«

»

Molar um málfar og miðla 2085

EINFÖLD SAMLAGNING

Rafn skrifaði á nýársdag: ,, Sæll Eiður

Það er ekki aðeins málþekking fréttabarna, sem virðist vera fyrir neðan alla hellur. Kunnátta í reikningi og stærðfræði virðist vera á svipuðu stigi. Í minni skólatíð var kennt, að 1+11+1 gæfi útkomuna 13. Í frétt mbl.is hér fyrir neðan verða ein fyrrverandi eiginkona, 11 ættingjar hennar og einn árásarmaður hins vegar að 12 föllnum.“

Þakka bréfið, Rafn. Eigum við ekki að segja að það hafi verið fljótaskrift á þessu?

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2017/01/01/ruddist_i_parti_og_drap_tolf/

ERFITT ER ÞAÐ

Afskaplega reynist mörgum, sem fréttir skrifa, erfitt að nota sagnirnar að kaupa og að versla rétt. Eftirfarandi er af fréttavef Morgunblaðsins mbl.is (30.12.2016): Flug­elda­sala hef­ur gengið vel hjá björg­un­ar­sveit­um Slysa­varn­ar­fé­lags­ins Lands­björgu und­an­farna daga. Stóri dag­ur­inn er samt á morg­un þegar lang­flest­ir versla sér flug­elda. Fólk verslar sér ekki flugelda. Fólk kaupir sér flugelda. Kaupir flugelda.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/12/30/aevintyri_framundan_i_flugeldasolu_2/

 

MEIKAR SENSE!

Á forsíðu Fréttablaðsins (30.12.2016) var svo hljóðandi fyrirsögn: Reggísinfónían meikar sens. Þessi fyrirsögn í Fréttablaðinu er sannarlega ekki til fyrirmyndar. Eiginlega til skammar. Háborinnar skammar. Molaskrifari segir ekki meir.

 

ENSKA ENN

Á hverjum degi er slett á okkur íensku, í fréttum viðtölum og auglýsingum, Á nýársdag var viðtal í Morgunblaðinu við Jón Gnarr , fyrrverandi borgarstjóra, leikstjóra áramótaskaups Sjónvarpsins.

Hann segir þar: Við þurftum svolítið að ákveða hvaða ,,take“ við ættum að taka á ríkisstjórnina. Hvernig við ættum að taka á ríkisstjórninni, hefði verið ágætt að segja á íslensku. Í viðtalinu kemur fram að Jón Gnarr er á förum til Texas til að ,,kenna kúrs í handritagerð við háskólann.“  Þarf að tala um að ,, kenna kúrs“? Hann er greinilega byrjaður að æfa sig. Kunnugir telja, reyndar að í Texas sé fleiri en einn háskóli.

 

FYRIRSAGNARVILLA

Fyrirsagnarvilla var á mbl.is á nýársdag. Fyrirsögnin var svohljóðandi: Öryggisráðið kýs um vopnahléið .

Öryggisráðið var ekki að kjósa um eitt eða neitt. Þar átti að greiða atkvæði um ályktun um vopnahlé í Sýrlandi eins og segir réttilega í fréttinni. ,, Álykt­un Rússa þar sem lýst er stuðningi við vopna­hlés­sam­komu­lagið í Sýr­landi sem þeir og Tyrk­ir höfðu milli­göngu um verður tek­in til at­kvæðagreiðslu í ör­ygg­is­ráði Sam­einuðu þjóðanna. „

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/12/31/oryggisradid_kys_um_vopnahleid/

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>