfur, – leit ekki vel út. Verið rykaður, eins og stundum er sagt, ,,slæptur eftir víndrykkkju, enn undir áhrifum daginn eftir drykkju“, segir orðabókin.

 

GÓÐ UMFJÖLLUN

Stöð tvö gerði ævi og ferli Gunnars Eyjólfssonar leikara og fyrrverandi skátahöfðingja verðug og góð skil í sérstökum þætti á þriðjudagskvöld. Hef enn ekki séð Ríkisssjónvarpið minnast Gunnars svo sem vert er. Má vera að það hafi farið fram hjá mér.

 

GOTT MÁL !

Í fréttum Ríkissjónvarps (22.11.2016) kom fram í spjalli fréttaþular við íþróttafréttamann í kynningu íþróttafrétta, að ef til vill mundi Guðni Bergsson bjóða sig fram gegn núverandi formanni Knattspyrnusambands Íslands, Geir Þorsteinssyni , á ársfundi sambandsins í febrúar.  Gott mál, sagði fréttaþulur. Það er ekki hlutverk fréttaþular eða fréttamanns að leggja dóm á það hvort framboð til forystu í félagasamtökum sé gott mál, eður ei. Klaufaskapur.

 

PÍNU …PÍNU…

,,Það er svona pínu óljóst hvað við tekur“, sagði fréttamaður í Spegli Ríkisútvarpsins (23.11.2016).

Barnamál á ekki heima í fréttum Ríkisútvarpsins.

 

RIÐFRÍIR LOKAR

Hvað eru riðfríir lokar, sem auglýstir voru í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (23.11.2016)? Hafa þessir lokar eitthvað með rafstraum að gera? Eða gleymdist bara að leiðrétta ritvillu? Áttu þetta ekki að vera ryðfríir lokar? Lokar sem ryðga ekki? Eru auglýsingar ekki lesnar yfir á auglýsingadeild áður en þær eru birtar?

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>