Lesandi sendi þessa frétt af pressunni (27.06.2012):” Í frétt á Pressunni segir að lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs fyrir langtímaskuldbindingar í innlendri og erlendri mynt eru Baa3 en P-3 fyrir skammtímaskuldbindingar. Einnig kemur fram að í febrúar hafi Fitch hækkað einkunnir ríkissjóðs fyrir skuldbindingar í erlendri mynt úr BB+/B í BBB-/F3.
Ég játa það fúslega að ég hafði ekki hugmynd um tilvist Baa3 og hvað það þýðir að fara úr BB+ í eitthvað annað. Eitt af meginmarkmiðum góðrar fréttamennsku er að útskýra flókna hluti. Mér er ekki grunlaust um að fréttamaðurinn sem skrifaði umræddan texta fyrir Pressuna hafi ,, kóperað“ textann og viti ekki frekar en ég hvað BB+ þýðir í raun og veru” Líklega er þetta öldungis rétt..
Annar lesandi i sendi þennan kafla úr auglýsingu frá ferðaskrifstofunni
Ferð.is sem selur fólki ferðir til Tyrklands: ,,Bodrum er sannarlega draumur. Að spóka sig þar um í sólinni, kíkja á markaðina líflegu, láta götusala selja sér handónýt úr og sólgleraugu sem virka ekki á klink. Það er snilld að geta verslað og liðið alltaf eins og maður er að spara.” – Ja, hérna verður skrifara að orði.
Í fréttum Stöðvar tvö (30.06.2012) var tvívegis talað um Ítalann sem bjargaður var út Hellisheiðavirkjun. Ítalanum var bjargað út úr Hellisheiðarvirkjun – hann var ekki bjargaður.
Molavin sendi eftirfarandi 29.06.20123),,…og bera Grensásdeild góða söguna. sagði í kvöldfréttum Sjónvarps. Hér hefði trúlega verið réttara að bera deildinni (eða öllu heldur starfsfólki hennar) vel söguna.” Undir það tekur Molaskrifari.
Ekki hafði Molaskrifari nennu til að horfa lengi á kosningasjónvarpið. Það sem Molaskrifari sá var hinsvegar prýðilega gert og þar var fagmannlega unnið í hvívetna, enda vant fólk að verki. Dökk ský fóru hinsvegar að myndast yfir Álftanesinu fljótlega eftir að tölur fóru að birtast, þá brast skrifara þolinmæðina, enda augljóst að í óefni stefndi. Um 37% fylgi er ekki stórsigur eftir 16 ára valdasetu. Aldeilis ekki. Að baki forsetanum er þverklofin þjóð. Í þjóðlífinu eru átakatímar framundan.
Morgimblaðið skrifar leiðara í gagnfræðaskólastíl um úrslit kosninganna. Blaðið getur ekki leynt ánægju sinni. Leiðarinn fjallar einkum um það hve illa fréttastofa Ríkissjónvarpsins hafi staðið sig. Með velþóknun er vitnað til fremur niðrandi ummæla um Boga Ágústsson , reyndasta fréttamann sjónvarpsins. Þetta er afar sérstakt. Morgunblaðinu þykir ekki fréttnæmt að forsetinn skuli ætla sér að halda áfram að brjóta niður íslenska stjórnkerfið með því að troða sér af meira afli inn í umræðuna um erfið deilumál í samfélaginu. Það hefðu þó einhvern tíma þótt tíðindi á ritstjórn Morgunblaðsins. Muna menn að fyrir tæpum 16 árum nefndi forsetinn að vegir á Vestfjörðum væru frekar slæmir? Þetta þóttu Sjálfstæðismönnum firn mikil og einn af þingmönnum flokksins tók málið upp á Alþingi. Það er af sem áður var.
Brandari ársins er líklega sá að ungir sjálfstæðismenn héldu kosningahátíð í Valhöll til að fagna Sigri Ólafs Ragnars. ,,Og þá var kátt í höllinni, höllinni …” eins þar stendur. Kætin leynir sér heldur ekki í Moggahöllinni í Hádegismóum. Þar ríkir nú gleðin ein. Hvort það verður langvinn gleði skal hinsvegar ósagt látið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar