«

»

Molar um málfar og miðla 944

Í Molum gærdagsins var minnst á samninga og gagnkvæmt traust milli stjórnmálamanna. Molaskrifari var um nokkurra ára skeið þingflokksformaður Alþýðuflokks (sakna hans) sem oft þurfti að semja um framgang og afgreiðslu mála við pólitíska andstæðinga og samherja. Í mínum flokki var þá stundum uppi það sjónarmið að enginn samningur væri ásættanlegur nema fallist væri á allar okkur kröfur. Sumum fannst ég linur og lélegur í samningum að ná ekki öllum óskum okkar fram. Í Alþýðubandalagi var stundum erfitt að semja við Svavar Gestsson. Hann gat verið harður í samningum. Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið voru ekki beinlínis samherjar í pólitík. En eftir að samkomulag hafði verið gert við Svavar þá stóð það eins og stafur á bók. Það var mín reynsla. Ég reyndi hann aldrei að því að standa ekki við gert samkomulag. Stundum átti hann það til að benda á góðar leiðir til að leysa þrasmál og þoka málum áleiðis. Í hans flokki var líka innanbúðar annar maður. Ef samið var við hann stóð samkomulagið alveg þar til hann sá betri kosti í stöðunni. Þá var staðan gjörbreytt, forsendur brostnar, komin upp alveg ný staða og ekkert samkomulag í gildi. Ekki var undan neinu að kvarta í samningum við Sjálfstæðismenn og Framsókn á þeim tíma sem ég stóð í þessu. Þá voru þar einkum vinur minn Ólafur G. Einarsson og Páll Pétursson í forystu. Þeim var hægt að treysta. Svona var nú það.

Óskar Aðalgeir Óskarsson á Akureyri sendi eftirfarandi.
Í Morgunblaðinu föstudaginn 29.júní á bls. 14 er fyrirsögn „Þúsundir ótryggðra ökutækja“,og hluti af undirfyrirsögn hljóðar svo ILLA GENGUR AÐ INNHEIMTA EIGENDUR OG UMRÁÐAMENN. Veit einhver við hvað er átt þarna? Á Mbl.is í síðustu viku var sagt frá hörmulegu atviki sem átti sér stað í Moskvuborg. Móðir tveggja ungra drengja var talin hafa hrint þeim fram af svölum á 15.hæð. En í fréttinni segir að samkvæmt einhverri erlendri fréttastofu hefði konan verið handtekin stuttlega eftir atvikið. Ætli að fréttamenn séu farnir að nota Google þýðingar á erlendum fréttum?” Það er engu líkara en þarna hafi Google þýðingarvélin komiðö við sögu, Óskar. Allt segir þetta sína sögu um það að enginn les fréttir yfir áður en þær eru birtar. Molaskrifari þakkar Óskari sendinguna.

Ný hitamyndakort í veðurfréttum Ríkissjónvarps koma prýðilega út og eru til bóta. En hversvegna er allt í einu hætt að sýna okkur veðurkort af Evrópu og Norður Ameríku? Varla er það í sparnaðarskyni, eða hvað? Molaskrifari vill fá þessi kort á skjáinn að nýju og helst með borganöfnum eins og víða má sjá í veðurfregnum annarra sjónvarpsstöðva.

Forysta Sjálfstæðisflokksins hefur alltaf verið mjög í nöp við þennan rétt forsetans, hún viðurkenndi hann reyndar alls ekki til skamms tíma – og í raun hefur ekkert breyst í þeim efnum, þrátt fyrir skammvinnt hentugleikabandalag við Ólaf Ragnar, skrifar Egill Helgason á bloggsíðu sinni (02.07.2012). Hér ætti að standa: Forystu Sjálfstæðisflokksins hefur alltaf verið mjög í nöp við …..
Í fréttum Ríkissjónvarps (02.07.2012) var talað um … þær forsendur sem skýrslan notar. Betra hefði verið að tala um þær forsendur sem skýrslan byggir á, eða þær forsendur sem notaðar eru í skýrslunni.
Þú messar ekki í Dew-inu , segir í auglýsingu í Ríkissjónvarpinu. Eiga auglýsingar ekki að vera á skiljanlegri íslensku? Líklegast ekki að mati auglýsingastofu Ríkisútvarpsins. Þetta er skelfilegt orðalag. Það er engu líkara en auglýsingadeild eða auglýsingastofa Ríkisútvarpsins taki gagnrýnilaust við öllu sem að henni er rétt. Það er stofnuninni ekki til sóma.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Jú. Þeim sem eru í forystu er í nöp við ….

  2. Egill skrifar:

    Er ekki „forystu“ Sjálfstæðisflokksins í nöp við eitthvað. „Forysta“ getur ekki verið í nöp, forystan getur verið ósátt, en henni er í nöp við eitthvað. Og öllu réttara … þeim sem er í forystunni er í nöp við eitthvað.

  3. Arnbjörn skrifar:

    Við byggjum álit okkar á ýmsu því sem við höfum viðað að okkur en málefnið er byggt eða byggist á tilgátum eða staðreyndum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>