«

»

Molar um málfar og miðla 2061

ENN UM VIÐTENGINGARHÁTT

Úr Morgunpósti Kjarnans (25.11.2016): ,, Frétt Benedikt Jóhannesson segir að hugmyndir Katrínar Jakobsdóttur um að bæta við hátekjuskattþrepi á laun sem voru yfir einni og hálfri milljón króna á mánuði og að leggja á stóreignaskatt höfðu ekki verið kynntar formönnum þeirra flokka sem hún ræddi við um stjórnarmyndun þegar þær birtust í viðtali við hana í Fréttablaðinu.“. Hér hefði auðvitað átt að standa: … hefðu ekki verið kynntar …. Undarlegt hvað notkun viðtengingarháttar vefst fyrir mörgum fréttaskrifurum.

https://mail.google.com/mail/u/0/?shva=1#inbox/1589af2263f3d2b8

 

HRAÐASTUR ALLRA

Hamilton var hraðastur allra, sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps á föstudagskvöld(25.11.2016).Hann var að segja okkur frá ökumanni , sem ók hraðast allra í ökukeppni, -í kappakstri.Ekki gott orðalag.

 

RÍKISSJÓNVARPIÐ VERSLAR JÓLAGJAFIR

Í fréttum Ríkissjónvarps (25.11.2016) kom fréttamaður á skjáinn og sagði frá kreditkorta njósnum danska tímaritsins Se og hör. Fréttamaður sagði: ,, …. hvar Frederik krónprins og Mary versluðu jólagjafir ...“. Hér á árum áður hefði fréttamanni, sem léti sér slíka ambögu um munn fara, ekki verið hleypt að hljóðnema fyrr en hann væri búinn að læra að nota sagnirnar að að kaupa og að versla rétt og í samræmi við íslenska málvenju. – Hvar krónprinsinn og Mary keyptu jólagjafir. Engin verkstjórn. Hvar er málfarsráðgjafi?

 

SMÆLKI

*Úr íþróttafréttum Bylgjunnar (24.11.2016):… íþróttamaðurinn hefur tilkynnt að hann er hættur í knattspyrnu. Margir fréttamenn ráða ekki við að nota viðtengingarhátt.

*Landsbankinn segist vera óheimilt að …sagði þulur í Kastljósi (24.11.2016).Landsbankinn sagði sér óheimilt að…. Hefði það átt að vera. Eða: Landsbankinn segir óheimilt að …

*Slettur, ekkert lát er á þeim: Fréttatíminn auglýsti Black Friday (23.11.2016). Í sama blaði auglýsti Vogue Black Friday, sama gerði Heimkaup og Hagkaup auglýsti Outlet. Í Fréttablaðinu daginn eftir auglýsti leikfangaverslunin Toys(are)Us, Black Friday, sama gerði Debenham´s. Hér má bæta við fyrirtækjunum Dorma, Ellingsen og Húsgagnahöllinni sem öll styðjast við þessa amerísku eftiröpun, Black Friday. Raunar eru þau fyrirtæki næstum óteljandi, sem slettu þessu á okkur á föstudaginn (25.11.2016). Eitt fyrirtæki orðaði það þannig að hjá því væri Black Friday, föstudag, laugardag og sunnudag! Á föstudeginum voru blöð og ljósvakamiðlar löðrandi í þessum sóðaskap. Molaskrifari lýsir ábyrgð á hendur auglýsingum stofum og kaupmönnum. Ábyrgð þeirra er mikil. Þetta er atlaga að íslenskri tungu. Er það einhverskonar íslensk vanmetakennd, minnimáttar tilfinning,sem þarna ræður för. Hallast að því?

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>