«

»

Molar um málfar og miðla 943

Það er skynsamlegt hjá Sjálfstæðismönnum að ætla í sumar að semja tillögur um stjórnarskrárbreytingar sem miða að því að afmarka og skýra valdsvið og verkefni forseta Íslands eins og Birgir Ármannsson alþingismaður greindi frá í fréttum Ríkissjónvarps í kvöld. (02.07.2012). Þetta er ekki aðeins skynsamlegt að gera, heldur bráðnauðsynlegt í ljósi margvíslegra ummæla Ólafs Ragnars Grímssonar eftir að kosningaúrslitin dældu í hann enn meira lofti.. Best væri raunar að fulltrúa allra flokka settust niður og reyndu til þrautar að ná samkomulagi um slíkar tillögur sem gætu verið grundvöllur samkomulags,- að minnsta kosti til bráðabirgða meðan fólk nær áttum eftir það sem gengið hefur yfir. En líklega er það borin von. Gagnkvæm tortryggni, vantraust og heift koma í veg fyrir það. Einu sinni gátu stjórnmálaleiðtogar á Íslandi sest niður við borð og talað saman í trúnaði, gert og samninga sem staðið var við. Það hefur breyst í seinni tíð. Þar skal engum einum um kennt.

Segir mbl.is (01.07.2012): ,,Tom Cruise og Katie Holmes lifðu hvort sínu lífinu áður en hún ákvað að sækja um skilnað fyrir helgi.”

Sigruðu alþjóðlega vélmennakepnni sagði í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (01.07.2012). Það sigrar enginn keppni. Hægt er að vinna sigur í keppni. Ótrúlega algeng villa.

Í viðtali i Ríkissjónvarpinu (01.07.2012) talaði Ólafur Ragnar Grímsson um skilaboð kosninganna. Það er eins og hvert annað rugl að tala um skilaboð kosninga. Hann átti við að túlka mætti úrslit kosninganna þannig, … Vandað málfar hefur aldrei verið hin sterka hlið Ólafs Ragnars. Kosningar flytja engin skilaboð.
Úr mbl.is (02.07.2012): ,,Lögreglan kærði einnig ökumenn og bifreiðaeigendur fyrir vanrækslu á að færa bifreiðar til skoðunar, ótryggð ökutæki og einnig notkunarleysi á bílbeltum svo eitthvað sé nefnt.” Notkunarleysi á bílbeltum er orðalag sem Molaskrifari hefur ekki áður heyrt.
Þeir kunna að orða hugsun sína sumir þeir sem skrifa á vefinn mbl.is (02.07.2012): Það er víða býsna langt gengið við að koma höggi á ökumenn og láta þá blæða með veskinu fyrir litlar sakir og helst engar.
Í fréttum Ríkissjónvarps (02.07.2012) var talað unglinga sem hefðu dottið úr framhaldsskóla. Átt var við unglinga sem höfðu af einhverjum ástæðum hætt námi, ekki lokið skólagöngu, ekki átt þess kost eða hreinlega gefist upp, – kannski ekki fengið nægilega aðstoð og stuðning.
Úr dv.is (02.07.2012): Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu mun hann hafa innbyrgt áður óþekkta eiturlyfjablöndu. Þetta er ekki innsláttarvilla. Tvisvar er talað um innbyrgt, – bæði í fyrirsögn og texta. Eitt er að innbyrða annað að byrgja eitthvað inni.
Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins (02.07.2012) var talað um breytingartillögur á stjórnarskrá. Eðlilegra hefði verið að tala um breytingartillögur við stjórnarskrá. Í sama fréttatíma var í kynningu á efni Spegilsins talað um jarðhitarannsóknir í Kenía og sagt að Íslendingar spiluðu þar stórt hlutverk. Betra hefði verið að tala um að Íslendingar gegndu þar mikilvægi hlutverki.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Guðmundur skrifar:

    Ég var einmitt að spá í því sama eftir síðustu alþingiskosningar. Hvort ekki væri hægt að gera e.h. til þess að leiðrétta þessu leiðu mistök sem kjósendur gerðu.

  2. Eiður skrifar:

    Ég kann ekki að meta þetta orðalag, svona frómt frá sagt. Mér skilst að þetta sé notað þegar ástvinir hafa verið við sjúkrabeðinn er viðkomandi lést. Það kemur manni ekkert við.

  3. Húsari. skrifar:

    Sæll Eiður.

    Mig langar til að leita eftir skoðun þinni á orðalaginu:
    „lést í faðmi fjölskyldunnar“.

    Mér sýnist að þetta hljóti að eiga við um
    banvænt faðmlag eða í besta falli að það teljist
    uppskrúfað orðfæri.

    Fjölmiðlar þyrftu að sameinast um að
    koma orðalagi þessu útúr heiminum
    því það er eitthvað ósegjanlega óviðurkvæmilegt
    við það.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>