«

»

Molar um málfar og miðla 2080

AÐ VANDA MÁL SITT

Kannski er það ekki lengur til siðs hjá sumum blaðamönnum að vanda mál sitt. Í Ljósvakapistli í Morgunblaðinu rétt fyrir jólin (22.12.2016) var skrifað: ,, Jóladagatöl hafa verið fastur liður hjá flestum börnum á þessum árstíma og var slíkt algjört ,,möst“ á mínum uppvaxtarárum“. Möst er ekki íszlenska , ,,möst“ er slangur sem  á ekki heima Morgunblaðinu.Hér áður fyrr hafði Morgunblaðið metnað til að gera vel og vanda málfar. Það virðist vera liðin tíð, – því miður. Hvað svo sem veldur. Það er umhugsunarefni.

 

ÖNNUR UMFERÐ…ÞRIÐJA UMFERÐ Á ALÞINGI

Af forsíðu mbl.is (22.12.2016) Þar sem sagði frá afgreiðslu fjárlaga á Alþingi: ,,Þakk­læti, já­kvæðni og hlý orð ein­kenndu síðustu ræður nefnd­ar­manna í fjár­laga­nefnd sem stigu í pontu Alþing­is í kvöld við lok annarr­ar umræðu um fjár­lög 2017. Voru þau samþykkt í ann­arri um­ferð nú á ní­unda tím­an­um, en þriðja um­ferð fer vænt­an­lega fram síðar í kvöld.“ Fjárlög voru samþykkt við lok annarrar umræðu. Fjárlög voru svo endanlega samþykkt við lok þriðju umræðu síðar um kvöldið og send ríkisstjórninni sem lög frá Alþingi.

Hvaða rugl er þetta? Hér hefur fréttabarn, eins og stundum er sagt, viðvaningur, verið að verki og enginn lesið yfir eða leiðbeint. http://www.mbl.is/frettir/

 

SÖNGHÓPUR HERSINS

,, 64 listamenn úr opinberum sönghópi rússneska hersins voru um

borð í þotu hersins sem hrapaði í Svartahaf á þriðja tímanum í nótt. ,,

Þetta er úr frétt á mbl.is á jóladag. Frétt um hörmulegt flugslys er rússnesk þota, sem var nýbúin að hefja sig til flugs hrapaði í Svartahafið og 91 maður fórst, allir sem um borð voru. Þeirra á meðal voru 64 söngmenn úr heimsfrægum kór Rauða hersins. Blessað barnið, sem þýddi þessa frétt notar þrisvar sinnum orðið sönghópur. Hefur ef til vill ekki heyrt talað um kór.

http://www.ruv.is/frett/songhopur-hersins-i-flugvelinni-sem-forst

 

SKORTUR Á FRAMBOÐI!

Úr frétt á visir.is um íbúðaverð í miðbænum í Reykjavík (22.12.2016):,, Það náttúrulega skiptir mjög miklu máli í þessu sambandi að það er væntanlega töluverður skortur á framboði, það vantar fleiri íbúðir inn á markaðinn“. Þetta er haft eftir hagfræðingi hjá Landsbanka Íslands. Molaskrifara finnst fremur ólíklegt að hagfræðingurinn hafi talað um skort á framboði! Framboðsskorturinn skýrist í lok setningarinnar. Eðlilegra hefði verið að tala um lítið framboð af íbúðum.

 

HILLIR UNDIR

Trausti skrifaði (23.12.2016) um tilvitnun í mbl.is ,sem áður hefur verið vikið að í Molum: Hyll­ir und­ir lok hallær­is­ins var þar sagt.
,,Já, það er þetta með muninn á „að hylla“ og „að hilla“, sem einhverjum gengur illa að skilja. Ekki þarf að óttast að sögnin „að hilla“ þýði að eitthvað sé sett á hillu, en hér er e.t.v. þörf á nánari fræðslu og útlistun orðanna.“ Þakka bréfið Trausti. Þetta bar á góma í síðasta Molapistli http://www.mbl.is/frettir/taekni/2016/12/21/hyllir_undir_lok_hallaerisins/

 

KUNN8!

Molaskrifara verður á í messunni eins og öðrum. Innsláttarvilla var í síðasta pistli. Góður vinur Molanna benti skrifara á þetta og sagði (22.12.2016):,, Og af því að þú skrifar (óvart) Ku8nnátta í Molum dagsins, sjá hér að neðan, er spurning hvort þú átt ekki að ganga alla leið eins og Ameríkanar gera í nútíma styttingum og skrifa bara kunn8….!?“ Þetta stóð í Molum: ,,Ku8nnátta í beygingum og málfræði íslenskrar tungu mætti vera meiri á auglýsingastofu“.

– Þetta er góð ábending , en svo langt leiddur er skrifari ekki ! Þakka bréfið og biðst vel virðingar á innsláttarvillunni.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>