«

»

Molar um málfar og miðla 2081

ENN UM KOSNINGAR OG ATKVÆÐAGREIÐSLUR

Það er með ólíkindum hvað sumum fréttamönnum gengur illa að greina á milli kosninga og atkvæðagreiðslna. Þetta hefur oft verið nefnt í Molum.

Í áttafréttum að morgni Þorláksmessu var sagt í Ríkisútvarpinu: ,,Kosningu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um fordæmingu á landtöku ‚Ísraelsmanna á vesturbakka ….“Það var ekki verið að kjósa um fordæmingu. Það átti að greiða atkvæði í ráðinu um ályktun þar sem ólögmæt landtaka Ísraelsmanna var fordæmd. Seinna í fréttinni var réttilega talað um atkvæðagreiðslu. En það er undarlegt hve mörgum fréttaskrifurum gengur illa að hafa þetta rétt.

 

SAMDAUNUN!

Geir Magnússonvinur Molanna, skrifaði (23.12.2016): ,,Heill og sæll
Ekki veit ég hvort samdaunun sé rétt mál hjá mér, en ég stend mig að því að taka sumum villum unglinganna hjá mbl.is með jafnaðargeði.
Til dæmis þessar óralöngu málsgreinar, þar sem orðið “en” er (mis)notað til að tengja saman setningar, sem ættu að standa einar.
Sama má segja um þann ósið að endurtaka nafn í stað þess að nota persónufornafn.(Var í langloku um Björk í morgun).
Þessi samdaunun mín minnir mig á sænskt ljóð í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar („Í Afríku eru svartir menn, sem aldrei klæða sig…“ og endar á “nú spila ég á skóhornið og spila bara vel, það verður loksins vani að vera Móríani”.
En við skulum ekki gefast upp heldur halda áfram að nudda í þessu. Kannski Davíð gefi sér tíma til að gefa út dagskipun í anda Stefáns heitins fógeta “Íslenzkir fréttamiðlar skulu vera ritaðir á íslenzku” „

Þakka þér bréfið, Geir. Já, það skortir nokkuð á að íslenskir fréttamiðlar séu skrifaðir á íslensku, – sletturnar eru því miður of margar.

 

EITTHVAÐ TJÓN

Af mbl.is (23.12.2016) úr frétt um eldsvoða í bílskúr í Kópavogi:,, Greiðlega gekk að slökkva eld­inn og er eitt­hvað tjón á inn­an­stokks­mun­um en það var reyk­skynj­ari í bíl­skúrn­um sem senni­lega hef­ur komið í veg fyr­ir að tjónið yrði meira“. Þetta hefði mátt skrifa svona, -til dæmis: Greiðlega gekk að slökkva eld­inn. Tjón varð á inn­an­stokks­mun­um, en reyk­skynj­ari í bíl­skúrn­um hefur senni­lega komið í veg fyr­ir að tjónið yrði meira.


AÐ SKELLA SÉR Í MESSU!

Úr frétt á mbl.is á jóladag, þar sem segir frá hefðbundinni jólamessu ,sem margir úr breskukonungsfjölskyldunni sóttu. Þessi kirkjuferð er árlegur viðburður. :,, Megnið af ensku kon­ungs­fjöl­skyld­unni skellti sér í jóla­dags­messu í morg­un. “Ekki er Molaskrifari viss um að fyrrverandi ritstjórar , eða núverandi ritstjóri, séu sáttir við þetta orðalag. Þeir ættu ekki að vera.

http://www.mbl.is/folk/frettir/2016/12/25/konungbornir_skelltu_ser_i_messu/

 

AÐ VERSLA GJAFIR

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á aðfangdag spurði fréttamaður Ríkisútvarpsins á Akureyri vegfaranda: Er þetta í fyrsta skipti, sem þú verslar jólagjöf á aðfangadag? Sá sem fyrir svörum varð, var ekki að versla jólagjafir. Hann var að kaupa jólagjafir. – Þetta er sára einfalt , en samt svo flókið, að það mörgum fjölmiðlamanninum ofviða að hafa þetta rétt. Fréttamanninum varð sömuleiðis einkar tíðrætt um að redda

 jólagjöfum !

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>