Lesandi sendi eftirfarandi (11.06.2012): ,,Af hverju heitir þáttur sjónvarpsins á RUV Baráttan um Bessastaði ? – Ég hef skoðað orðið t.d. í Orðabók Háskólaans og það tengist líkamlegum átökum, hrakningum, bardögum, erfiðri lífsbaráttu.. ! Mér finnst þetta ekki við hæfi.
– fyrir forsetakosningarnar 1980 var sjónvarpið með þátt sem hét einfaldlega: Ávörp forsetaefnanna
.. eins og segir þá í dagskrárkynningu:„Á dagskrá sjónvarps kl. 21.05 í kvöld er þáttur sem nefnist Ávörp forsetaefnanna“ – vikunni þar á undan var þetta; „kl.21.10 Forsetaefni sitja fyrir svörum. Forsetaefnin. Albert Guðmundsson,Guðlaugur Þorvaldsson, Pétur Thorsteinsson og Vigdís Finnbogadóttir. svara spurningum fréttamannanna Guðjóns Einarssonar og
Ómars Ragnarssonar….“ Hefði ekki mátt finna á þetta betra heiti en Baráttan um…?” Molaskrifari játar að hann hnaut einnig um þessa nafngift Ríkissjónvarpsins.
Frétt af Fararheill á dv.is (11.06.2012): Dýr er Hafliði allur og Leifsstöð líka samkvæmt nýjustu vefkönnun Fararheill. Verið var að fjalla um verðlag í verðlag í verslunum og á veitingastöðum í Leifsstöð. Molaskrifari giskar á að sá sem þetta skrifaði hafi ekki hugmynd um hvernig nota skal orðtakið: Dýr mundi hafliði allur, né tilurð þess og uppruna.
Úr mbl.is (11.06.2012): Lögreglan telur að smyglin hafi verið framin á nokkurra ára tímabili og að málið hafi alþjóðleg tengsl. Orðið smygl er eintöluorð. Ekki til í fleirtölu.
Tvær dálítið undarlegar fyrirsagnir voru í Fréttablaðinu (11.06.2012): Kona brotnaði í Helgafelli. Kona handleggsbrotnaði í fjallgöngu. Hin fyrirsögnin var: Tilkynning um nauðgun í húsi.
Það er mikil gjörnýting á efni hjá Ríkisútvarpinu (11.06.2012) að flytja viðtöl í hádegisútvarpi og tvíflytja svo sömu viðtölin með mynd í sjónvarpsfréttum um kvöldið. Þetta er varla boðlegt þegar búið er að skera fréttir í sjónvarpi niður við trog vegna fótbolta. Ef skilningur væri í Efstaleiti á mikilvægi frétta væri fréttatíminn klukkan 1800 hafður í fullri lengd og veðurfréttirnar líka, en endalausa kjaftæðinu um fótbolta sleppt og byrjað að sýna beint (ef það er talið mikilvægast af öllu, sem það víst er hjá stjórnendum Ríkisútvarpsins) klukkan 1840.
Trausti Jónsson veðurfræðingur hefur svo bent á annað dæmi um góða nýtingu efnis, en það var þegar Ríkissjónvarpið að kveldi 11.júní sýndi okkur tíu mánaða gamlar veðurfréttir, – frá 23. ágúst 2011. En væri ekki alveg athugandi að eiga eins og eina góða veðurspá fyrir landið og miðin sem hægt væri að sýna svona einu sinni viku eða svo?
Listin að lýsa knattspyrnuleik í sjónvarpi er að vera ekki sífellt að segja áhorfendum frá því sem þeir sjá. Það mættu þeir sem lýsa EM –leikjunum í Ríkisjónvarpinu gjarnan hafa í huga.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
10 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
13/06/2012 at 21:08 (UTC 0)
Horfi á Holland – Þýskaland á DR1 til að losna við endalaust fimbulfamb. Fékk mér reyndar góðan dúr í fyrri hálfleik!
Björn Gunnlaugsson skrifar:
13/06/2012 at 21:01 (UTC 0)
Þar hittirðu naglann á höfuðið. Allt of margir lýsa fótboltaleikjum í sjónvarpi eins og þeir væru að tala í útvarp.
Eiður skrifar:
13/06/2012 at 18:13 (UTC 0)
Sammála, Sigurður. Fyrst og fremst er orðið afspyrnu- notað í neikvæðri merkingu í minni málvitund.
Sigurður skrifar:
13/06/2012 at 16:16 (UTC 0)
Fyrst ég er kominn á skrið (mættur í nöldurhornið) og verið er að ræða um lýsingar á leikjum í sjónvarpi, vil ég nefna að ég er Kristjáni algjörlega sammála um að óþarfi sé að lýsa því í þaula sem áhorfendur sjá. Svona líkt og í útvarpi.
En ég vildi nefna að einn þulurinn sem er að lýsa leikjum á EM þessa dagana, notar oft og iðulega hvimleitt (vandræðalegt) orðalag. Hann talar um „afspyrnu“- góðan leikmann, eða sendingu o.s.frv. Er orðið „afspyrnu“ ekki eingöngu notað í neikvæðri merkingu? Ég hef a.m.k. aldrei heyrt annað.
Eiður skrifar:
13/06/2012 at 15:12 (UTC 0)
Heyrði einnig eitthvað svipað þessu, Sigurður. Mun nefna það í Molum fljótlega.
Eiður skrifar:
13/06/2012 at 15:11 (UTC 0)
Þetta er að sjálfsögðu rétt, Arnbjörn. Missti af hádegisfréttum í dag.
Sigurður skrifar:
13/06/2012 at 14:04 (UTC 0)
Í sjónvarpsfréttum ríkisútvarpsins kl. 10 í gærkvöldi (12.6.2012), var fjallað um mótmæli í Rússlandi. N.t.t. í Moskvu. Þar var sagt, án þess að fréttaþulur svo mikið sem deplaði auga yfir: „Mótmælin fóru vel fram, þrátt fyrir mikla öryggisgæslu“.
Arnbjörn skrifar:
13/06/2012 at 13:38 (UTC 0)
Heyrði þetta í hádegisfréttum áðan: „Lán voru veitt til stjórnarmanna og félaga tengdum þeim langt umfram tryggingar.“ Þarna hefði átt að standa ‘tengdra’. Villur af þessum toga eru nokkuð algengar.
Jón skrifar:
13/06/2012 at 10:22 (UTC 0)
Baráttan er líklega stytting á kosningabarátta stuðlunarinnar vegna.
Það sem háir unglingunum í Efstaleiti er að þeir eru inni í klefa í Efstaleiti og sjá það sem aðrir sjá og ekkert annað. Ef útsendingin rofnar þagna þeir. Það er allt annað að fylgjast með leikjum t.d. á BBC, ITV eða skandinavísku stöðvunum. Lýsendur þar tala um það sem er að gerast á vellinum og umhverfis hann.
Kristján skrifar:
13/06/2012 at 09:27 (UTC 0)
„Listin að lýsa knattspyrnuleik í sjónvarpi er að vera ekki sífellt að segja áhorfendum frá því sem þeir sjá. Það mættu þeir sem lýsa EM –leikjunum í Ríkisjónvarpinu gjarnan hafa í huga“.
Algjörlega sammála. Fyrir nokkrum árum sá ég knattspyrnuleik í sjónvarpi án lýsingar. Þetta var uppljómun. Fannst næstum eins og eg væri staddur á sjálfum vellinum. Lýsingar eru vandmeðfarnar. Á norrænu stöðvunum kunna menn sér hóf (less is more). Leikurinn má alveg líða áfram í góða stund án þess að tala ofan i hann.
Er líka á því að sjónvarpsfréttir kl.18 ættu að vera í fullri lengd. Hvað liggur á ?