Í fréttatíma Stöðvar tvö (05.07.2012) var rætt við roskin bresk systkin sem höfðu siglt út fyrir Vestfirði þar sem faðir þeirra fórst með bresku herskipi í heimsstyrjöldinni síðari. Talað var um rússneska skipalest ,sem er rangt. Þetta var skipalest bandamanna á leið til Rússlands með hergögn og birgðir af ýmsu tagi. Sagt var að skip föður þeirra hefði verið fremst í fararbroddi, í fararbroddi hefði nægt. Í sömu frétt var sagt að skipið hefði siglt inn í tundurskeytasvæði, – rétt hefði verið að tala um tundurduflasvæði. Þetta var alveg einstaklega illa unnin frétt. Frá þessu hörmulega sjóslysi þar sem fjölmörg skip fórust er ítarlega sagt í nýrri og ágætri bók Magnúsar Þórs Hafsteinssonar , en hún heitir Dauðinn í Dumbshafi. Þá var í sama fréttatíma ítrekað talað um meðlimi þjóðþinga, – þingmenn. Fleira mætti tína til úr þessum eina fréttatíma. Þið eigið að geta gert betur en þetta fréttastofa Stöðvar tvö!
Í fréttum Ríkissjónvarps (005.07.2012) var talað um að tala fyrir tómum eyrum ! Átt var við að tala fyrir daufum eyrum. Í inngangi fréttarinnar fór Ingólfur Bjarni Sigfússon sem var þulur í fréttatímanum hinsvegar rétt með þetta og sagði að talað væri fyrir daufum eyrum. Hlustar enginn á svona fréttainnslög áður en þeim er hellt yfir þjóðina ?
Það er líklega tímanna tákn og staðfesting á málstefnu og menningarstefnu Ríkissjónvarpsins að sýna okkur íslenska matreiðsluþætti þar sem eingöngu er töluð (amerísk) enska eins og gert var í gærkveldi (05.07.2012). Ríkisútvarpið gerir allt sem í þess valdi stendur til að styrkju stöðu tungunnar eins og því bera að gera lögum samkvæmt. – Matreiðslan var hinsvegar flott og fagmannleg svo sem vænta mátti. Samanborið við matreiðslumanninn sem stöðugt er á ÍNN þá er einkunnagjöfin annarsvegar einn og hinsvegar níu!
Í formála nýrrar og prýðilegrar matreiðslubókar sem Hagkaup hefur gefið út (Grillréttir Hagkaups) segir í formála um höfundinn: Hrefna lærði kokkinn í Apótekinu sem var …. Ekki kann Molaskrifari við þetta orðalag. Ef einhver fer í prentnám lærði hann þá prentarann? Er rétt að segja um þann sem lært hefur múrverk, að hann hafi lært múrarann?
Það er alltaf slæmt þegar farið er rangt með mannanöfn í fjölmiðlum. Verra er þegar það er ekki leiðrétt. Í skjátexta í seinni fréttum Ríkissjónvarps (05.07.2012) var rangt farið með föðurnafn hins þjóðkunna vísindamanns dr. Sigmundar Guðbjarnasonar, fyrrum rektors Háskóla Íslands, nú rannsóknastjóra Saga Medica. Dr. Sigmundur hefur unnið að merkilegum rannsóknum á íslenskum jurtum og jurtalyfjum sem vakið hafa heimsathygli að verðleikum. Ríkissjónvarpið ætti að geta haft þetta rétt, eða að minnsta kosti að leiðrétta þegar rangt er með farið. Þetta ber vott um þekkingarskort þess sem skrifaði og svolítinn subbuskap í verkstjórn.
Molaskrifari gerir ekki mikið af því að hrósa Morgunblaðinu. En áskrifendaþjónusta Morgunblaðsins á hrós skilið fyrir að senda blaðið nánast hvert á land sem er að óskum áskrifanda, – þótt ekki sé nema í einn eða tvo daga í senn. Það sama á við um áskrifendaþjónustu DV,sem raunar einfaldar þetta því þar er hægt að fá áskrifendakort sem nægir að sýna til að fá blaðið afhent á sölustöðum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
06/07/2012 at 12:40 (UTC 0)
Eldamennskan var fín, kannski svolítið flókin fyrir heimiliskokka, – en allt hitt var afar undarlegt, – að ekki s´´e nú meira sagt.
Kristján skrifar:
06/07/2012 at 12:16 (UTC 0)
Þetta er nú með því skrýtnara, íslenski kokkurinn að tala óskýra amerísku við Íslendinga. Hallærislegt. Þessi þáttur á ekki heima á RÚV.
Eiður skrifar:
06/07/2012 at 11:23 (UTC 0)
Það má vissulega til sanns vegar færa. Hinsvegar er notkunin á reiki, – eintala , fleirtala. En einhvern´tíma heyrði ég að þetta hefði á sínum tíma verið ákvörðun stofnandans að Haugkaup skyldi vera eintöluorð. Sel það þó ekki dýrar en ég keypti.
Jakob S. Jónsson skrifar:
06/07/2012 at 11:15 (UTC 0)
Sæll, Eiður!
Ætti það ekki að heita „Grillréttir Hagkaupa“?
Kv,
Jakob