Verslanakeðjan Bauhaus, sem opnaði verslun í Reykjavík sl. laugardag, hefur valið sér auglýsingastofu sem ekki er vandvirk og ætti því að vanda um við þá sem hlut eiga að máli eða skipta um auglýsingastofu. Auglýst er drive-in timbursala. Þetta er enskusletta sem á ekkert erindi í íslenska auglýsingu. Fram hefur komið í fréttum að taka varð niður auglýsingaskilti sem búið var að setja upp við verslunina. Í þeim voru villur. Í opnuauglýsingu í Fréttablaðinu (04.05.2012) var stafsetningarvilla í orðinu ávallt = alltaf. Það var í auglýsingunni skrifað ávalt sem þýðir bungulagað eða kúpt. Þetta er grunnskólavilla. Fleiri villur eru reyndar í auglýsingunni.
Í frásögn af opnun þessarar nýju verslunar las fréttamaður Stöðvar tvö óhikað (05.05.2012): … og voru sumir fljótir að grípa það sem ÞEIM langaði í … Svo var íþróttafréttum sama miðils sama sagt um frægan kylfing: … HONUM vantaði aðeins eitt högg til að komast áfram. Þágufallið virðist ráða ríkjum á þessum bæ.
Stundum ruglast menn eitthvað á merkingu orða. Þannig virðist vera um orðið að endurtaka, að gera aftur, að gera upp á nýtt. Æ oftar heyrist, til dæmis hjá manni sem rætt var við í fréttum Ríkisútvarps, að endurtaka aftur. Að endurtaka aftur er bara bull, það nægir að tala um að endurtaka.
Í Kastljósi Ríkissjónvarps (04.05.2012) var rætt við kennara sem ítrekað talaði um að spotta. Konan var ekki að tala um að hæðast að eða draga dár að. Hún var að sletta ensku sögninni to spot, að sjá eða koma auga á. Vonandi talar hún ekki svona við nemendur sína.
Í fréttum er ítrekað talað um fitness og módelfitness, – þá er verið að tala um afskræmingu mannslíkamans sem sumum þykir sérstakt augnayndi. Geta fjölmiðlungar ekki fundið íslenskt orð yfir þetta fyrirbæri ? Í sexfréttum Ríkisútvarps (04.05.2012) var margastagast á þessari fitness-slettu sem er engum til sóma. Hvað segir málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins ?
Ítrekað var í fréttum Stöðvar tvö (04.05.2012) talað um óleyfisíbúðir. Átt var við íbúðir sem höfðu verið innréttaðar í húsnæði sem ekki var ætlað að vera íbúðarhúsnæði. Venjulega hafa þetta verið kallaðar ósamþykktar íbúðir. Orðið óleyfishúsnæði er náttúrulega bara bull, – rétt eins og orðið farandsverkamaður sem notað var í sömu frétt. Farandverkamaður, ekki farandsverkamaður.
Byggingavöruverslanir keppast við að auglýsa eitthvað sem þær kalla verðvernd. Skilmálarnir eru hinsvegar svo flóknir að erfitt er fyrir venjulegt fólk að átta sig á því hvað þetta þýðir. Hvað segir talsmaður neytenda?
Hversvegna segir ágætur prestur við okkur í morgunbæn Ríkisútvarpsins (05.05.2012): Gefðu þér tíma til að elska og vera elskuð. Var hún ekki líka að tala viðokkar karlana sem vorum að hlusta á morgunbænina þennan fallega maímorgun?
Egill Helgason bauð einum af ástmögum Útvarps Sögu í þáttinn til sín í dag (06.05.2012). Sá er búinn að stofna stjórnmálaflokk í kring um sig og eitthvað af Söguhirðinni síhringjandi. Molaskrifari vonar að Agli sé ekkert farið að förlast því þetta var ekkert viðtal, maðurinn bullaði út og suður. Það hefði hinsvegar verið fróðlegt ef Egill hefði beðið hann að miðla okkur af reynslu sinni sem verðabréfamiðlari vestan hafs. Þar er víst ýmislegt frásagnarvert að finna.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
07/05/2012 at 17:37 (UTC 0)
Egill, DV er ekki minn eigin miðill. DV hefur leyfi til að birta það sem ég skrifa á heimasíðuna mína http://www.eidur.is . Ef þú lest Molana mína þá getur þú séð að ég gagnrýni DV ekki síðjur en aðra miðla. Þakka þér ábendinguna um Husky.
Egill Þorfinnsson skrifar:
07/05/2012 at 15:12 (UTC 0)
Eiður, þú mættir stundum gagnrýna þinn eigin miðil Dv.is. Á sömu síðu og þú ritar þetta „blogg“ þitt nr. 903 er fyrirsögn á frétt Husky brillerar………
Eiður skrifar:
06/05/2012 at 16:51 (UTC 0)
Kærar þakkir fyrir þetta, Sigurður Hreiðar. Þessu þarf nauðsynlega að halda til haga. Mér finnst að þú ættir að senda Fréttablaðinu, eða Mogga, grein um þetta.
Sigurður Hreiðar skrifar:
06/05/2012 at 16:07 (UTC 0)
Tók líka eftir konunni sem spottaði.
En þetta með Bauhausinn — verst þykir mér að honum líðst að draga sig til í landslaginu og skrifa sig á Grafarholti. Þangað er þó nokkur spotti, Úlfarsáin rennur þarna í milli eftir dalbotninum sem heitir nú Úlfarsárdalur en hét þegar ég var strákur (fæddur í koti sem stóð á þessari sléttu en er nú horfið) Tjarnengi. Bauhausinn stendur vestan í Lambhagafelli; öxlinni sem gengur suðvestur framundan Úlfarsfelli. Bærinn Lambhagi, þar sem nú stendur m.a. samnefnd salatræktarstöð, stendur sunnan í Lambhagafellinu. — Grafarholt stendur sunnan við Tjarnengið og þar er nú komin allmyndarleg íbúðarhúsabyggð. — Vestast í Tjarnenginu, þar sem bil er milli Grafarholts og Keldnaholts og áður hét Klofningar, stendur nú m.a. Húsasmiðjan sem kennir sig við Grafarholt og með þónokkuð meiri rétti en Bauhausinn, þó ekki sé staðsetningin nákvæm.