«

»

Molar um málfar og miðla 2065

METFÉ – TALAÐ FYRIR DAUFUM EYRUM

Molaskrifari verður að sætta sig við það að hann talar oft fyrir daufum eyrum en reynir að hugga sig við hið fornkveðna, að dropinn holi steininn.

Oft, mjög oft, hefur verið fjallað um það í Molum ( Þáttum 2057,1944, 1819,1567og 1358) að orðið metfé þýðir ekki metupphæð. Það er ekki hægt að tala um að eitthvað seljist fyrir metfé. Í tíufréttum sjónvarps (29.11.2016) var okkur sagt að handrit að 2. Sinfóníu Gustavs Mahlers hefði selst á uppboði fyrir metfé. Þetta er röng orðnotkun. Handritið seldist fyrir metverð, hærra verð en nokkuð annað sambærilegt handrit. Sá sem notaði þetta orð í þessari frétt hefði átt að fletta upp í Íslenskri orðabók, en þar stendur: Metfé 1 verðmikill hlutur, úrvalsgripur. 2 fornt/úrelt e-ð sem ekki var fast verðlag á, en meta varð til fjár hverju sinni (aðilar tilnefndu sinn matsmanninn hvor). Handrit Mahlers var metfé. Það seldist fyrir metverð. Er þetta mjög flókið?

 

SÆÐINGAVERTÍÐ SAUÐKINDANNA

Sæðingavertíð sauðkindanna að hefjast, segir í fyrirsögn á mbl.is (30.11.2016). Þetta er líklega nýtt orð yfir það sem áður var kallað fengitími, þegar hleypt var til (,,sá tími árs sem dýr eru tilbúin til mökunar, ýmist einu sinni á ári eða oftar eftir tegundum- um sauðfé, tíminn þegar hleypt er til ánna (frá því skömmu fyrir jól fram í janúar)“- Ísl. orðabók). Nú fá ærnar ekki hrútana lengur, – heimur versnandi fer! http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/11/30/saedingavertid_saudkinda_ad_hefjast/

 

STÆRSTI LEIKURINN

Rafn skrifaði Molum (30.11.2016):,, Sæll Eiður.

Ert þú svo fróður að geta frætt mig um hvernig stærð knattspyrnuleikja er mæld?? Er leikið á misstórum leikvöllum?? Eru mismargir leikmenn eða mislangur leiktími?? Er þetta ef til vill bundið við áhorfendafjölda sem getur verið afar mismunandi?

Ég hefi aldrei sett mig inn í íþróttamál af þessum toga.

Klausan er úr netútgáfu Morgunblaðsins. – Kveðja Rafn

Er­lent | AFP | 30.11.2016 | 6:38 | Upp­fært 8:24

,, Voru á leið í sinn stærsta leik Knatt­spyrnu­heim­ur­inn minn­ist leik­manna bras­il­íska knatt­spyrnuliðsins Chapecoen­se en liðið nán­ast þurrkaðist út í flug­slysi í gær. Liðið var á leið í sinn stærsta leik – úr­slita­leik Copa Su­da­mericana, næst­stærstu keppni fé­lagsliða í Suður-Am­er­íku.“

Molaskrifari þakkar Rafni bréfið. En þessu getur hann því miður ekki svarað,- jafn ófróður sem hann nú er um knattspyrnuleiki. En er það ekki viðtekin venja í heimi boltans að tala um stórleiki og stórmót? Er þetta kannski eðlilegt framhald af þeirri orðræðu? Knattspyrnuleikir séu sem sagt misstórir!

FUNDUR ÖRYGGISRÁÐSINS

Margsagt var í fréttum Ríkisútvarps að morgni miðvikudags (30.11.2016):,, Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur fram á sérstökum neyðarfundi í dag …“ Ráðið kemur ekki fram á sérstökum neyðarfundi. Ráðið heldur sérstakan neyðarfund.  Ráðið kemur saman til neyðarfundar. Boðaður hefur verið sérstakur neyðarfundur í ráðinu. Enginn les yfir.

MEÐVRIKNI OG VELFERÐ DÝRA

Sólmundur sendi eftirfarandi (30.11.2016) Hann segir: ,,Sæll,

Get nú ekki annað en sent þér athugasemd um þessa frétt á mbl.is 30.11 ( í dag). Kannski þú getir reynt að lesa þessa illa skrifuðu grein, mætti stytta um helming og fyrirsögnin ???“

Molaskrifari þakkar Sólmundi bréfið. Fréttin er reyndar af fréttavef Ríkisútvarpsins.

Fyrirsögnin er illskiljanleg, að ekki sé meira sagt: Meðvirkni gangi framar dýravelferð. Molaskrifari lætur lesendum Molanna eftir að dæma skrifin. Sjá: http://www.ruv.is/frett/medvirkni-gangi-framar-dyravelferd

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Að sjálfsögðu,Valdimar!

  2. Valdimar Kristinsson skrifar:

    Alltaf eitthvað nýtt og „skemmtilegt“ í boði á netmiðlinum. Las grein um sjúkraflutninga á mbl.is þar sem tal var um umtalsverða skýjahæð.
    Setningin var svohljóðandi: „Um­tals­verð skýja­hæð og þoka var á leiðinni svo fljúga þurfti lágt meðfram ströndu en flugið gekk eft­ir sem áður vel, sam­kvæmt til­kynn­ing­unni.“ Ég þykist skilja það svo að hér hafi verið átt við að lágskýjað hafi verið! En hefði ekki bara verið einfaldara og skilmerkilegra að segja: Lágskýjað var og þoka var á …osfrv.
    Kveðja
    Valdimar

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>