«

»

Molar um málfar og miðla 2063

ÓÞÖRF ORÐ

Molavin skrifaði (29.11.2016):,, Óþörf uppfyllingarorð eru oft sett í hugsunarleysi í fréttatexta. Í hádegisfrétt Ríkisútvarps í dag (29.11.) var t.d. sagt að „bólivísk farþegaþota með 81 innanborðs“ hefði farizt. Ekkert rangt við það, en er ekki óþarfi að taka það sérstaklega að farþegarnir hafi verið innanborðs í þotunni. Sömuleiðis hefur iðulega verið sagt í fréttum að eitthvað hafi sprungið „í loft upp“ – jafnvel flugvélar á flugi. Myndrænar lýsingar geta átt við í fréttum en ofnotkun þeirra sljóvgar bitið.“ Rétt athugað. Kærar þakkir fyrir bréfið, Molavin.

 

ENN VERSLAR RÍKISÚTVARPIÐ JÓLAGJAFIR

Á fréttavef Ríkisútvarpsins (29.11.2016), stingur í augu fyrirsögnin: Fleiri versla jólagjafir á netinu.  Við verslum ekki jólagjafir. Við kaupum jólagjafir.

Er málfarsráðunautur áhrifalaus um málfar í Ríkisútvarpinu?

http://www.ruv.is/frett/fleiri-versla-jolagjafir-a-netinu

Ríkisútvarpið þarf að taka sig á.

 

BANNFÆRING BÍLA

Sveinn skrifaði Molum (27.11.2016): ,,Sæll Eiður,
þetta þótti mér svolítið skondið hjá Netmogga. ,,Útiloka ekki að bannfæra dísilbíla“
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/11/27/utiloka_ekki_ad_bannfaera_disilbila/
En réttilega er talað um bann í fréttinni sjálfri og líklega um klaufagang að ræða hjá blaðamanni.“ Þakka bréfið, Sveinn. Já eitt, er bann, annað er bannfæring, segir orðabókin og málvitund flestra

 

 

NÚ ER KOSIÐ UM ALLT

Atkvæðagreiðslur heyra sögunni til. Nú er kosið um allt. Ríkisútvarpið virðist vera fremst í flokki þeirra sem nota þetta orðalag. Úr frétt (26.11.2016): Tillagan var lögð fram af Evrópusambandsþingmanni frá Lúxemborg. Kosið verður um tillöguna á þinginu fyrir árslokAtkvæði verða greidd um tillöguna, – það er í samræmi við málvenju. Kosning er eitt. Atkvæðagreiðsla annað. Svo er þolmyndin í fyrri setningunni óþörf, – eins og oftast. Germynd er alltaf betri.

http://www.ruv.is/frett/bretar-geti-keypt-ser-esb-rettindi

 

ILLA ORÐUÐ FRÉTTATILKYNNING

Þetta er úr fréttatilkynningu sem birt var á mbl.is (26.11.2016) : ,, Saga Víf­il­fells­nafns­ins er samofið sögu Coca-cola hér á landi og nær aft­ur um næst­um 75 ár“.

Þarna hefði farið betur á að segja: Saga Vífilsfellsnafnsins er samofin sögu … og , — á sér næstum 75 ára sögu.

Hér er ekki eingöngu við blaðamenn að sakast. Þetta var lesið orðrétt í fréttum Bylgjunnar á hádegi þennan sama dag. Þetta hefðu glöggir blaðamenn átt að lagfæra. Fjallið sem verksmiðjan er kennd við heitir reyndar ekki Vífilsfell heldur Vífilfell að því Molaskrifari veit best. En fyrra nafnið hefur líklega unnið sér þegnrétt í málinu.

http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2016/11/26/vifilfell_skiptir_um_nafn/

 

ÞINGMAÐUR DANSKA ÞINGSINS

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps á laugardag var talað um þingmann danska þingsins. Eðlilegra hefði verið að tala um danskan þingmann, eða þingmann á danska þinginu. Við tölum ekki um þingmenn Alþingis. – Enginn les yfir.

 

MEÐLIMIR

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (29.11.2016) var sagt frá flugslysi og talað um alla meðlimi brasilísks knattspyrnuliðs. Of margir hafa of mikið dálæti á orðinu meðlimur. Það er ofnotað. Þarna hefði betur farið á tala um liðsmenn eða leikmenn.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>