«

»

Molar um málfar og miðla 2062

TAKK KASTLJÓS

Margir eru áreiðanlega miður sín eftir að hafa horft á umfjöllun Kastljóss um eggjabúið Brúnegg í gærkvöldi (28.11.2016) . Þetta var hrikalegt. Molaskrifari veit eiginlega ekki hvorir voru verri verksmiðjustjórar eggjabúsins (- þetta var eiginlega allt í lagi- en það voru frávik, við brugðumst við !) eða ráðuneytin og embættismennirnir sem voru trúnaðarmenn almennings. Allt brást. Allir brugðust. Þetta var verðlaunafréttamennska, Tryggvi Aðalbjörnsson, Guðmundur Bergkvist og Ingi R. Ingason.Takk

 

UM RÁS EITT

 1. skrifaði Molum (25.11.2016): ,, Ágæti Eiður
  Hef ekki fylgst nógu vel með þáttum þínum nýlega.
  Veit því ekki hvort eg endurtek kvartanir, vona það þó.

  Dagskrá Rásar eitt, flaggskips Ríkisútvarpsins, er undirlögð dægurtónlist. Í hinum ágæta þætti Morgunverði meistaranna er sárasjaldan flutt sígild tónlist, verra verður það í öðrum nýjum þætti Flugum, þar sem gamlir slagarar eru spilaðir í sögulegu samhengi. Mjög vel gert en er þetta rétt rás?

  Verra tekur við undir lok síðdegisútvarpsins. Þar var áður þátturinn Víðsjá sem hafði tvo tíma til ráðstöfunar og úr mörgu að moða. Var margt vel gert í þættinum. Nú hefur samnefndur þáttur klukkutíma, fjallar um allskyns dægurmál, popptónlist og tölvuöpp! Kvenkyns stjórnandi þáttarins hefur ekki tök á hefðbundnum framburði tungunnar, akki veður uppi í stað orðsins ekki og margt fleira mætti tína til. Eiríkur Guðmundsson heldur enn dampi í Lestinni, en þar er annars fátt um fína drætti.

  Eg hlustaði um daginn á furðulanga umfjöllun um þýska málmhljómsveit í öðrum hvorum þessara þátta (þeir renna dálítið saman í huganum) og undarlega frásögn um nýja hljómplötu söngskvísunnar Britney Spears, hvort tveggja efni sem á ekkert erindi á Rás eitt.

  Eg sakna sígildrar tónlistar á daginn, hvað væri dagskráin til dæmis án Unu Margrétar sem dregur fram hvern gullmolann öðrum betri úr fjársjóði Ríkisútvarpsins, sem gefa þarf miklu betri gaum en gert hefur verið. Atli Freyr Steinþórsson, Arndís Björk Ásgeirsdóttir og ýmsir fleiri sinna sígildri tónlist samhliða fréttatíma sjónvarpsins klukkan 19. Hver hlustar?

  Margt er enn gott á Rás eitt, eg sakna viðtala Sigurlaugar á morgnana, fylgist með Lísu flakka, geri ekki athugasemdir við fréttastofu sem alltaf er gagnrýnd, hlusta á Óðin á morgnana, hlusta eins og eg get.

  Skrúfaði niður í sungnum og leiknum auglýsingum í fyrstu, nenni því ekki alltaf lengur. Svona vinnur plebbavæðing Ríkisútvarpsins á.
  Þakka gott starf, Eiður.“

Kærar þakkir H. Fyrir þetta ágæta bréf og hlý orð um þessa viðleitni til að benda á það sem betur má fara í málfari, málnotkun í fjölmiðlum.

 

DEKKUN RÍKISÚTVARPSINS

Eftirfarandi er af vef Ríkisútvarpsins: ,, Það eru mikil verðmæti fólgin í því að ná sem mestri dekkun þegar kemur að auglýsingum. Dekkun RÚV er einstök ...“

Orðið dekkun er ekki að finna í orðabókinni. Þar er hins vegar sögnin að dekka, að þekja. Sögð óformleg, sem sé ekki vandað mál. Ríkisútvarpið á að vanda sig.

 

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>