Molaskrifari horfir ævinlega á veðurfréttir í sjónvarpinu. Mikill áhugamaður um veðurfar. Að öðrum veðurfræðingum ólöstuðum finnst honum Einar Sveinbjörnsson gera veðrinu best skil. Hann er bara of sjaldan á skjánum. Einar sýnir okkur jafnan hitastig í Færeyjum og sýnir eða nefnir hitann á Kanaríeyjum.
Margir vilja gjarna vita af veðrinu á þessum stöðum. Ekki sakaði að Nuuk, höfuðstaður Grænlands fylgdi með. Molaskrifari skilur ekki hvers vegna ekki er alltaf hægt að sýna Færeyja- og Kanaríeyjahitann á veðurkortinu. Hvað er því til fyrirstöðu? Svo virðist heldur ekki nein regla á því, hvort okkur er sýnt veðrið í Evrópu og í Vesturheimi, einkanlega um helgar , – oftast er það reyndar gert.
Málfar í veðurfregnum og veðurspám er yfirleitt með ágætum, en ekki kann skrifari við orðalagið, – þá verður búið að lægja, – þá hefur lygnt, – og í viðtali á annan í jólum heyrði skrifari ekki betur en sagt væri, að miklar umhleypingar yrðu næstu daga. Miklir umhleypingar, rysjótt veðurfar. Nú er búið að snjóa talsvert, var sagt á miðnætti á annan í jólum.
Já, veðurfarið hefur verið rysjótt yfir hátíðarnar, ekki bara hjá okkur heldur og í Færeyjum, Noregi og víðar. Aftakaveður var í Færeyjum, sem olli nokkrum skaða. Sérkennilegt var að Ríkisútvarpið skyldi ræða Færeyjaveðrið við konu á Suðurey, þar sem veðrið var ekkert í líkingu við það sem var á norðureyjunum, til dæmis í Þórshöfn á Straumey og enn norðar eins og í Götu á Austurey. Ríkisútvarpið hlýtur að vera með fréttaritara í Þórshöfn. Líka var skrítið að mbl.is þótti fréttnæmt að það skyldi taka Íslending, sem ætlaði að dveljast í Færeyjum yfir jól og áramót með fjölskyldu sinni, fimm klukkustundir að komast til Færeyja. Það er ekki frétt. – Molaskrifari starfaði tæp tvö ár í Færeyjum. Einu sinni tók þrjá daga að komast þangað frá Reykjavík. Fyrst var reynt tvisvar að lenda á Vágaflugvelli, en ekki lendandi og því snúið til baka til Reykjavíkur. Daginn eftir var reynt aftur en þá höfðu aðstæður skyndilega breyst í Færeyjum og ekki einu sinni reynt að lenda, heldur flogið til Kaupmannahafnar og gist þar. Þriðja daginn tókst að komast til Færeyja, – og þótti ekkert sérstaklega fréttnæmt.
LOKUN – OG FLEIRA
Í fréttum Bylgjunnar á aðfangadag var sagt: Pósthús voru lokuð klukkan tólf. Hefði átt að vera: Pósthúsum var lokað klukkan tólf.
Í fréttum Ríkisútvarps klukkan eitt eftir miðnætti aðfaranótt aðfangdags var sagt: … og bátana hvolfdi … – Bátunum hvolfdi.
ENSKAN
Nýlega var hér í Molum vikið að brugghúsi, ölgerð, í Vestmannaeyjum. Þar þykir sjálfsagt að nota enskuna. Fyrirtækið heitir The Brothers Brewery, á íslensku: Bræðrabrugg. Í Kastljósi (22.12.2016) var tætt við stjórnanda íslensks kórs. Kórinn heitir Vocal Project Poppkór. Íslenskan dugar ekki. Kannski ekki nægilega fín.
Í sama þætti sagði umsjónarmaður um söngvara: Hann var ekki að mæma, hann söng þetta. Að mæma er enskusletta ( e. mime). Átt var við að söngurinn hefði ekki verið tekinn upp áður, upptakan leikin og söngvarinn bara látið sem hann væri að syngja með látbragði og með því að bæra varirnar. Algengt í sjónvarpi, oft gert til að tryggja betri hljómgæði.
ENN UM ÞÝÐINGAR
Á jóladag birti mbl.is frétt um konu sem fyrir 34 árum lifði af fall úr rúmlega tíu km hæð, er flugvél þar sem hún var flugfreyja sprakk á flugi. Í þýddri frétt mbl.is segir hvað varð konunni til bjargar:,, Hún festist í keilu á afturhluta flugvélarinnar (cone of the tail) og eftir 10.160 metra (33.300 feta) fall lenti hún á jörðinni“. Konan festist aftast í stéli vélarinnar. Til hvers að skýra þetta fyrir okkur á ensku? Þetta eru miður góð vinnubrögð.,
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/12/24/lifdi_af_10_km_fall/
Örlítil viðbót um þýðingar. Í frétt á forsíðu Morgunblaðsins (17.12.2016) var sagt frá SAS vél sem gat ekki lent í Kaupmannahöfn vegna óveðurs. Síðan segir: ,,Vélinni tókst þó að lenda á dönsku eyjunni Bornholm, rétt áður en stormurinn gekk þar á land“. Þessi danska eyja hefur svo lengi sem skrifari man heitið Borgundarhólmur á íslensku. Skrifari hefði ekki talað um að ,,stormurinn gengi á land“, – heldur sagt, áður en óveðrið náði þangað.
LÉST Í KYRRÞEY
Í fréttum Ríkisútvarps á miðnætti á jóladag var sagt svona frá láti frægs erlends tónlistarmanns: Hann lést í kyrrþey á heimili sínu. Þetta var endurtekið í fréttum klukkan eitt og klukkan tvö eftir miðnætti. Enginn las yfir. Hann fékk hægt andlát á heimili sínu.
Mbl.is segir líka frá láti söngvarans og orðar það sínum hætti:,, Í tilkynningu frá fjölmiðlafulltrúa hans kemur fram að Michael hafi látist „friðsamlega heima hjá sér.“ Hrá þýðing úr ensku , kannski með hjálp Google. Á netsíðu theguardian sagði: ,, Pop superstar George Michael has died peacefully at home, his publicist said“. Á íslensku er talað um að fá hægt andlát. Þegar ferill tónlistarmannsins var rakinn í hádegisfréttum Ríkisútvarp sá annan í jólum var sagt frá hljómsveit,sem hann var í sem hefði leyst upp laupana. Of algengt að heyra misfarið með orðtök, sem eru föst í tungunni. Að leggja upp laupana, er að hætta, gefast upp. Enginn les yfir. Ekkert gæðaeftirlit með framleiðslunni !
http://www.mbl.is/folk/frettir/2016/12/25/george_michael_latinn/
FLUGUR
Í morgun (29.12.2016) hlustaði skrifari á Flugur, þátt Jónatans Garðarssonar á Rás eitt. Jónatan er mikill fróðleiksbrunnur um dægurtónlistarsöguna og leikur sjaldheyrð lög, sem örugglega gleðja marga. Vönduð framsetning á góðu efni, eins og ævinlega hjá Jónatani. Takk.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar