«

»

Molar um málfar og miðla 921

 

Frétt á mbl.is (30.05.2012): Flytja þurfti reiðhjólamann á slysadeild Landspítala eftir að bifhjólamaður ók á hann við Víkurvegsbrú á Vesturlandsvegi á sjöunda tímanum í kvöld. Orðið  reiðhjólamaður var einnig notað í fyrirsögn fréttarinnar. Hvað er að hinu hefðbundna orði hjólreiðamaður? Um annað í fréttinni má sitthvað fleira segja! Rétt er að geta þess að orðskrípinu reiðhjólamaður var seinna breytt í hjólreiðamaður. En bifhjólamaðurinn lifði breytinguna af !

 

Fín fyrirsögn með gervihnattarmynd af Íslandi á forsíðu Morgunblaðsins (31.05.2012): Ísland í heiðskíru ljósi frá himingeimi. Molaskrifari hefur stundum velt því fyrir sér hvort kortateiknarar fyrri tíma – áður en gervihnettir komu til sögu , – séu ekki ánægjulega hissa á því að löndin séð utan úr geimnum skuli líta út alveg eins og þeir teiknuðu þau !  Reykingamenn öskureiðir  er sömuleiðis góð fyrirsögn á mbl. (01.06.2012)  um öskureiða reykingamenn í Búlgaríu sem þykja  boð og  bönn skerða frelsi til reykinga,

 

Það hvernig dv.is tengdi Geir H. Haarde fv. forsætisráðherra við Vítisengla (31.05.2012) sjá http://www.dv.is/sandkorn/2012/5/30/geir-og-vitisenglarnir/ er dæmi um íslenska sorpblaðamennsku. Stjórnendum DV til skammar.

 

Loksins þegar heimildamynd ( um Grikkland og þróun mála þar) ratar á skjá Ríkissjónvarpsins (30.05.2012) er hún sett á dagskrá klukkan að verða ellefu! Vegir þeirra sem raða saman dagskrá Ríkissjónvarpsins eru sannarlega undarlegir. Heimildamyndin um Grikkland var ekki ný af nálinni, gerð 2011. Hálfgert melódrama . Vafamál hvort þetta gat talist vönduð mynd. Betri myndir  sem skýra stöðu mála í Grikklandi eru áreiðanlega á boðstólum. Þetta sama kvöld sýndi norska ríkissjónvarpið NRK1 þriðja og síðasta þátt í röð heimildamynda sem BBC hefur gert um 60 ára valdatíð Elísabetar drottningar. Þessar myndir eru prýðilega vel gerðar og merk heimild um samtímasöguna. Þess var getið í dagskrá að myndin yrði endursýnd daginn eftir. Ríkissjónvarpinu okkar virðist ógerlegt að tilkynna við frumsýningu hvort eða hvenær efni verður endursýnt. Skipulag í þeim efnum er ekki fyrir hendi. Skipulagsleysið ræður ríkjum Breska heimildamyndin var á dagskrá NRK1 klukkan 1945. Hún var svo endursýnt seint næst kvöld. Það er líklega til of mikils mælst að Ríkissjónvarpið gefi áhorfendum kost á að sjá þessar vönduðu heimildamyndir BBC. Á  fyrstu árum Sjónvarpsins voru  sýndar reglulega vandaðar breskar heimildamyndir, Panorama. Sá þáttur er enn við lýði hjá BBC. Gaman væri að sjá  þó ekki væri nema stöku sinnum myndir  úr Panorama.

 

Forkólfar Sjálfstæðisflokksins flykkjast nú að hljóðnema Útvarps Sögu til að lýsa stuðningi við Ólaf Ragnar Grímsson. Síðast Pétur Blöndal (31.05.2012). Ja, hérna. Öðruvísi mér áður brá. Pétur hefði hins vegar getað sleppt því í þessu sama viðtali að segja ósatt um skattamál starfsmanna utanríkisráðuneytisins og taka þar með undir ósannindavaðal stjórnenda Útvarps Sögu. Það verður að gera þá kröfu til þingmanna að þeir fari rétt með staðreyndir, – skrökvi ekki að hlustendum þegar þeir koma fram í útvarpi.

 

Það er dálítið undarlegt þegar pólitískir aðstoðarmenn ráðherra koma fram eins og ráðherraígildi eins og aðstoðarmaður innanríkisráðherra gerði í fréttum Ríkissjónvarps (30.05.2012). Molaskrifari efast stórlega um að þetta sé í samræmi við anda lagaákvæða um þessa aðstoðarmenn.

 

Molaskrifara hefur borist ruslpóstur frá einhverjum Benjamin sem segist vera þjónustustjóri hjá Spin Palace Casino. Fyrir utan það að flestum er ami að svona  óumbeðnum sendingum þá hefur þessi Benjamín líklega fengið Google til að þýða fyrir sig því ambögurnar eru margar: …. Það er þrísvar sinnum meiri möguleiki til að vinna stórt. Til dæmis – ef fyrsta innleg þín er €20 , þú munnt fá €60 á þinn spilara reikning.
Við erum með yfir 450 spilavítis leiki á netinu þar á meðal Progressive Slots, Blackjack, Video Poker og Roulette.
Heimsóttu spilavítið okkar og opnaðu reikning með því að ýta á tengil hér fyrir neðan og þú munt sjálfkrafa uppfylla skilyrði fyrir sérstakan bónus.
Ég vona að ég sjái þig á sigurvegarar veggnum bráðlega.
– Sóðalegt rugl.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

 

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Já, – heldur betur.

  2. Ásgeir skrifar:

    „þessi Benjamín“ – Bensi hefur fengið Google til að gera meira en að þýða; útvegað honum aðgang að ip tölunni, þannig að hægt sé að þýða bréfið á rétt tungumál. Nánast undantekningarlaust er allt „spam“ á ensku, en hér eru þeir farnir að færa sig uppá skaftið.

  3. JLM skrifar:

    ÉG ER EKKI GÓÐUR ÍSLENSKUMAÐUR EN HÉR OFBAUÐ MÉR. Það er ekkert samhengi og óskyljanlegt með öllu hverju blaðamaðurinn er að koma á framfæri.
    Kv. jlm

    Kallaður „kanadískur geðsjúklingur
    Andri Karl
    andri@mbl.is

    Leit að kanadíska klámmyndaleikaranum Luka Rocco Magnotta stendur enn yfir, en hann er grunaður um að hafa myrt karlmann, aflimað hann og sent handlegg og fótlegg í pósti. Á meðan hans er leitað kemur sífellt meira í ljós um Magnotta.
    Þannig byrjað sé á manninum sem Magnotta, sem er 29 ára, myrti. Upplýst hefur verið um það að fórnarlambið var 32 ára kínverskur karlmaður, Lin Jun. Einnig að Magnotta og Lin hafi átt í ástarsambandi. Lin var við nám í háskólanum Concordia í Montreal, þar sem þeir bjuggu báðir. Hvers vegna Magnotta myrti Lin og aflimaði hann er hins vegar enn ekki vitað.
    Því er þá slegið föstu að Magnotta hafi flúið til Evrópu 26. maí sl., eftir að hann myrti Lin. Ekki er þó vitað í hvaða Evrópulandi hann heldur sig.
    Íbúð Magnotta í Montreal AFP
    En þó svo ekki sé Magnotta hafi ekki fundist liggja eftir hann fótspor víða á netinu. Deildar meiningar eru um hvort upplýsingar um hann á netinu séu yfirleitt réttar eða hversu mikið af þeim.
    Því hefur verið haldið fram að Magnotta hafi dvalist í Los Angeles hjá klámmyndaleikara að nafni Timothy Boham, en er reyndar einnig þekktur sem Marcus Allen. Boham þessi var dæmdur árið 2009 fyrir morð framið 2006.
    Hitti blaðamann The Sun fyrir hálfu ári
    Þá hefur Magnotto verið nefndur „Kanadískur geðsjúklingur“ og kemur það til vegna myndbands sem gengur um á netinu. Sagt er að á myndbandinu megi sjá Magnatto stinga karlmann með ísnál og aflima hann á meðan lag úr kvikmyndinni Amerískur geðsjúklingur (e. American Psycho) heyrist spilað. Kvikmyndin er byggð á skáldsögu með sama nafni en hana ritaði Bret Easton Ellis.

    Eins og um marg annað hefur þó ekki verið fullsannað að myndbandið sé ekta né að Magnotto sjáist á því.
    Þá eru myndbönd á netinu af Magnotto þar sem hann pyntar kettlinga og drepur þá. Þegar það má komst í hámæli fyrir hálfu ári síðan hitti blaðamaður breska götublaðsins The Sun Magnotto. „Ég horfði inn í augu hans og líkaði ekki það sem ég sá,“ skrifaði blaðamaðurinn Alex West.
    West fékk tölvupóst tveimur dögum síðar sem hann telur að sé frá Magnotta. Í því segir: „Næst þegar þú heyrir af mér verður það vegna kvikmyndar sem ég vinn að. Í henni verða manneskjur, ekki aðeins kettir … eftir fyrsta dráp finnur maður blóðbragðið og þá er ekki hægt að hverfa frá.“
    Gæti verið hvar sem er
    Kanadísk dagblöð hafa nánast látlaust flutt fréttir af málinu. Meðal þess sem þar kemur fram er að Magnotto geti verið í Frakklandi. Fréttaveitan AFP bar það undir frönsk lögregluyfirvöld sem sögðust ekki hafa sannfæringu fyrir því. Hins vegar hafa farþegalistar verið kannaðir, en án árangurs.
    Aðrir segja að Magnotto gæti þess vegna verið kominn aftur til Kanada en undir öðru nafni. Í raun gæti hann því verið hvar sem er.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>