«

»

Molar um málfar og miðla 197

  Ritstjórar og fréttastjórar ættu að taka sér tak og kenna fréttaskrifurum að fallbeygja nöfn  fyrirtækja. Í fréttum Stöðvar tvö (10.11.2009) var sagt: … send fréttatilkynning frá Nýja Kaupþing. Átti auðvitað að vera : …frá Nýja Kaupþingi. 

 Sigraði píanókeppnina, sagði umsjónarmaður Kastljóss við okkur í kvöld (11.11.2009) er hún kynnti efni þáttarins. Aftur og aftur sömu villurnar. Menn sigra ekki keppni. Menn geta unnið sigur í keppni eða haft sigur. Er enginn hjá Sjónvarpinu, sem getur lesið yfir kynningartexta þeirra,sem ekki  hafa nægilega gott vald á íslensku? 

Ríkisútvarpið, sjónvarp, færir sig nú upp á skaftið og auglýsir bjór milli frétta og  veðurfrétta um klukkan 19:30 á kvöldin. Þessi menningarstofnun  íslenska ríkisins er hér að fara í kring um gildandi lög í landinu sem banna áfengisauglýsingar. Það er til skammar.  Síðar um kvöldið bætti þessi löghlýðna ríkisstofnun um betur; sýndi  tvær  bjórauglýsingar  fyrir  tíu fréttir, tvær  bjórauglýsingar milli tíufrétta og  veðurfrétta og tvær  bjórauglýsingar eftir  veðurfréttir. Hvernig  er hægt að ætlast til að  borgarar landsins  beri  virðingu fyrir lögum og   fari að lögum þegar  ríkisstofnun hegðar sér á þennan  veg? 

Í fréttum RÚV sjónvarps (11.11.2009) var fjallað um mat á lánshæfi landsins. Á skjánum stóð : Á bláriminni. Þetta orð,   blárimi, er nýtt fyrir Molaskrifara og hefur honum hvergi tekist að finna það í þeim orðabókum,sem honum eru tiltækar. Í fréttayfirliti í lok frétta stóð hinsvegar á skjánum að þetta héngi á bláþræði. Það er gott og gilt orðalag um eitthvað sem brugðið getur til beggja vona með. Líklega hefur orðtakið að hanga á horriminni eitthvað verið að þvælast  fyrir þeim sem þetta skrifaði, en það getur  þýtt að  vera  illa staddur  fjárhagslega.

    Úr Vefdv (10.11.2009)… ásamt því að hafa svipt tveimur drengjum um tólf ára aldur frelsi. Hér hefði átt að standa: … ásamt því að hafa svipt tvo tólf ára drengi frelsi. Einhver er sviptur einhverju. Svo er ekkert um tólf ára aldur. . Annað hvort hafa drengirnir verið tólf ára eða ekki.  

   Ekki þótti Molaskrifara falleg fyrirsögnin í Vefmogga (11.11.2009): Fór túrinn á aðeins 14 klst Verið var að segja frá því að svanur hefði flogið 800 kílómetra vegalengd  frá Íslandi til vetursetu í Skotlandi á aðeins 14 klukkustundum. Óþarft var að nota orðið túr um þetta snarpa langflug og að auki er venja að setja punkt í lok skammstöfunar , – klst. – klukkustund.  

Í morgunþætti Rásar tvö (11.11.2009) talaði umsjónarmaður um að uppljóstra eitthvað. Sögnin að uppljóstra eða uppljósta tekur með sér þágufall. Að uppljóstra einhverju. 

 

 Ýmislegt áhugavert var í fréttum Skjás eins og Mogga (10.11.2009). Vondur texti skemmdi fréttina um hvernig  þjófaflokkarnir, sem nú vaða hér um allt losa sig við þýfið,  ýmist með því að selja það hér eða senda til útlanda. Ásýnd veðurfregnanna er prýðileg. En hvernig væri að bæta  hita(kulda)stiginu í Winnipeg inn á kortið af Norður Ameríku ? Það er hér með lagt til. Það var hinsvegar óþarfi hjá veðurfréttamanni (11.11.2009)  að segja:  Himininn var víða opinn.  Það minnir eiginlega á   jólasálminn ágæta: Sjá himins opnast hlið….

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Steini Briem skrifar:

    Tungumál eru ekki stærðfræði og þau eru ekki alltaf rökrétt.

    Málvenja er að segja „á Dalvík“ en ef jafnmargir segðu „í Dalvík“ væri hvorutveggja rétt, því helmingur þjóðar, eða meirihluti hennar, getur ekki haft rangt fyrir sér í þessum efnum. Þar ríkir lýðræði án kosninga en ekki einræði eða fáræði málfræðinga og gæsalappafræðinga, sem tókst með fláræði að útrýma hér flámæli.

    Sigraði keppnina“ kemur um þrjú þúsund sinnum fyrir hér á Netinu en „vann keppnina“ þrisvar sinnum oftar, um níu þúsund sinnum, og er því væntanlega málvenja. „Sigraði keppnina“ verður trúlega einnig málvenja fljótlega og er jafnvel orðið það nú þegar, því fjórðungur þjóðarinnar er 80 þúsund manns.

    Hins vegar myndi ég aldrei segja „sigraði keppnina“, það er viðbjóður að mínu mati og að öðru leyti er ég sammála Eiði hér að vanda.

  2. Kári Waage skrifar:

    En geta menn unnið sigur? Það hljómar eins og þeir hafi att kappi við sigur.

  3. Sverrir Einarsson skrifar:

    Himinn er eitthvað sem er fyrir ofan okkur og fjarlægðin gerir blá, ef þar opnast hlið hvað kemur þá í ljós.

    Ef hægt væri að ganga á enda veraldar og þú kæmir þar að vegg, hvað er þá hinumegin við vegginn?

  4. Steini Briem skrifar:

    Veðurskortur í Winnipeg,
    en vindur í Efstaleiti,
    í fréttum öll nef undarleg,
    að ýmsu þar nú leyti.

  5. Eygló skrifar:

    Bjórauglýsingarnar í RÚV eru til skammar og hreint óþolandi að þeir komist upp með að birta þær… ár eftir ár.

    … og Víkings sem alltaf krefst virðingar!   bjööövð

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>