«

»

Molar um málfar og miðla 2066

FYRIR HÉRAÐI

Molavin skrifaði (02.12.2016): ,, „Áður hafði málið tapast fyrir héraði…“ sagði Þorbjörn Þórðarson fréttamaður Stöðvar 2 ítrekað í kvöldfréttum (2.12). Málvenja er að tala um að tapa „í héraði“ eða fyrir héraðsdómi. Menn tapa ekki fyrir héraði, því hérað er ekki málsaðili. – Nema þetta sé orðfæri lögmanna?

Almennt kæruleysi í meðferð málsins er löngu orðið daglegt lýti á fréttaflutningi.“ – Molavin bætti svo við:,, – Kannski mætti bæta þessari stuttu skýringu við. Hún er frá Jóni G. Friðjónssyni í málfarspistli hans 2005:

,,Orðatiltækið hefna þess í héraði sem hallaðist á Alþingi vísar til þess að margir eru djarfari á heimaslóðum, heimavelli (héraðsþingi), en annars staðar. Það mun eiga rætur sínar að rekja til lausavísu eftir Pál lögmann Vídalín (d.1727): Kúgaðu fé af kotungi, / svo kveini undan þér almúgi; / þú hefnir þess í héraði, / sem hallaðist á alþingi.

– Það er því miður rétt, Molavin. Á bágt með að trúa að þetta sé orðfæri lögmanna.  Þakka bréfið.

 

VILLUTEXTI Á DV.IS

Sá sem skrifaði þessa frétt á dv.is (30.11.2016) hefur ekki til að bera þá þekkingu á íslensku að honum sé treystandi til að skrifa  fréttir. Tvö dæmi:,, .. þegar báturinn var að reka upp í kletta við Lófót í norður Noregi.“  Báturinn var ekki reka eitt eða neitt. Bátinn var að reka upp í kletta. ,,,, Það fór þó betur en á horfðist en allir fimm í áhöfn bátsins var bjargað um borð í þyrluna á síðustu stundu.“ Allir fimm var ekki bjargað … öllum fimm var bjargað. Þessi dæmi eru ekki það eina, –  svo eru stafsetningarvillurnar.

Þarna skortir greinilega allan metnað til að gera vel.

Sjá: http://www.dv.is/frettir/2016/11/30/geir-skipstjori-ja-godan-daginn-vid-erum-i-sma-klandri-herna-otrulegt-myndskeid/

 

TVÖFÖLD LAUN

Rafn skrifaði (01.12.2016): ,,Sæll Eiður

Neðanskráð má lesa á visi.is. Mér þykir nóg um, að nýir alþingismenn njóti einir nýrra ríkisstarfsmanna þeirra kjara, að fá laun sín greidd fyrir fram í byrjun mánaðar, þótt þeim séu ekki líka greidd tvöföld laun. Fyrirframgreiðslan ein veldur því, að nýjum þingmönnum eru í dag greidd rúmlega tveggja mánaða einföld laun og tilheyrandi „kostnaðarendurgreiðslur“, sem ég veit ekki hvort eru greiddar fyrir fram ellegar eftir á, en að greiða launin tvöföld í þokkabót. Það þykir mér fulllangt gengið.

Eða er ef til ekki rétt með farið í fyrirsögninni hér fyrir neðan? Fréttin sjálf bendir til að fyrirsögnin geti verið röng, aðeins sé um að ræða einföld laun fyrir tvo mánuði (auk eins dags í október).“ Þetta síðast talda er sennilega rétt Rafn. En hér er fréttin af visir.is: http://www.visir.is/32-thingmenn-fa-greidd-tvofold-laun-i-dag/article/2016161209961

 

ÓLÍFRÆNAR LANDBÚNAÐARAFURÐIR

Hér er meira frá Rafni (01.12.2016): ,,Sæll Eiður

Hér kemur ein athugasemd enn í sarpinn. Hér segir Ríkisútvarpið á vef sínum, að það sé merkingarlaust, að ræða um vistvænar landbúnaðarvörur, en neytendur geti hins vegar treyst því, þegar vara sé vottuð sem lífræn framleiðsla.

Samkvæmt mínum málskilningi getur landbúnaðarafurð aldrei verið annað en lífræn. Ef hún er það ekki, þá hefði ég haldið, að um væri að ræða iðnaðarvöru, væntanlega framleidda úr steinefnum eða öðrum ólífrænum efnum. Orðin „vistvæn vara“ þrengja hins vegar sviðið, þótt skort geti á reglur þar um og eftirlit með hvort framleiðsluferli sé í raun vistvænt.

Er það ég sem er skilningssljór? eða eru yfirvöld á villigötum, þegar þau gefa út reglur um lífrænar vörur??“. Þakka þessa ábendingu Rafn. Þú hefur óneitanlega nokkuð til þíns máls. Sjá: Spegillinn · Neytendamál 13:30

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>