«

»

Molar um málfar og miðla 2079

 

SÍBRJÓTUR

Molavin skrifaði ( 22.12.2016): ,, „Síbrjótur dæmdur fyrir þjófnað og árás“ segir í fyrirsögn fréttar á vef Ríkisútvarpsins (22.12.). Það er gaman og gleðiefni þegar tekin eru upp lipur orð, gagnsæ og auðskiljanleg. Þetta orð, síbrjótur“ er liprara en síbrotamaður en segir það sama.“ Ágætis orð. Þakka bréfið, Molavin

 

STAFSETNING OG BEYGINGAR

Jt benti á eftirfarandi af mbl.is:

,,Afritaði þetta af mbl.is – hér vantar eitthvað á stafsetningarkunnáttu og beygingarkunnáttu (sjá það sem er undirstrikað)

Tækni & vísindi | mbl | 21.12.2016 | 12:05

Hyllir undir lok „hallærisins“ Íbúar á norður­slóðum sem þrauka nú í gegn­um svart­asta skamm­degið geta þakkað mönd­ul­halla jarðar fyr­ir að hýr­ast í myrkri nær all­an sóla­hring­inn. Nú hyllir hins veg­ar und­ir lok hallær­is­ins því vetr­ar­sól­stöður voru í morg­un og sól­in fer að staldra leng­ur við á dag­inn á norður­hvel­inu.

200 mílur | mbl | 21.12.2016 | 11:42
Fengu bók um örlög fyrsta Dettifoss Áhöfn­in á Detti­fossi var af­hent bók­in Ljós­in á Detti­fossi eft­ir Davíð Loga Sig­urðsson sagn­fræðing en í bók­inni skrá­ir hann sögu afa síns, Davíðs Gísla­son­ar stýri­manns, og fjall­ar bók­in um hinstu för skips­ins.- Þakka ábendinguna Jt. Rétt er að þarna skortir nokkuð upp á kunnáttu í stafsetningum og réttum beygingum. – Enn eitt dæmið um að enginn les yfir áður en birt er. Það er ljóður á ráði fjölmiðils ,sem mikið er lesinn.

 

FRÉTTAMAT

Einkennilegt fréttamat hjá Ríkisútvarpinu að leggja stóran hluta Spegilsins, – aðalfréttatíma og fréttaskýringatíma útvarpsins (21.12.2016) undir viðtal við Birgittu Jónsdóttur þingmann Pírata um bandaríska uppljóstrarann Edward Snowden, sem nú er undir verndarvæng Pútíns í Moskvu.

Hver var fréttin? Birgitta vill að Snowden fái íslenskan ríkisborgararétt. Það er gömul frétt. Nokkurra ára gömul. Þetta var einkennilegt fréttamat. Gat ekki heyrt að neitt væri nýtt í þessu.

 

HAMBORGARAHRYGGIR OG FLEIRA

Enn eru auglýstir hamborgarahryggir í Ríkisútvarpinu (22.12.2016), þegar átt er við hamborgarhryggi. Kannski þessir hryggir gerðir úr hamborgurum? Skrítið að enginn skuli leiðrétta svo augljósa villu. Ku8nnátta í beygingum og málfræði íslenskrar tungu mætti vera meiri á auglýsingastofu. Sama dag voru auglýstir tónleikar til styrktar Mæðrastyrksnefndar. Til styrkar Mæðrastyrksnefnd , hefði þetta átt að vera. ( Til styrktar Guðrúnu, – ekki til styrktar Guðrúnar)

 

 

HÖFUÐ LÖGREGLU

Dálitið ankannaleg fyrirsögn á bls. 8 í Fréttablaðinu (21.12.2016): Höfuð lögreglu í Svíþjóð víki. Fréttin er um að leiðtogi Hægri flokksins í Svíþjóð hafi krafist afsagnar ríkislögreglustjórans þar í landi.

 

ANDVARI Í PÓLITÍK

Ef marka má nafnlausa Staksteina Morgunblaðsins (22,12,2016) er Andvari, rit Hins íslenzka Þjóðvinafélags komið á kaf í pólitík, – ritstjórinn leggst þar í vörn fyrir fyrrverandi forsætisráðherra, sem hrökklaðist úr embætti af ástæðum sem þjóðin öll þekkir. Þetta er undarlegt og kemur örugglega mörgum áskrifendum ritsins á óvart.

 

HVERADALIR

Örnefni skila sér ekki alltaf rétt í fréttum. Í óveðursfréttum Ríkisútvarps á þriðjudagskvöld (20.12.2016) var sagt frá bíl eða bílum sem lent höfðu í vandræðum vegna ófærðar í Hveradalsbrekku. Átt var við brekkuna vestur af Hellisheiði eða upp frá Svínahrauni á heiðina, fram hjá Skíðaskálanum. Þar heita Hveradalir. Við tölum um Skíðaskálann í Hveradölum. Stundum er brekkan líka kennd við skálann og kölluð Skíðaskálabrekka. Þetta hefur áður borið á góma í Molum.

 

GLEÐILEG JÓL OG GÆFURÍKT ÁR, ÁGÆTU MOLALESENDUR !

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>