Lykilráð í fjármálum heimilanna er vond fyrirsögn á heimasíðu Íslandsbanka. Átt er við hollráð , góð ráð eða heillaráð. Á íslensku er ekkert til sem heitir lykilráð. Hér er sennilega verið að hráþýða úr ensku eða hugsa á ensku, – key advice. Hinsvegar eru til lyklaráð,lyklavöld að hafa yfir lyklum að ráða.
Orðskrípið ofurstormur kom enn einu sinnin fyrir í fréttum Stöðvar tvö (31.10.2012). Það er ekkert til á íslensku sem heitir ofurstormur. Við tölum um ofsaveður eða fárviðri. Í þessu tilviki var verið að tala um hinn mannskæða fellibyl Sandý
Nokkuð ber á því að prófarkalestur sé ekki nægilega vandaður þegar kemur að kynningartextum í Ríkissjónvarpinu. Á miðvikudagskvöld (31.10.2012) stóð á skjánum: How Not to Life Your Life. Vondur prófarkalestur. Þarna hefði átt að standa: How Not to Live Your Life. Nafnorðið er life, sögnin er to live.
Makríldeilan skaði norrænt samstarf, segir í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins. Á makríldeilan að skaða norrænt samstarf? Varla er það hugsunin. Verið að segja að makríldeilan skaði norrænt samstarf. Betur hefði farið á því að orða þetta á annan veg og segja til dæmis: Makríldeilan skaðar norrænt samstarf.
Orðalag í auglýsingum getur komið á óvart eins og til dæmis þegar sagt er að í nýrri bók sé fjallað opinskátt um sögu kirkjunnar. Þar er sjálfsagt svipt hulu af miklum leyndardómum!
Norrænu sjónvarpsstöðvarnar hafa allar sýnt fréttaskýringaþætti um bandarísku forsetakosningarnar. Molaskrifari minnist þess ekki að hafa séð neitt slíkt í íslenska Ríkissjónvarpinu. Kannski hefur hann bara misst af þessu efni.
Reykskynjari með tvö eftirsóttustu hönnunarverðlaunin, segir í fyrirsögn á svokölluðu Smartlandi (01.11.2012) mbl.is sem seint verður kallað kyndilberi þegar að málvöndun kemur. Þetta er endurtekið í sjálfri fréttinni. Hérlendis fæst orðið reykskynjari sem fengið hefur tvö eftirsóttustu hönnunarverðlaun heims.
Þarna ætti að sjálfsögðu að tala um tvenn verðlaun.
Í morgunþætti Rásar tvö (01.11.2012) var sagt frá umræðum á Norðurlandaráðsþingi m.a. um fyrirhugaða loftrýmisgæslu Finna og Svía við ísland. Þar talaði umsjónarmaður um hið ,hlutlausa Ísland. Finnar og Svíar standa utan varnarbandalaga og oft er talað um þessi lönd sem hlutlaus. Ísland er ekki hlutlaust. Ísland er í Atlantshafsbandalaginu og hefur verið frá stofnun þess. Var þetta fáfræði eða venjulegt morgunbull á Rás tvö í boði Ríkisútvarpsins ?
Ekki tekur betra við á Rás tvö þegar morgunþætti linnir. Þá taka við Virkir morgnar. Ömurlegt var að hlusta á viðtal umsjónarmanna á bjagaðri ensku við söngkonu á Möltu (endurtekið mjög árla dags 02.11.2012). Ekki veit Molaskrifari hvað konan hefur haldið um Ríkisútvarpið og þá sem þar starfa eftir þetta viðtal. Á íslensku gekk þeim afar illa að tala um þjóðerni konunnar. Þeir vita greinilega ekki að til er Handbók um íslensku sem fjölmiðlamenn ættu jafnan að hafa nærtæka ( Sjá í þessu tilviki bls. 117) Þetta var óboðlegt, bæði gagnvart þeim sem rætt var við og þeim sem hlustuðu. Líklega hlustar enginn af yfirmönnum Ríkisútvarpsins á þennan þátt. Svona vinnubrögð ættu að vera fyrir neðan virðingu Ríkisútvarpsins,
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar