Úr mbl.is (20.05.2012) .. hefði hrapað 10-20 metra niður klettabjarg. Orðið klettabjarg er nýyrði sem við getum að skaðlausu án verið. Þetta orð hefur reyndar áður borðið á góma í Molum (417) en þá var sagt: ,,Úr dv. is (27.09.2010): …þegar hann ók einu af farartækjum fyrirtækis síns fram af klettabjargi. Að tala um að aka fram af klettabjargi er bull. Rétt hefði verið að tala um að aka fram af klettum, eða að aka fram af bjargbrún.” Klettabjargið kom einnig við sögu í fréttum Stöðvar tvö (20.05.2012)- ef til vill tekið beint úr mbl.is. Þannig étur hver eftir öðrum og vitleysurnar festast í sessi. Þetta var hinsvegar prýðilega orðað á fréttavef Ríkisútvarpsins: ,,Maður sem var við eggjatöku í Aðalvík á Hornströndum hrapaði tíu til tuttugu metra í bjarginu síðdegis.”
Glöggur lesandi sendi Molum línu og nefnir einnig klettabjarg mbl.is. Hann bendir á fleira úr þessum mikið lesna netmiðli (20.05.2012) : Fíkniefni, hávaði og þvaglát í miðborginni. Já, þvaglát í miðborginni!
Og þetta: ,, Tvö eldsútköll voru. Hið fyrra vegna elds í kofa við Árbæjarsundlaug skömmu fyrir miðnætti. Ekki var talin nein hætta á ferð og afgreiddi slökkviliðið málið löðurmannlega”. Þetta er auðvitað hrein snilld. Þessi lesandi bendir einnig á orðið fjallabjörgunarmenn sem kom fyrir í fréttinni um manninn sem hrapaði í klettabjarginu. Þarna hefði mátt tala um sérþjálfaða björgunarmenn.
Í áttafréttum Ríkisútvarps (21.05.2012) var tekið þannig til orða að eldsvoði hefði komið upp (á Seyðisfirði). Molaskrifari á því að venjast að talað sé um að eldur komi upp þegar kviknar í. Ekki að eldsvoði hafi komið upp. Hins vegar er sagt um stórbruna: Mikill eldsvoði varð á Seyðisfirði …
Dagskrárkynningar á Rás eitt í Ríkisútvarpinu eru yfirleitt alveg prýðilegar og vel fluttar. Það sama verður ekki sagt um Ríkissjónvarpið þar sem kynningar eru afar einhæfar og hvimleiðar. Þar er tönnlast á hér – hikk – á rúv svona tíu sinnum á kvöldi. Það er auðvitað brýnt að hamra þetta svona inn í hausinn á okkur heimskum hlustendum að verið sé að auglýsa efni í Ríkissjónvarpinu ekki á Skjá einum, ÍNN eða Stöð tvö.
Fréttamatið hjá Ríkisútvarpinu orkaði tvímælis í miðnæturfréttum á sunnudagskvöld (20.05.2012). Þá var löng fyrsta frétt um andlát poppsöngvarans Robins Gibbs sem verið hafði fársjúkur um skeið. Vissulega frétt. En ekki löng fyrsta frétt.
Í Morgunblaðinu í dag (22.05.2012) setur sendiherra Þýskalands á Íslandi svo rækilega ofan í við leiðarahöfunda Morgunblaðsins að annað eins hefur ekki sést lengi. Tilefnið var tilefnislaus árás leiðarahöfundar Moggans á sendiherra ESB á Íslandi og fáránleg og órökstudd ásökun um íhlutun hans um innanríkismál okkar.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
22/05/2012 at 23:22 (UTC 0)
Að sjálfsögðu. Var reyndar einnig búinn að reka augun í þetta.
Emil Ragnar Hjartarson skrifar:
22/05/2012 at 22:11 (UTC 0)
Í Pressunni er sagt frá rækjuveiðiskipi sem leki kom að og var „tæplega eins metra hár sjór í vélarrúminu“ þegar björgunarmenn komu til aðstoðar.
Var sjórinn ekki eins metra djúpur ?—eða hvað