Ómar Einarsson sendi eftirfarandi (04.07.2012):
Af www.visir.is í dag: http://visir.is/likamar-thotuflugmannanna-fundnir/article/2012120709562
,,Líkamar þotuflugmannanna fundnir. Líkamar? Væri ekki nær að tala um lík? Hér er um að ræða þýðingu úr ensku og viðkomandi er greinilega ekki með neina tilfinningu fyrir íslensku máli. Spurning hvort blaðamenn verði ekki að lágmarki að hafa tekið eitt námskeið í þýðingum?” Molaskrifari þakkar Ómari sendinguna. Mörgum fréttaskrifaranum veitti ekki af slíku námskeiði. Rétt er það.
Í frétt Stöðvar tvö af hinu fáránlega ,,njósnamáli” lággjaldaflugfélganna (04.07.2012) var talað um að upplýsingum um farþegatölum hefði verið aflað … tala hefði átt um upplýsingar um farþegatölur sem hefði verið aflað … Í sama fréttatíma var sagt: Fólk sem ekki gat krossað sjálft á kjörseðilinn vegna líkamlegrar fötlunar hafi verið gert að …. Hér hefði að sjálfsögðu átt að segja: Fólki sem ekki gat …. hafi verið gert að …
Lesandi gerir athugasemd við fyrir fréttar á mbl.is (03.07.2012): Klipptu á bílnúmer 42 ökutækja. Lesandi segir síðan: ,,Hér vaknar við lestur fyrirsagnar spurning um hvað hafi verið ,,klippt á bílnúmerin“, aukastafir, myndir eða hvað? Samkvæmt meginmáli voru það hins vegar númeraspjöldin, sem voru klippt af viðkomandi bifreiðum.“. Molaskrifari þakkar sendinguna.
Annar lesandi gantast svolítið með fyrirsögn úr mbl.is sama dag þar sem segir: Samþykktu frumbyggjaveiðar. Hann spyr: ,,Lögðust ekki frumbyggjaveiðar af þegar Englendingar hættu að veiða Tasmaníunegra?“
Í Morgunblaðinu (05.07.2012) er greint frá miklum náttúruspjöllum á gönguleið í Reykjadal ofan eða norðan Hveragerðis. Fyrir um það bil tíu árum gekk Molaskrifari frá Kolviðarhóli um Hellisskarð og síðan milli hrauns og hlíða niður í Reykjadal og til Hveragerðis. Þetta er falleg og skemmtileg gönguleið. Þá mátti sjá víða við göngustíginn í Reykjadalnum djúp hófför og mikið traðk eftir hross. Greinilega hefur ástandið versnað mikið síðan. Göngufólk veldur ekki svona náttúruspjöllum. Það gera hinsvegar hópar hestamanna sem þarna ríða yfir jörð sem víða er mýrlend. Það á að stöðva ferðir hestamanna um Reykjadal. Það er nóg af öðrum reiðleiðum hér í grenndinni þar sem þeir ekki valda viðlíka spjöllum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar