Líklegast er það hluti af landlægu virðingarleysi fyrir lögum og reglum að Ríkissjónvarpinu skuli líðast linnulaus lögbrot þegar kemur að því að auglýsa bjór, – að auglýsa áfengi. Á miðvikudagskvöld (23.05.2012) voru tvær bjórauglýsingar í Ríkissjónvarpinu rétt fyrir tíufréttir. Í annarri þeirra var það sem líklega átti að vera orðið léttöl gjörsamlega ólæsileg hvít smáklessa á skjánum, Ef þetta er ekki lögbrot þá eru engin lögbrot til. Þeir sem settir eru yfir stjórnendur Ríkissjónvarps sitja með hendur í skauti og lokuð augu og láta lögbrotin sem vind um eyru þjóta. Og ósvífnir stjórnendur í Efstaleiti bara færa sig upp á skaftið í því að brýna bjórdrykkju fyrir þjóðinni..
Eftir að bíll sem hann var farþegi í var ekið á vegg, – svona tók fréttamaður til orða á Stöð tvö (23.05.2012) Hér vantar tilfinningu fyrir beygingakerfi málsins. Eftir að bíl var ekið á vegg. Í sama fréttatíma var sagt: Sáu sér ekki fært um að veita þá þjónustu. Hér er forsetningunni um ofaukið. Sáu sér ekki fært að veita þá þjónustu, hefði átt að segja.
Þeir komast varla lönd og strönd, skrifar Egill Helgason á bloggi sínu (24.05.2012) . Málvenja er, þegar einhver kemst hvergi, kemst hvorki aftur á bak né áfram er að segja að hann komist hvorki lönd né strönd. Ekki að komast varla lönd og strönd.
Stjórnandi tónleikanna var … sagði hér-hikk- á Rúv konan í Ríkissjónvarpinu (24.05.2012). Þetta orðlag er tæpast í samræmi við málvenju. Eðlilegra hefði verið að segja: Stjórnandi á tónleikunum var …
Úr mbl.is (25.05.2012) Jóhanna segist ekki vera óvön því að menn leggi sér ósönn munn í orð, allra síst Ásmundur Einar. Hér er eitthvað málum blandið og merkingin ekki nægilega skýr. Betra hefði verið að segja, til dæmis: Jóhanna segist vera vön því að menn leggi henni ósönn orð í munn, ekki síst Ásmundur Einar.
Í fréttum Ríkissjónvarps (24.05.2012) var sagt: Svæðið þar sem syllan féll hefur verið lokað. Hér er ekki alveg rétt farið með. Hér hefði átt að segja: Svæðinu þar sem syllan féll hefur verið lokað.
Kynnir í Ríkissjónvarpinu sagði í útsendingu frá Bakú (24.05.2012) um tiltekinn listamann að hún hefði skorað mjög hátt. Þetta er ekki mjög vandað orðalag.
Gleðilega hvítasunnuhelgi!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar