Eftir að hafa hlýtt á formann míns gamla félags,Blaðamannafélags Íslands, í Ríkisútvarpinu í kvöld þykir mér týra á tíkarskottinu.Það er alvarlegt þegar formaður Blaðamannafélags telur það skerða athafnafrelsi blaðamanna að þeir megi ekki taka mynd úr launsátri af manni í bíl sínum. Maður sem situr inni í bíl sínum er ekki á almannafæri . Hann á að geta verið jafnöruggur fyrir gægjugaurum inni í bíl sínum og hann er heima í stofunni sinni. Samkvæmt þessu finnst formanni Blaðamannafélagsins það allt í lagi að læðast upp að stofuglugganum heima hjá mér og taka mynd af mér inn um stofugluggann. Þetta er nákvæmlega það sama. Á hvaða leið er blaðamennska á Íslandi ? Í öðru lagi hvað líður tvíræðninni þá er fáránlegt að halda því fram að það sé í lagi að slá því upp að Bubbi sé fallinn ,- meiningin sé bara að segja lesendum blaðsins hann sé byrjaður að reykja sígarettur aftur ! Hverskonar rugl er þetta ? Ég trúi því ekki að formaður Blaðamannafélagsins skýli sér bak við útúrsnúninga af þessu tagi. Auðvitað var blaðið að gefa í skyn að Bubbi væri á ný farinn að neyta eiturlyfja. Fyrirsögnin átti að selja blaðið og hefur sjálfsagt gert það. Þetta er sorpblaðamennska af ómerkilegustu tegund. Það er sorglegt að formaður Blaðamannafélags Íslands skuli taka að sér að verja svona skólpræsisskrif.Það er líka slæmt þegar formaður Blaðamannafélags Íslands talar um að “blörra” myndir. Ljót enskusletta og ég er ekki viss um að allir áheyrendur Ríkisútvarpsins hafi skilið hvað hún var að segja. Á blaðamönnum hvílir sérstök skylda að tala skýrt og skrifa skýrt. Tala og rita vandað mál.
Skildu eftir svar