«

»

Molar um málfar og miðla 2064

FJÁRDRÁTTUR

Of margir fréttaskrifarar fara rangt með orðtök. Eftirfarandi er af fréttavef Ríkisútvarpsins (229.11.2016): ,, Starfsmaður, sem hefur í lengri tíma starfað við bókhald í Landsbankanum, hefur verið rekinn vegna gruns um fjárdrátt. Vísir.is greinir frá þessu og segir hann sakaðan um að hafa dregið að sér á fjórða tug milljóna króna.‘‘ Hér  hefði átt  að segja: … að hafa dregið sér á fjórða tug milljóna króna. Ekki dregið að sér. Að draga sér  er að útvega sér,  eða  taka eitthvað til sín óheiðarlega.  Að draga fé er hins vegar  að , færa sauðfé í dilk  eigandans  ( í rétt), segir orðabókin. http://www.ruv.is/frett/starfsmadur-landsbankans-grunadur-um-fjardratt

Rangt var farið með þetta í sjöfréttum Ríkisútvarps, sömuleiðis í morgunþætti Rásar tvö. Í fréttayfirliti klukkan  hálf átta var þetta rétt. Þetta var einnig rétt á mbl.is – Ekki í fyrsta skipti sem fjölmiðlar fara rangt með þetta.

 

SYNGUR FYRIR FRAMAN FÓLK

Undarleg fyrirsögn á mbl.is (28.11.2016):  Mun syngja fyrir  framan 6.000 manns. Stúlkan mun syngja fyrir  sex þúsund manns.

Fréttin er heldur  ekki mjög  lipurlega skrifuð. Þar segir meðal annars:,, …  en hún er nú í óða önn að und­ir­búa sig fyr­ir stærðar­inn­ar jóla­tón­leika sem fara fram 10. des­em­ber næst­kom­andi.

Tón­leik­arn­ir eru af stærri gerðinni og fara þeir fram í Laug­ar­dals­höll,…“

http://www.mbl.is/folk/frettir/2016/11/28/mun_syngja_fyrir_framan_6_000_manns/

 

ER BRAD PITT KOMINN MEÐ NÝJA?

Gott er fyrir okkur sem lesum  fréttavef Morgunblaðsins mbl.is  að geta treyst því að  við séum  upplýst um það  mikilvægasta sem er að gerast í veröldinni, – eins og það hvort leikarinn Brad Pitt sé kominn með nýja kærustu.

http://www.mbl.is/folk/frettir/2016/11/28/er_brad_pitt_kominn_med_nyja/

Algjörlega ómissandi fróðleikur.

 

AUGLÝSINGASLETTURNAR

Á mánudagskvöldið (28.11.2016) var okkur  sagt í fréttum Ríkissjónvarps að verið væri að halda upp á  sæber mondei (e. Cyber Monday) , rafrænan mánudag. Enskan kom  fyrst. Svo kom íslenskan. Dæmigert. Því miður.

Í vaxandi mæli finnur maður hve mörgum er misboðið með málfarssóðaskap í auglýsingum um þessar mundir.  Þarna er við ýmsa að sakast. Þá sem semja þennan sóðalega texta, þá sem  greiða  fyrir að birta hann og þá sem fá greitt fyrir að birta sóðaskapinn.

Hér áður fyrr  var ákvæði í auglýsingareglum Ríkisútvarpsins um að auglýsingar skyldu vera á ,,lýtalausu íslensku máli“.  Þessar reglur finnur Molaskrifari ekki lengur á vef   Ríkisútvarpsins og sýnist einna helst að þær hafa verið felldar úr gildi árið 2002. Getur það verið? Hver ber ábyrgð á því. Menntamálaráðherra? Útvarpsstjóri?

Ríkisútvarpið á að vera til fyrirmyndar um málfar.  Það gildir ekki aðeins um dagskrá, –   það  gildir líka um auglýsingar. Á auglýsingadeild Ríkisútvarpsins virðist enginn sem, hefur þá dómgreind, hefur bein í nefinu til að hafna auglýsingum, sem eru að hálfu leyti eða meira á ensku. Á hrognamáli.   Því miður.

Sveinn Einarsson, leikstjóri , fyrrverandi Þjóðleikhússtjóri og dagskrárstjóri Ríkissjónvarpsins skrifaði prýðilega grein, ,,Dagur íslenskrar tungu –  og hinir“ í Morgunblaðið sl. mánudag ( 28.11.2016). Þá grein ættu sem flestir að lesa.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>