«

»

Molar um málfar og miðla 924

Kvikmynd var framleidd hér á landi síðasta sumar og þrjú verkefni eru væntanleg til landsins á næstunni, – var okkur sagt í kvöldfréttum Ríkiasútvarpsins (03.06.2012).

Morgunblaðið sagði okkur lesendum sínum nýlega að útkoma bókar Halls Hallssonar Váfugls á ensku hafi þótt stórtíðindi í Bretlandi. Formaður Sjálfstæðisflokksins var meira að segja viðstaddur áróðurskynningu sem sviðsett var í breska þinghúsinu.

Bókin kom út hjá forlagi, Bretwalda Books, þar sem höfundar eða aðilar á þeirra vegum kosta útgáfuna oftast að mestu sjálfir. Bók Halls er samfelld haturs- og áróðursferð gegn Evrópusambandinu og mikil áhersla lögð á að ESB ætli sér að ná algjörum yfirráðum yfir fiskimiðum Íslendinga. Það skyldi þó ekki vera að kvótagreifar LÍÚ hafi kostað bresku útgáfuna að öllu eða að hluta?

Kunnur breskur öfgamaður, Dan Hannan segir að bók Halls Hallssonar sé merkasta bók sem komið hafi frá Íslandi síðan Halldór Laxness skrifaði Sjálfstætt fólk !!! Oflof er mesta háð sem hugast getur. Maðurinn segir: „The best book to have come out of Iceland since Nobel Prize-winning Independent People. Better, in some ways, because this one really is in favour of Icelanders being independent people.“ Hvers á Hallur Hallsson að gjalda? Betri en Halldór Laxness ? Þetta er eiginlega ekki fyndið. Gert hefur verið kynningarmyndband um bókina og því dreift á netinu. Þar rekur hver sögufölsunin rekur aðra. Hér geta Molalesendur séð og heyrt þessi ósköp ásamt viðtali við höfundinn:
http://www.youtube.com/watch?v=yBL9ln2jAyQ og http://www.youtube.com/watch?v=9TE9vGuGkWA&feature=related
Morgunblaðið hagaði sér eins og kjáni í þessu máli. Það er reyndar ekki nýtt að Morgunblaðið sleppi sér þegar kemur að umræðu um Evrópusambandið.

Hvaða rugl er það hjá auglýsingadeild Ríkissjónvarps að auglýsa á sunnudagskvöldi tónleika sem fram fóru fyrr um daginn (03.06.2012)? Reyndar ekki í fyrsta skipti sem svipað gerist.

Líklega mundu flestir Danir standa á gati ef þeir væru spurðir hvaða sjónvarpsþættir bóen væru, sem þannig eru kynntir í Ríkissjónvarpinu og sýndir á sunnudagskvöldum.
Í auglýsingu frá AGA-gas sem lesin er í Ríkissjónvarpi er sagt: Athugaðu þinn búnað einu sinni á ári. Þetta er ekki eðlileg orðaröð í íslensku. Athugaðu búnað þinn, er eðlileg orðaröð.

Í sjónvarpsdagskrá í dagblöðum var skrifað (04.06.2012) um norskan sjónvarpsþátt. Ástralska skáldkonan Kate Morton hefur selt mörg hundruð þúsund bækur í Noregi. Átt er við að bækur sem þessi kona hefur skrifað hafi selst í mörg hundruð þúsund eintaka upplagi í Noregi. Það er bara rugl að segja okkur að Kate Morton hafi selt mörg hundruð þúsund bækur í Noregi.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>