Það eru reginmistök hjá Ríkissjónvarpinu að vera með langan þátt með forsetaframbjóðendum kvöldið fyrir kjördag, 29. júní. Það á gefa okkur hlustendum/horfendum frí frá frambjóðendum þennan lokadag. Hér hefði gott dagskrárráð getað haft vit fyrir stjórnendum.
Í frétt á mbl.is (17.06.2012) um innbrot í hesthús á Hellu er aftur og aftur talað um reiðhnakka. Dugað hefði að tala um hnakka. Reiðhnakkur er orð sem Molaskrifari kannast ekki við. Í sömu frétt er sagt að hurðin hafi verið spörkuð upp. Þar hefði verið eðlilegra að segja að hurðinni hefði verið sparkað upp.
Dæmi um fallafælni úr mbl.is (20.06.2012): Allt að 27 milljónir manna er haldið sem þrælum í heiminum. Hér hefði átt að standa: Allt að 27 milljónum manna er haldið sem þrælum í heiminum. Máltilfinningu skortir.
Meira úr mbl.is (20.06.2012). Þar segir: Verð á bensíni kostar eftir lækkun 246,50 krónur lítrinn og á dísil 245,30 krónur lítrinn. Verð kostar ekki. Bensín kostar. Verð á bensíni er 246,50 krónur lítrinn.
Blaðamaður sendi Molum eftirfarandi (18.06.2012): ,,Hér er alveg dæmigerð villa í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni , þar sem segir um volk fólks í Borgarfirði: …. hún (það er þyrlan( fann manninn. Þyrlan finnur ekki fólk í sjónum – heldur væntanlega menn í áhöfn þyrlunnar. Merkileg meinloka. Sunnudagur 17. júní 2012: ,, … TF-LÍF fór í loftið kl. 22:37 og fann hún manninn í sjónum kl. 23:09. Var flogið með hann beint á Landspítalann í Fossvogi þar sem lent var um kl. 23:20”” . —Svo er hér önnur frétt af svipuðum meiði – það er að þyrlan er skv. þessu svo vel búinn að hún undirbýr sig sjálf fyrir eftirlitsferðir. Þessi frétt er frá 4. júní sl. : ,, Þegar þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LIF var að undirbúast fyrir eftirlitsflug síðdegis í dag barst beiðni frá 112 um aðstoð þyrlunnar eftir að eldri maður slasaðist í Stykkishólmi.” Molaskrifari þakkar sendinguna.
Lesandi sendi eftirfarandi Úr frétt á mbl.is. Fyrirsögnin var: Einstök heppni réði ferð
(18.06.2012): „Þetta er einstakt allt saman, bæði það að þau skuli reka svona langt og svo að kunningi þeirra hafi siglt fyrir tilviljun upp á stelpuna. Svo náttúrlega skipti sköpum að hafa þyrluna,“ segir Helgi Lárus.” Það var og. Molaskrifari þakkar sendinguna.
Hér hafa stundum verið nefnd dæmi um undarlegar myndbirtingar með fréttum í netmiðlum. Í frétt um að gúmbát hefði hvolft á Borgarfirði eða fólk fallið útbyrðis birti mbl.is (19.06.2012) mynd af útihúsum við bóndabæ í Borgarfirði ! Sjá : http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/06/19/stokk_i_sjoinn_eftir_fodur_sinum/
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar