«

»

Molar um málfar og miðla 2072

SKJÖLUN

Molaskrifari les ekki auglýsingar Fréttablaðsins að jafnaði. Glöggur vinur benti honum á  auglýsingu í Fréttablaðinu sl. laugardag (10.12.2016) Þar auglýsir fyrirtækið Össur: ,, Sérfræðingur í skjölun á klínískum upplýsingum vegna þróunar og markaðssetningar lækningatækja“. Vinur skrifara spurði hvort orðið skjölun væri dregið af sögninni að skjala. Í auglýsingunni kemur fram að starfið felist í ,, gerð og viðhaldi skjala til staðfestingar á virkni lækningatækja ….“ Molaskrifari þakkar ábendinguna. Skjölun er varla dregið af sögninni að skjala. Sú sögn þýðir nefnilega samkvæmt orðabókinni að þvaðra, masa, tala af ábyrgðarleysi, eða að gorta, gambra, stæra sig af. Skjala af framgöngu sinni. – Það var og. Þarna er greinilega verið að gefa gömlu orði nýja merkingu, – alls óskylda hinni fyrri. Örugglega hafa fleiri hnotið um þetta.

 

MEIRA UM AUGLÝSINGAR

Sigurður Sigurðarson skrifaði Molum (09.12.2016): ,,N1 birtir auglýsingu með villu á forsíðu Fréttablaðsins 8. desember 2016:

13 krónu afsláttur fyrir N1 korthafa. Í dag færð þú 13 krónu afslátt af hverjum eldsneytislítra og tvo N1 punkta að auki.

 

Þetta ætti að vera 13 króna afsláttur því um er að ræða krónur í ef. fleirtölu. Væri um eintölu að ræða væri sagt einnar krónu afsláttur. Máltilfinningin hlýtur að gera vart við sig ef sett er eitthvað annað orð í staðinn fyrir króna, til dæmis fugl … Ekki er hægt að segja þrettán fugls aflsáttur heldur þrettán fugla aflsláttur.

 

Orðið króna beygist svo í eintölu; króna, krónu, krónu, krónu. Í fleirtölu; krónur, krónur, krónum króna.“ Þakka bréfið, Sigurður.

Hér er svo annað dæmi um villu í auglýsingu, sem lesin var á Rás eitt sl. föstudag: ,, Verðlækkun á öllum lifandi jólatrjám vegna styrkingu krónunnar“. Þetta á að vera vegna styrkingar krónunnar.

Í Fréttatímanum (09.12.2016)auglýsir Tapasbarinn: ,,Kalkúnabringa með spænskri ,,stuffing“ og ….“ Er ekki ,,stuffing“ fylling á íslensku? Kannski þekkti höfundur auglýsingarinnar ekki það orð.

Skrítið að engum á auglýsingadeild Ríkisútvarpsins skuli detta í hug að leiðrétta jafn augljósa slettu og hér er á ferð.

Molaskrifari spyr: Er hann einn um að vera orðinn þreyttur á görguðum og groddalegum auglýsingum Lottósins, íslenskrar getspár í útvarpi?

Útvarpsauglýsingar frá Kaupfélagi Borgfirðinga og Hamborgarabúllu Tómasar eiga það til að vera bráðskemmtilegar. Hrós fyrir það. Meira máli skiptir að vera hógvær og kurteis, en grófur og ágengur. Það skilar betri árangri, þegar upp er staðið.

 

UM RISAEÐLUHALA

Rafn skrifaði (09.12.2016): ,,Sæll Eiður.

Hér ræðir vefur Mogga um nýfundinn risaeðluhala. Að sögn er um að ræða fjöður úr hala risaeðlu á stærð við spörfugl.

Í minni sveit hétu halar af þessum toga stél og ekki veit ég hvort „eðla“ á stærð við spörfugl hefði verið nefnd risaeðla á þeim slóðum.“

Þetta er fréttin: ,, Fallegur“ risaeðluhali finnst í rafi. http://www.mbl.is/frettir/taekni/2016/12/09/fallegur_risaedluhali_fannst_i_rafi/

Já, svolítið skrítin skrif. Þakka bréfið, Rafn.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Jón skrifar:

    Ég heyrði sögnina að skjala notaða um daginn í útvarpsviðtali við borgarskjalavörð að mig minnir. Líklega hafa þeir skjalaverðir verið orðnir þreyttir á sögninni að arkívera.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>