«

»

Molar um málfar og miðla 2070

ENN ER KOSIÐ

Hér er aftur og aftur minnst á sömu hlutina. Í seinni fréttum Ríkissjónvarps (05.12.2016) var sagt: „Ítalska þjóðin kaus gegn stjórnarskrárbreytingum….“. Hér hefði verið eðlilegra að segja , til dæmis: Ítalska þjóðin hafnaði stjórnarskrárbreytingum…. Ítalska þjóðin felldi stjórnarskrárbreytingar …  Ekk,i kaus gegn. –  Hvað segja lesendur? Er þetta sérviska Molaskrifara?

 

VIÐSKIPTI

Í Kastljósi (005.12.2016) var fjallað um viðskipti með hlutabréf og sagt: ,, …. og seldi hlutabréf í tveimur viðskiptum ….“. Molaskrifara hefði þótt eðlilegra að tala um tvenn viðskipti ekki tvö viðskipti.

 

RÉTT EÐA RANGT?

Geir Magnússon, sem er búsettur erlendis, sendi Molaskrifara þetta bréf (07.12.2016):

,,Kæri Eiður

Las þáttinn þinn í morgun.

Moggabörnin eru alltaf söm við sig, svara fullum hálsi, ef þeim er bent á hugsanlega villu.

Um daginn var frétt um aldraða kú, sem hafði borið, þrátt fyrir háan aldur..

Fréttin byrjaði á dönskum greini,”hin” og fann ég að því.

Danskur greinir, eða laus greinir, ríður húsum hjá mbl.is og virðist enginn þar hafa neitt við það að athuga.

Fréttaritari svaraði mér og sagði íslenzkufræðing þeirra ekkert hafa við þetta að athuga.

Í annarri frétt, um barn, sem dó úr ofhitnun í bíl, sagði, að faðirinn hefði skilið það eftir “tímunum saman” þennan dag.

Ég fann að þessu, mér finnst að “tímunum saman” megi ekki nota um einstaka bið, heldur endurtekinn atburð eins og til dæmis :”Hann kemur hér oft og situr þá tímunum saman”.

Er þetta rangt hjá mér?

Kveðja Geir“. Molaskrifari þakkar bréfið. Rétt eða rangt,- stundum erfitt að segja, en Molaskrifarit rekur undir með þér, Geir.

 

 

ÞINGSETNING OG FLEIRA

Molaskrifara fannst það stílbrot að sjá í sjónvarpsfréttum silfurlitan farsíma liggja á borði iðnaðar- og viðskiptaráðherra við þingsetninguna sl. þriðjudag (06.1.2016). Sömuleiðis að sjá þingmann, sem virtist niðursokkinn í að senda smáskilaboð með farsímanum sínum. Þetta er ef til vill gamaldags viðhorf, en þetta finnst skrifara nú samt.

Í frétt Ríkissjónvarps um þingsetninguna var vitnað í ræðu Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands og sagt: Hann taldi fleira hafa hrunið hér en bankarnir. Þetta er rangt og ekki við forsetann að sakast, heldur þann sem skrifaði fréttina. Þetta hefði átt að vera: Hann taldi fleira hafa hrunið hér en bankana. Einnig var sagt, að á fundinum hefði verið hlutað til um sæti þingmanna. Það var hlutað um sæti þingmanna. Þingmenn drógu tölusetta teninga úr kassa. Á teningunum voru númer sætanna í þingsal. Enginn las yfir.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>