«

»

Molar um málfar og miðla 2071

KOLMUNNI- SVARTKJAFTUR

Á mbl.is (08.12.2016) segir frá því að Bjarni Ólafsson AK 100 hafi fengið 1500 tonn, fullfermi, af kolmunna á tveimur dögum á Færeyjamiðum á tveimur dögum. Í fréttinni segir: ,, Kol­munni er upp­sjáv­ar­fisk­ur af þorska­ætt og dreg­ur nafn sitt, jafnt sem viður­nefnið svart­kjaft­ur, af því að munn­ur hans er svart­ur að inn­an.“

Hér fatast fréttaskrifara svolítið flugið. Svartkjaftur er ekki viðurnefni. Svartkjaftur er færeyska heitið á kolmunna. ,,Slag af smáum toskafiski“ (Micromesistius poutassou). Segir færeyska orðabókin mín. Fiskurinn, sem heitir grálúða á íslensku, heitir svartkalvi á færeysku. Norðmenn kalla kolmunnann kolmule.

http://www.mbl.is/200milur/frettir/2016/12/07/bjarni_sopadi_upp_svartkjaftinum/

 

SAMRÆMI

Í útvarpsfréttum (Rás eitt 08.12.2016) var sagt: Mennirnir gátu ekki samrýmt framburð sinn, – að minnsta kosti gat Molaskrifari ekki heyrt betur. Um var að ræða menn, sem höfðu verið handteknir. Þeir gátu ekki samræmt framburð sinn, – þeim bara ekki saman. Klúðurslega orðað, reyndar.

 

STAÐSETNING

Margir texta- og fréttaskrifarar hafa dálæti á sögninni að staðsetja. Hún er nær alltaf óþörf. Í nýlegri auglýsingu frá Íslandsbanka segir: Hraðbankar verða áfram staðsettir á Garðatorgi, á Digranesvegi og í Mjódd. Orðinu staðsettir er ofaukið. Hraðbankar verða áfram á Garðatorgi, á Digranesvegi og í Mjódd.

 

 

Í UPPHAFI …

Molaskrifari hefur stundum nefnt, að tilefni þess að hann hóf ritun þessara Mola var meðal annars það, að hann hnaut um sitthvað í fréttum og fréttaskrifum. Nokkrum sinnum sendi hann tölvupóst til fréttastofu Ríkisútvarpsins með vinsamlegum ábendingum um það sem betur mætti fara í málfari. Einu sinni, aðeins einu sinni, barst svar , – og þakkir frá fréttamanni.

Molaskrifari ákvað laugardaginn 3. desember að gera aðra tilraun af þessu tagi, – senda fréttamanni/umsjónarmanni þáttar skilaboð á útvarpsvefnum með vinsamlegri ábendingu.

Tilefnið var að hann hafði hlustað á langan og fróðlegan þátt á Rás eitt um Tasmaníu og Tasmaníu tígurinn. Að minnsta kosti fjórum sinnum talaði umsjónarmaður og þulur um skipsverja, ekki skipverja eins og rétt er. Sagt var að tígur hefði andast. Dýr drepast, fólk andast.

Nú er liðin meira en vika frá því athugasemdin var send. Ekkert svar. Það er gamall íslenskur siður að svara ekki bréfum. Ekki er það góður siður.   En kannski er umsjónarmaður þeirrar skoðunar að hlustendur eigi ekki að hafa neinar skoðanir á málfari í Ríkisútvarpinu. Komi það ekki við. Molaskrifari er annarrar skoðunar. Annars er þessi umsjónarmaður  prýðilega máli farinn, en öllum getur skjöplast.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>