«

»

Molar um málfar og miðla 2084

ÓGLÆSILEG BYRJUN Á NÝJU  ÁRI

Svona skrifar Sigurjón Molum á nýársdag:

,,Heill og sæll Eiður og gleðilegt nýtt ár.
Ekki byrjar nýja árið glæsilega hjá fjölmiðlum.
Snemma á nýársmorgun blasti þessi fyrirsögn við mér á Mbl.is „Fólkið sem fór á ferlegu ári“. Hér var verið að fjalla um andlát þekktra aðila á nýliðnu ári. Hér hefði verið nær að tala um fólkið sem að féll frá eða einfaldlega fólkið sem lést á árinu. Umfjöllunin sjálf var svo lítið betri en fyrirsögnin.

Svo blasti við mér á vef Ríkisútvarpsins frétt af fólskulegri árás sem framin var á nýársnótt. Fréttin hófst með þeim orðum að „Alvarleg líkamsárás var gerð í Gerðunum í Reykjavík“. M.b.kv. Sigurjón. Þakka bréfið og nýársóskir, Sigurjón. Satt er það,

ekki er þetta góð byrjun.

http://www.mbl.is/folk/frettir/2017/01/01/folkid_sem_for_a_ferlegu_ari/

Og : http://www.ruv.is/frett/alvarleg-likamsaras-i-reykjavik

Vonandi skánar þetta.

 

 

SEM VAR STAÐSETTUR!

Sumir þurfa að staðsetja alla skapaða hluti. Þetta er af mbl.is (30.12.2016): Eld­ur kviknaði í snjó­bíl björg­un­ar­sveit­ar­inn­ar Ársæls sem var staðsett­ur við flug­elda­sölu henn­ar í Skeif­unni í dag. Bíll stóð, eða var, við flugeldasölu björgunarsveitarinnar í Skeifunni.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/12/30/eldur_kviknadi_i_snjobil/

 

 

VANKUNNÁTTA

Aftur og aftur lesum við fyrirsagnir og fréttir þar sem vankunnátta í grundvallaratriðum málfræði tungunnar stingur í augu.

Þetta er af visir.is ( 29.12.20916): Hjúkrunarheimili lokað vegna slæms aðbúnað íbúa.

http://www.visir.is/hjukrunarheimili-a-stokkseyri-lokad-vegna-slaems-adbunad-ibua/article/2016161228840

Var síðar lagfært.

 

LAGERINN TELUR …

Í útvarpsfrétt (28.12.2016) var fjallað um vöruskort í Grímsey vegna þess að þangað hafði hvorki verið hægt að sigla né fljúga vegna illviðra. Nóg væri þó til af flugeldum fyrir áramótin: Lagerinn telur tvö bretti, var sagt. Kannski hefði mátt orða þetta á annan veg. Hvernig telur lagerinn? Tvö vörubretti með flugeldum eru í eynni.

 

MEIRA UM FLUGELDA

Ýmsir sem sáu möguleika á skjótfengnum gróða seldu flugelda í samkeppni við björgunarsveitirnar fyrir áramótin. Fyrirtæki sem kallar sig flugeldar. com auglýsti að hjá þeim fengi fólk flugelda á helmingi minna verði en í fyrra!   Minna verði!  Það var og. Við tölum um lægra verð, ekki minna verð.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>