«

»

Molar um málfar og miðla 1043

Aðalsteinn sendi Molum eftirfarandi: ,,Hér er glefsa úr DV (http://www.dv.is/frettir/2012/10/21/her-eru-their-sjo-nyir-dyrlingar/)
Pedro Calungsgod, filippeyskur táningur … var veginn með spjóti af þorpsbúum sem veittu því mótstöðu að hann myndi skýra börn þeirra til kristni.

Mér fellur illa að menn eru að klessa þarna „mundi skíra …“ í stað „að hann skírði …“hann var … drepinn af þorpsbúum sem. snerust gegn því að hann skírði börn þeirra).

Það skiptir minna máli að blaðamaður ekki of sterkur í stafsetningu (skýra / skíra). Einföld stafsetningarvilla telst ekki til málspjalla.

Málfræðingum tókst óhönduglega til þegar þeir kölluðu sagnasamband á borð „mundi skýra“ skildagatíð en ekki skildagahátt. Síðara nafnið hefði verið mun réttara.
Hjálparsögnin „mundi“ felur í sér ákveðinn fyrirvara eða efa. Hún er sem slík nauðsynleg í málinu en heldur en ekki leiðinlegt ef hún er látin koma í staðinn fyrir allan viðtengingarhátt” Molaskrifari þakkar Aðalsteini bréfið.

Hér hefur stundum verið varað við óþarfri þolmyndarnotkun. Í fréttum Ríkissjónvarps (23.10.2012) var sagt: Myndin var tekin af þaki fyrirtækisins. Var verið að taka mynd af þaki fyrirtækisins? Nei. Myndavélin var á þaki hússins þar sem fyrirtækið er starfrækt.

Enn og aftur þetta undarlega orðalag á mbl.is (23.10.2012): Samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar í Noregi á afstöðunni til aðildar að Evrópusambandsins dregst aðeins saman með andstæðum fylkingum. Sama orðalag er notað í fyrirsögn: Dregst saman með fylkingunum. Það dregur saman með fylkingunum, bilið milli þeirra minnkar. Það dregst ekki saman með þeim. Það orðalag er út í hött.

Þegar fréttamenn eru svo öruggir með sig í fréttalestri að þeir eru hættir að hlusta á eigin lestur er eins gott að gæta að sér, eins og stundum hefur verið nefnt hér áður. Þetta mátti heyra í útvarpsfréttum (24.10.2012) þegar fréttamaður talaði um hinn ítalska Berlusconi og þingkosningarnar á Alþingi næsta vor! Sá sem las hlustaði ekki á sig lesa, en fréttamaðurinn sem var með næstu frétt hafði hlustað og gerði hæfilega góðlátlegt grín að starfsbróður sínum.

Það væri góð tilbreyting ef dagskrárkynnir Ríkissjónvarpsins hætti að kynna læknasápuna sem er á dagskrá á miðvikudagskvöldum með orðunum: Það verður líf og fjör á læknamiðstöðinni ! Þetta hefur glumið í eyrum okkar að undanförnu. Heldur flatneskjulegt að ekki sé meira sagt. Kannski getur höfundur kynninganna látið sér detta eitthvað annað í hug!

Þegar Morgunblaðið (26.10.2012) segir í feitletraðri fjögurra dálka forsíðufyrirsögn: Hver atlaga stjórnarflokkanna á fætur annarri, er ekki verið að tala um atlögur að almenningi, heldur eigendum Morgunblaðsins. Kvótakóngum, sægreifum og greifynjum.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>