«

»

Molar um málfar og miðla 940

Dv.is vitnar í Andreu Ólafsdóttur forsetaframbjóðanda (23.06.2012) sem segir: ,,Ég er ekki að fara að vinna þessar kosningar – það er alveg ljóst.“-En hvers vegna vill hún þá halda áfram? „Ég vil bara taka þetta til enda …” Þetta hefði frambjóðandinn að skaðlausu mátt orða betur. Miklu betur.

Málglöggur molalesandi segir í tölvubréfi (22.06.2012): „Það er tvennt sem mig langar að nefna við þig ( getur eðlilega hafa komið fram áður ):
1. Afgreiðslufólk í verslunum er farið að segja í kveðjuskyni: Eigðu góðan dag, sem er auðvitað vel meint en um leið greinileg þýðing á enskri kveðju.
Betra er að segja td: njóttu dagsins.
2. Ítrekað heyri maður í fjölmiðlum:
Hann gerði bók, sem ætti að vera skrifaði bók, eða: þau gerðu plötu,
þe sömdu lög og fluttu tónlist og tóku upp plötu. Magnús Scheving segir við krakkana í leikfimiþætti sínum: Hvernig leikfimi eigum við að gera í dag ?
Æfa leikfimi væri betra.
Margir eru farnir að nota gera sem eitt yfirgripsmikið sagnorð um ýmsar
athafnir sem betur er lýst með réttum orðum.” Molaskrifari þakkar þetta ágæta bréf.

BBC verður á í messunni eins og öðrum. Þar var í skjátexta talað um Isle of White í staðinn fyrir Isle of Wight. Þar átti að fara fram tónlistarhátíð um helgina. Hátíðina rigndi í kaf í gríðarlegu úrfelli. Í fréttum sáust dráttarvélar draga fjórhjóladrifsbíla upp úr drullusvaði sem átti að vera bílastæði. Mud and music festivals often go together sagði fréttaþulurinn!

Trausti bendir á eftirfarandi (23.06.2012): Sjá:http://www.visir.is/frettaskyring–bakkavararbraedur-gera-milljardatilbod-i-felagid/article/2012706239923.
„Eins og staðan er í dag á Arion banki 34 prósenta hlut í Bakkavör Group og er stærsti einstaki eigandi félagsins. Þá á Lífeyrissjóður verzlunarmanna sjö prósent og Gildi lífeyrissjóður um fimm prósenta hlut. Þessir þrír aðilar mynda bakbeinið í meirihlutablokkinni. Auk þess hafa smærri lífeyrissjóðir og sjóðir í stýringu banka sem eru í hluthafahópnum heitið að standa að henni.“
Bakbein er hér líklega aulaþýðing á enska orðinu backbone, sem er furðulegt, því greinin virðist vera samin á íslensku.
Hefur ekki verið venja hjá okkur að kalla þetta „hryggjarstykki“ eða eftir atvikum „uppistöðu“?” Jú, rétt er það , Trausti. Þarna hefur greinilega hálfgerður auli verið að verki.

Kristján Már Unnarsson hinn ágæti fréttamaður Stöðvar tvö sagði (23.06.2012) um brúna yfir Reykjadalsá hjá Kleppjárnsreykum sem byggð var 1939 að hún væri komin vel á áttræðisaldur. Molaskrifari sem fæddur er þetta sama ár, 1939, neitar því algjörlega að vera kominn vel á áttræðisaldur ! Er að sjálfsögðu kominn á áttræðisaldur, en tiltölulega nýlega !

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>