Þeir félagar Bogi og Ingólfur Bjarni og þeirra lið stóð sig með miklum ágætum í kosningasjónvarpi Ríkissjónvarps vegna bandarísku forsetakosninganna aðfaranótt miðvikudagsins (07.11.2012). Hættu ekki fyrr en Obama hafði flutt sigurræðu sína sem lauk ekki fyrr en um sjö að morgni og höfðu þá verið að í eina átta tíma. Ingólfur Bjarni rak svo smiðshöggið á þetta í morgunþætti Rásar tvö. Vel að verki staðið með ágætri aðstoð CBS kosningasjónvarpsins vestra.
Í fréttum Ríkisútvarps (03.11.2012) var sagt: … vegna veðurofsans sem gekk yfir landið í gær. Betra hefði verið að mati Molaskrifara að segja: … vegna veðurofsans á landinu í gær.
Lesandi skrifar: ,, Svo bregðast krosstré sem önnur tré.
Þetta skrifar sjálfur Jónas Kristjánsson, fyrrum ritstjóri:
,,Hádegið er rétti tíminn til að fara út að borða og fá sér góðan fisk fyrir skynsamar fjárupphæðir.“
Mér finnst ekki hægt að ætlast til að fjárupphæðir sýni nokkra skynsemi!” Það er auðvitað rétt athugað. Jónas skrifar annars fínan texta.
Settu bylgjukrullur í hárið, segir á Smartlandi mbl.is (04.11.2012) Bylgjukrullur. Það var og. Ekki bylgjur. Ekki krullur. Heldur bylgjukrullur.
Bandaríkjamenn ganga í kjörklefann á þriðjudaginn, segir í frétt á visir.s (03.11.2012). Venjulegra orðalag væri að tala um að ganga að kjörborðinu eða að ganga til kosninga.
Flott að sjá brimið úti á sjó og samt er skipið í vari, skrifar bloggari í athugasemd við frétt á dv.is (05.11.2012). Brim er ekki úti á sjó. Brim er þegar stórar öldur koma að landi. Brim er við ströndina. Úti á sjó er stórsjór, haugasjór, mikil ölduhæð.
Svonefndur Pokasjóður hefur sparað sér prófarkalestur. Á stóru skilti frá sjóðnum í Bónusbúðinni við Reykjanesbraut eru viðskiptavinir hvattir til að kaupa poka og leggja þannig fram fé til velferðamála. Ætti að vera : … til velferðarmála. Sæmilegur prófarkalesari hefði rekið augun í þetta.
Það er umhugsunarefni fyrir þá sem vilja Ríkissjónvarpinu vel hve metnaðarlaus vetrardagskrá Ríkissjónvarpsins. Mest upphitað og endurunnið. Dans, dans, dans þar sem boðið er upp á hálfa aðra milljón í verðlaun (ekki auraleysinu fyrir að fara þar) er hvorki ný né frumleg hugmynd. Þátturinn er hinsvegar fagmannlega unninn, áreiðanlega dýr í framleiðslu, og þetta skemmtir sjálfsagt einhverjum. Hemma Gunn þættirnir á föstudagskvöldum eru uppsuða úr gömlu efni, sumt ágætt en annað lakara. Best skemmta sér greinilega gestir og stjórnandi í sjónvarpssal. Útsvarið gengur vel vegna góðra stjórnenda. Formið er þó orðið dálítið lúið. Alveg mætti taka upp nýjan spurningaþátt , t.d. í líkingu við Hvem vet mest sem er daglegur þáttur á SR 2. Hálftími og gengur mjög hratt fyrir sig. Skemmtilegt efni fyrir þá sem hafa gaman af spurningaþáttum. Kiljan stendur fyrir sínu. Egill er naskur á áhugaverð umfjöllunarefni bæði þar og í Silfrinu, oftast. Egill Helgason er hryggjarstykkið í dagskrárgerð Ríkissjónvarpsins hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Hann er með tvo bitastæðustu innlendu þættina, – þætti sem eru ekki dýrir í framleiðslu. Frammistaða stjórnenda Ríkisútvarpsins er slök. Það ætti að vera auðvelt að geta betur. Það bíður nýrra dagskrárstjóra sem óskað er velfarnaðar í starfi.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
07/11/2012 at 16:15 (UTC 0)
Leikið efni er hornreka. Nema menn vilji flokka Andrakjánaskapinnn sem leikið efni. Vonandi sópa nú nýir vendir höllina í Efstaleiti.
Axel skrifar:
07/11/2012 at 15:54 (UTC 0)
Sammála mörgu varðandi vetrardagskrá rúv. Innlenda efnið orðið æði þreytt. Sérstaklega Útsvarið. Skrýtið að vera aftur með Dans,dans,dans á meðan ekkert er um nýtt íslenskt leikið efni. Vonandi mun nýr dagskrárstjóri taka til hendinni.
Verð þó að viðurkenna að upprifjunin á gamla Hemmadótinu kætir mitt litla hjarta svolítið.
Eiður skrifar:
07/11/2012 at 09:46 (UTC 0)
Takk fyrir þetta, Paul B. Svona getur verið valt að treysta minninu, og svona eru danskan og norskan sterkar í manni!
Paul B Hansen skrifar:
07/11/2012 at 08:50 (UTC 0)
Takk fyrir góða pistla (sem hefur kennt mér talsvert í íslensku). ‘i pistlinum í dag (1053) skrifar þú (H)vem vet mest og vísar til sænska spurningaþáttar á SR2. Í sænsku er ekki notað hv, heldur eingöngu v, öfugt við dönsku og norsku. T.d vem?, vad?, var?
Mbk
Paul