Tveir Íslendingar hafa á síðustu vikum komist á síður vikuritsins TIME. Ólafur Ragnar Grímsson,forseti, vegna endurnýjanlegrar orku á Íslandi. Hann lét þess getið,að Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna , hefði vakið áhuga hans á umhverfismálum. Einhver spyr sjálfsagt hvort hann hafi aldrei hlustað á Hjörleif í gamla Alþýðubandalaginu !Hinn er Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar,sem TIME telur einn af eitt hundrað áhrifamestu einstaklingum í veröldinni. Það er ekki lítið. Í rauninni er merkilegt að íslenskir fjölmiðlar skuli ekki hafa veitt þessu meiri athygli.Þessi umfjöllun TIME er merkileg og sýnir Ísland í samhengi tímans og heimsvæðingar. Hér áður fyrr komst Ísland á síður TIME svona annaðhvert ár, og þá oftast vegna eldgosa, þorskastríða, Bobby Fischers eða Loftleiða.Þetta man ég því ég var fréttaritari TIME í hjáverkum frá 1965 til 1978. Tók við því embætti af Þórði Einarssyni, frænda mínum, síðar sendiherra. Vissum víst hvorugur af frændseminni þá. Þegar ég tók sæti á þingi 1978 tók samstarfsmaður minn í sjónvarpinu, Bogi Ágústsson síðar fréttastjóri við.Nú er það sjálfsagt svo, að stórveldi á borð við TIME þurfa ekki hjáverkafréttaritara á Íslandi eða “stringer” eins og það heitir á ensku. Því veldur breytt heimsmynd og breytt tækni, og samt er Ísland oftar á síðum þessa víðlesna rits en nokkru sinni fyrr.
Skildu eftir svar