«

»

Molar um málfar og miðla 2060

Á ALÞINGI

Í fréttum Bylgjunnar á hádegi (23.11.2016) var sagt að stjórnarmyndunarviðræður færu fram á Alþingi. Það er ekki rétt. Stjórnarmyndunarviðræður fóru fram í Alþingishúsinu. Ekki á Alþingi. Á þessu er munur.

Í fréttum Ríkissjónvarps kvöldið áður heyrðum við sömu meinlokuna. Þá sagði þulur, að rætt hefði verið við Katrínu Jakobsdóttur á Alþingi. Það var heldur ekki rétt. Rætt var við Katrínu Jakobsdóttur, sem var í Alþingishúsinu.

Endurtekið efni á miðvikudagskvöld (23.11.2016): Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir er á Alþingi, sagði fréttaþulur Ríkissjónvarps. Jóhanna Vigdís var í Alþingishúsinu.

 

ENN UM EMBÆTTISMANN Í HVÍTA HÚSINU

Í fréttum Ríkisútvarps klukkan fimm að morgni miðvikudags (23.11.2016) var enn einu sinni talað um yfirmann (bandaríska) forsetaembættisins. Það er mótsögn að tala um yfirmann forsetaembættisins. Þessi embættismaður er það ekki. Hann er heldur ekki starfsmannastjóri Hvíta hússins eins og sumir fréttamenn halda. Átt var við yfirmann starfsliðs Hvíta hússins (e. chief of staff). Ágætur maður (var það ekki Kristinn R. Ólafsson?) stakk upp á því nýlega að þessi embættismaður yrði kallaður stallari. Það er góð tillaga. Orðabókin segir , að stallari (fornsögulegt) hafi verið háttsettur embættismaður við norsku hiriðina, einskonar fulltrúi konungs gagnvart þjóðinni, hafi talað fyrir hönd konungs á opinberum fundum og séð um vígbúnað hans og manna hans.

 

AÐ SVARA ÓLJÓST

Í fréttum Ríkissjónvarps (23.11.2016) var viðtal við bankastjóra Landsbanka Íslands vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar og gagnrýni á það sem sumir mundu kalla vafasama viðskiptahætti bankans. Bankastjórinn var að því spurður hvort hann hefði fengið þrýsting innan bankans eða frá bankaráði. Hann svaraði óljóst eða ekki og komst upp með það. Fréttamaður gekk ekki eftir svari. Þetta er of algengt. Því miður.

 

 

SMÁTT

*Enn einu sinni var í útvarpsfrétt ( sést reyndar og heyrist víðar) að morgni fimmtudags (24.11.2016) sagt að karlmaður hefði verið handtekinn og vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins. Hann var vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins, – ekki fyrir rannsókn málsins, – kemur þetta orðalag hrátt frá lögreglunni?

* Í morgunþætti Rásar tvö sama dag var okkur sagt að Bandaríkjamenn og Kanadamenn héldu þakkargjörðardaginn hátíðlegan þann dag. Í Bandaríkjunum er þakkargjörðardagurinn fjórði fimmtudagur í nóvember, en í Kanada er þakkargjörðardagurinn annar mánudagur í október.

* Þennan morgun sagði Ríkisútvarpið okkur líka frá tveimur stjórnarmyndunarviðræðum. Tvennum stjórnarmyndunarviðræðum, hefði það átt að vera.

* Að ljá máls á einhverju, er að taka vel í eitthvað, – ekki vekja máls á einhverju.

* Að axla sín skinn, er ekki að axla ábyrgð. Það er að búa sig til brottfarar, fara burt.

* Í hádegisfréttum Bylgjunnar (24.11.2016) var talað um að kalla Alþingi saman til bráðabirgða ??? Tómt rugl. Alþingi verður ekki kallað saman til bráðabrigða. Fréttamenn verða að þekkja stjórnskipan landsins.

* Ósköp er hvimleitt að hlusta á sífelldar enskuslettur stjórnenda og þeirra sem rætt er við til dæmis í morgunþáttum á öldum ljósvakans. Í morgun talaði reyndur stjórnmálamaður sem rætt var við í Ríkisútvarpinu um copy paste pólitíska umræðu.

Hvað er til ráða?

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>