«

»

Molar um málfar og miðla 2073

FYRIR EÐA HANDA?

Sveinn skrifaði(11.12.2016): Sæll Eiður,
ég var að fletta sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins og sá þar fyrirsögnina: Jólagjafir fyrir börnin. Fyrir neðan var svo textinn: Það getur stundum reynst erfitt að finna fullkomna gjöf fyrir mikilvægasta fólkið.

Vegna þess að þetta kemur fyrir í tvígang og í annað skiptið í fyrirsögn velti ég fyrir mér hvort þetta sé ekki örugglega villa. Það eru jú kynntar á síðunni hugmyndir að gjöfum handa börnum.

Á ekki örugglega að standa ,,Jólagjafir HANDA börnum“ og ,,Það getur stundum reynst erfitt að finna fullkomna gjöf HANDA mikilvægasta fólkinu?“ Þakka bréfið, Sveinn. Sammála þér. Þarna færi betur á að tala um jólagjafir handa börnum, ekki fyrir börn.

 

PISA

Pisa skýrsla og slök frammistaða íslenskra nemenda hefur verið til umræðu. Eiríkur Rögnvaldsson málfræðiprófessor hefur réttilega gagnrýnt og birt dæmi um vondar, klúðurslegar  og jafnvel torskiljanlegar þýðingar úr prófinu. Hver á að gæta varðanna, gæti maður spurt. Í morgunþætti Rásar tvö (12.12.2016) var rætt við ,,uppeldis- og menntunarfræðing“, fyrrum skólastjóra. Þar talaði viðmælandinn um strúktúrbreytingar, að markera og addressa dag íslenskrar tungu. Ég er enn að velta fyrir mér hvernig skólafólk addressar dag íslenskrar tungu.  Ja, hérna. Fyrir utan þrisvar sinnum ég mundi segja …. Það var og. Kannski er ekki nema von, að börnin sletti, ef fyrirmyndirnar tala svona.

FALLBEYGINGAR

Í fréttum Ríkisútvarps á laugardagskvöld (10.12.2016) sagði fréttaþulur skírt og greinilega: ,, ..og Tryggvi Aðalbjörnsson talaði við Birgittu Jónsdóttir þingflokksformann Pírata. Við ætlumst til þess að fréttamenn kunni að beygja og nota orðin móðir og dóttir. Er það til of mikils mælst? Þetta er hluti af námsefni grunnskólans. Þetta var rétt í fréttum klukkan 22 00. Svo var rætt við Birgittu Jónsdóttur, sem sagði um stjórnarmyndunarviðræðurnar, sem enginn vissi þá hvort voru formlegar eða óformlegar eins og tönnlast var á í fréttum: ,, … við verðum að koma með einhverjar konkrít tillögur.“ Katrín Jakobsdóttir notaði hins vegar orðið handfast, – eitthvað sem hægt er að festa hönd á. Enska orðið concrete, þýðir m.a. raunhæfur eða áþreifanlegur. Það getur líka þýtt steypa, steinsteypa.

 

RÁÐAHAGUR – RÁÐABRUGG

Í útvarpsþætti á Rás eitt sl. laugardag var fjallað um Syngman Rhee, fyrsta forseta ( og gjörspilltan einræðisherra Suður Kóreu, 1948 til 1960). Þar var talað um þennan ráðahag Rhees, – átt var við ráðabrugg, eða launráð. Ráðahagur þýðir allt annað, – ráðahagur þýðir kvonfang,  ekki ráðabrugg eins og umsjónarmaður líklega hélt. Orðabækur eru þarfaþing, ef maður er ekki viss í sinni sök.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>