Prófessor emeritus, Helgi Haraldsson, í Osló sendi Molum þetta ágæta bréf: ,, ,,Sumir stjórnmálamenn eru konur og sumar konur eru stjórnmálamenn“.
Það er hverju orði sannara, að ,,konur eru líka menn“.
Þannig hefur íslensk tunga litið á frá upphafi.
Dæmi:
Grettla 1034: Þá sáu þeir ríða þrjá menn neðan eftir dalnum. Var einn í litklæðum. Þeir gáttu að mundi Þorbjörg húsfreyja úr Vatnsfirði og svo var.
Laxdæla, 1548: Hann (Höskuldur) heyrði mannamál. Hann gekk þangað sem lækur fell fyrir túnbrekkunni. Sá hann þar tvo menn og kenndi. . Var þar Ólafur son hans og móðir hans.
Þjóðsögur JÁ: Sigurður Glerstokkur. ,,Þau Sigurður konungur glerstokkur og Jarðþrúður drottning unnust vel til elli og þóktu mætamenn. Endar svo þessi saga”.
Snorra Edda, Gylfaginning (IX): ,,Þá er þeir gengu með sjávarströndu Bors synir, fundu þeir tré tvö og tóku upp trén og sköpuðu af menn. Gaf hinn fyrsti þeim önd og líf, annar vit og hræring, þriðji ásjónu, málið og heyrn og sjón; ; gáfu þeim klæði ok nöfn. Hét karlmaðrinn Askr en konan Embla, ok ólsk þaðan af mannkindin, sú er bygðin var gefin undir Miðgarði” Molaskrifari þakkar Helga þetta góða bréf.
Glöggur Molalesandi benti Molaskrifara á eftirfarandi frétt af vef Ríkisútvarpsins (15.10.2012): http://www.ruv.is/frett/motmaeli-i-domkirkju-heilags-pals Í fréttinni segir um mótmælendur: Fjórar ungar, hvítklæddar konur, félagar í svo kallaðri Occupy-hreyfingu, keðjuðu sig við prédikunarstólinn í dómkirkju heilags Páls í Lundúnum í kvöld. Ó, já. Keðjuðu sig við prédikunarstólinn. Hér er á ferðinni, hráþýðing, aulaþýðing. Konurnar hlekkjuðu sig við prédikunarstólinn. Sparnaðurinn í Efstaleiti hefur kannski leitt til þess að þýðingarvélin Google er komin til starfa á fréttastofunni. Sautján klukkustundum eftir að fréttin var skrifuð var þetta enn óleiðrétt á fréttavef Ríkisútvarpsins. Molaskrifari hefur heyrt bílstjóra nota sögnina að keðja í merkingunni að setja snjókeðjur undir bíla.
Molalesandi sendi þetta (15.10.2012): ,,Ritstjórn DV (15.10.2012) er skrifuð fyrir fréttinni ! ….en hann beitir þeirri vörn fyrir rétti að hann hafi ítrekað stundað kynsvöll, þar sem ýmsir aðilar úr heldri stéttum Frakklands hafi hist í kvöldverðarboðum sem endað hafi í orgíu. Fyrir réttarhöldunum hefur verið vitnað að í því samhengi hafi þjónusta vændiskvenna verið keypt, þar sem skort hafi konur á slíkar samkomur.” Molaskrifari Þakkar sendinguna . Ekki var það gott !
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar