«

»

Molar um málfar og miðla 2069

HUGTAKANOTKUN FJÖLMIÐLA

Sigurjón Skúlason, stjórnmálafræðingur, sendi Molum eftirfarandi bréf (03.12.2016) ,, Heill og sæll Eiður

Þú hefur verið ötull við að benda á það sem betur mætti fara í fjölmiðlum, ekki síst réttri notkun tungumálsins. Ég er hérna með athugasemd sem snýr meira að réttri hugtakanotkun fjölmiðla, ég veit ekki hvort þér finnst hún ríma við það sem þú ert vanur að birta.

Svo virðist sem aukning sé á ónákvæmri hugtakanotkun miðla eða að fjölmiðlamenn skilji einfaldlega ekki hugtökin sem þeir eru að reyna að beita. Oft getur þetta haft mikil áhrif á inntak frétta. Nýjasta dæmið, með því grófara sem ég hef séð í nokkurn tíma, birtist í grein á Vísi í dag (3.12.2016) en hún var einnig birt í Fréttablaðinu:

Fréttin „Ítalir kjósa um stjórnarskrárbreytingu“ var skrifuð af Guðsteini Bjarnasyni sem er titlaður sem „einn helsti sérfræðingur fréttastofunnar í fréttum af erlendum vettvangi“ á heimasíðu Vísis.

Þar skrifar hann að umræddar stjórnarskrárbreytingar „snúast um að einfalda stjórnkerfið og styrkja völd stjórnarinnar í Róm á kostnað héraðanna.“ og að „[Matteo] Renzi [forsætisráðherra] segir þessa stjórnkerfisbreytingu skilyrði þess að geta komið á þeim efnahagsumbótum sem hann vill gera á Ítalíu.“

Seinna í fréttinni skrifar hann að fremstir í flokki andstæðinga breytinganna séu meðlimir Fimmstjörnuhreyfingar grínistans Beppe Grillo – sem vann stóran kosningasigur árið 2013 þegar hann stillti sér upp andspænis gömlu stjórnmálaflokkunum (kannski einhvers konar Jón Gnarr þeirra Ítala?).

Um afleiðingar þess að breytingunum yrði hafnað skrifaði hann svo að „Sigur svokallaðra lýðskrumsafla á Ítalíu væri einnig mikill ósigur fyrir vestrænt lýðræði.“

Ég tek það fram að ég bý ekki að mikilli þekkingu á ítölskum stjórnmálum, mér finnst hins vegar vítavert að breytingar sem miða að því að auka vald ríkisstjórnar á kostnað valddreifingar í lýðræðisríki sé lagt að jöfnu við lýðskrum. Hvað þá að skrifa að ef almenningur í Ítalíu taki ekki í mál að afhenda forsætisráðherra aukin völd til þess að koma fram sínum áherslum í efnahagsmálum þá sé það ósigur lýðræðis á Vesturlöndum!

Sé orðinu lýðskrum flett upp í orðabók þá er skilgreiningin sú að þar fari maður með
skjall, skrum fyrir almenningi eins og hann vill heyra. Það þarf í sjálfu sér ekki að vera slæmt að segja fólki það sem það vill. Nær væri þó að nota skilgreiningu Guðrúnar Kvaran prófessors á Vísindavef háskólans en þar segir hún að lýðskrum sé m.a. „stjórnmálama[ður] sem tekur afstöðu til mála eftir því úr hvaða átt vindurinn blæs meðal almennings eða aflar sér fylgis með því að beina kröftum sínum að lægstu hvötum kjósenda

-Hér stillir helsti sérfræðingur fréttastofunnar málum þannig upp að hlýði ítalskur almenningur ekki kröfum stjórnmálamanns um aukið vald sér til handa þá sé lýðurinn að láta glepjast af fólki með annarlegar hvatir og sé að veita vestrænu lýðræði skráveifu.

Eru þetta eðlileg fréttaskrif?

http://www.visir.is/italir-kjosa-um-stjornarskrarbreytingu/article/2016161209627
M.b.kv.
Sigurjón Skúlason, stjórnmálafræðingur“. Þakka bréfið, Sigurjón. Það sýnist auðvitað hverjum sitt um þessi  skrif.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>