„ … Bæjarbúar eiga annað skilið en að bæjarfulltrúar séu að berjast á banaspjótum um keisarans skegg.“ (dv.is 13.05.2012) Þetta er haft eftir bæjarstjóranum í Garðinum í tilefni þess að einn bæjarfulltrúi úr meiriluta Sjálfstæðisflokksins gekk til liðs við minnihlutann í bæjarstjórn. Þetta er líklega tilvitnun ársins. Ekki fleiri orð um það. Blaðamaðurinn sem fréttina skrifar hefur í fréttinni eftir bæjarstjóranum að þetta hafi komið eins og þruma úr heiðskýru lofti. Ætti að vera … úr heiðskíru lofti .
Lesandi vakti athygli á fyrirsögninni Eftirspurn eftir Bauhaus á dv.is og segir: í. „Staglstíllinn er ódrepandi. Aftur og aftur heyri ég íþróttafréttamenn tala um, að
einhver eða einhverjir, einstaklingar eða félagslið, hafi gersigrað mótið. Þó er ekki vitað til þess, að mótið sem slíkt hafi verið meðal keppenda. Harðsnúnasta liðið hafði hins vegar borið sigurorð af öðrum þátttakendum í mótinu.” Skrifari þakkar sendinguna.
Úr mbl.is (10.05.2012): … og hefur síðan 21 styrki verið úthlutað. Molaskrifari er á því að hér ætti að standa: … og hefur síðan 21 styrk verið úthlutað..
Sá ágæti fréttamaður Gissur Sigurðsson gerði góðlátlegt grín að Ólafi Ragnari Grímssyni forseta í morgunútvarpi Bylgjunnar (11.05.2012) Ólafur Ragnar er nefnilega enn einu sinni staddur í útlöndum að gera garðinn frægan. Nú er hann búinn að finna upp leið til að útrýma fíkniefnavandanum í veröldinni. Og hljóp enn einu sinni langt fram úr sjálfum sér þegar hann var að segja útlendingum frá afrekum sínum. Gissuri tókst vel upp er hann sagði frá þessu.
Slúður- og slettusúpa Rásar tvö var á sínum stað á föstudagsmorgni (11.05.2012). Dæmalaus er sá dómgreindarbrestur í Efstaleiti að ausa þessum subbuskap yfir nývaknað fólk. Meðal annars talaði óðamála pistlahöfundur þennan morgun um að skjóta. Við skutum í gær við skutum í dag og við skjótum á morgun, sagði hún efnislega og var að tala um myndatöku vegna auglýsingar. Dagskrárstjórum í Efstaleiti finnst þetta bull greinilega besta mál. Annars væri því ekki hellt yfir okkur vikulega.
Hversvegna (ef svo brýnt er að útvarpa þessu bulli) er konan ekki látin rausa í Virkum morgnum á Rás tvö. Þá væru ambögurnar og sletturnar alla vega ekki eins áberandi?
Forsetningin á með staðarnöfnum virðist vera í sókn. Hún er æ meira notuð í fréttum fjölmiðla. Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (11.05.2012) var rætt við bóndann á Holti í Þistilfirði, eins og það orðað. Molaskrifari hefur aldrei heyrt aðra forsetningu en í með bæjarnafninu Holti hvort sem verið hefur á Suðurlandi eða Suðurnesjum. Kannski er sagt á Holti í Þistilfirðinum.
Molalesandi gerir barnamálið í Mogga að umtalsefni (14.05.2012) og segir: „Í hálkunni misstu einhverjir bíla sína utan í staura og vegvísa. En Morgunblaðið færir slíkar fréttir í barnamál og segir á netsíðu sinni: Einn bíll klessti á ljósastaur og annar á umferðarmerki.“
Lesandi sendi Molum þetta (11.05.2012): ,,Arekstur.is hvetur ökumenn og ekki síður hjólreiðafólk að vanda sig betur í umferðinni og sýna tillitssemi. Starfsmenn Árekstur.is segja að hjólreiðafólk sjáist oft á tíðum ekki vel í umferðinni og það eigi ekki heima á stofnbrautum þar sem hámarkshraði er mikill.” Molaskrifari þakkar sendinguna.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar