Sú spurning hefur óhjákvæmilega vaknað hvort forrráðamenn Ríkisútvarpsins kunni ekki íslensku eða séu með ráðnum hug að vinna skemmdarverk gegn tungunni ? Lögum samkvæmt á Ríkisútvarpið að standa vörð um tunguna . Þau lög eru þverbrotin næstum daglega, rétt eins og stofnunin virðir ekki lögbundið bann við auglýsingum um áfengi með sífelldum illa dulbúnum bjórauglýsingum.
Daglega heyrum við núna auglýsingar frá Skíðaskálanum í Hveradölum um „reunion.“ Þetta er lesið á ensku en heitir á íslensku,til dæmis bekkjarmót, nemendamót eða ættarmót. Hótel Loftleiðir og veitingahúsið Vox auglýsa „brunch“ eða bröns. Það er líka lesið á ensku. Þetta er máltíð sem er í senn morgunverður og hádegisverður. Þetta er ekki íslenska. Svona auglýsingum á að hafna. „Verður ekki bráðum byrjað að auglýsa „funerals“, spurði góðvinur og gamall starfsmaður RÚV mig í gær ?
Lengi vel var stagast á enskuslettunni „að smæla “ í auglýsingum frá Toyota. Sú auglýsing er nú horfin í bili að minnsta kosti. Sparisjóðurinn Byr bullar enn um ensku hugsunina „ fjárhagslega heilsu“. Næst verður kannski auglýst að viðskiptavinir geti sótt sér „ fjárhagslega heilsu“ til hálfbyggða sjötuga hótelsins á Miami Beach í Flórída sem sparisjóðirnir ætluðu að endurreisa með Englendingnum John Pickpocket, eða hvað hann nú annars hét.
Ríkisútvarpið á að skammast sín fyrir þessi skemmdarverk. Ný málfarsráðunautur þarf að byrja að gera hreint í Efstaleitinu. Við bíðum.
13 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Sigurður Hreiðar skrifar:
10/05/2009 at 15:11 (UTC 1)
Jamm og já, ég heyrði líka þetta nafn útundan mér Pickhard, og held að ég hafi jafnvel smábrosað upphátt. En festi mér það ekki í minni frekar en hitt. En hart hefur hann pikkað – og satt að segja er ég ekki viss um að þú segir satt að nafnið hafi bara si svona ruglast hjá þér. Trúi betur að það hafi verið með nokkrum vilja gert og er gersamlega ósárt um það.
Góð kveðja.
Eiður skrifar:
10/05/2009 at 09:01 (UTC 1)
Svo ölllu sé til haga haldið, Sigurður Hreiðar, þá ruglaðist þetta víst hjá mér með nafnið. Hann heitir Pickhard, maðurinn sá arna. En hitt orðið festist einhvernveginn í huga mér !!!
Eygló skrifar:
10/05/2009 at 03:17 (UTC 1)
Jón, ef þú átt við kannabis-gróðurhúsið, þá brosti ég líka í kampinn, við gróðrarstöðinni. Lét þau þó njóta vafans af því að ég vonaði að þetta væri orðaleikur um gróðann sem hefði mátt fá úr gróðrinum sem þar skyldi dafna. Samt hrædd um ….
Jón Thorberg Friðþjófsson skrifar:
10/05/2009 at 03:04 (UTC 1)
Það er slæmt að hlusta á útvarpstjóra tala um að gera gróðrarstöð upptæka, en ekki gróðurstöð. E rekki gróður alltaf gróður, hvort sem er í gróðurhúsi eða á víðavangi?
Sigurður Hreiðar skrifar:
09/05/2009 at 20:00 (UTC 1)
Hét hann Pickpocket? Hét hann ekki Moneypenny eða bara Penniless? Þú stendur vaktina með sóma. Verst að svona fræði lesa aldrei þeir sem helst þyrftu þess. — Annars get ég að mörgu leyti tekið undir með Maíju — það eru ekki beinu og augljósu sletturnar sem eru verstar heldur málnauðgunin, eins og hún tekur dæmi um. Og mig langar að bæta við ábendingu um hársápuauglýsinguna þar sem talað er um hárið þitt sem ætti auðvitað að vera hárið á þér.
Beggi skrifar:
09/05/2009 at 19:29 (UTC 1)
Lesið þetta:
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2006395
Þessi pistill á alveg eins við núna einsog þá.
Eiður skrifar:
09/05/2009 at 18:41 (UTC 1)
Þakka jákvæðar undirtektir og athyglisverðar ábendingar og vangaveltur. Rétt er það að Sigrún Davíðsdóttir er prýðilega máli farin og vandvirkur fréttamaður. Kristinn R. Ólafssson fréttaritari á Spáni er líka orðsnjall, kannski stundum aðeins um of þannig að jaðrar við tilgerð ! Hinsvegar kemur mér alltaf einhver kaffitegund í hug,þegar ég heyri í honum nú orðið, eftir að hann lét hafa í sig að leika í kaffiauglýsingu,sem mér finnst heldur hallærisleg. En Kristinn er sannarlega orðhagur og áheyrilegur og oft bráðskemmtilegur.
Varðandi sletturnar þá felli ég mig ekki við þær. Hversvegna þurfti umsjónarmaður tónlistarþáttar í RÚV núna rétt áðan að tala um að alllir þekktu þennan gamla góða standard“,- jasslagið góða,sem á ensku heitir After You´ve Gone ? “ Það er algjör óþarfi að troða enska orðinu standard“ inn í íslenskuna í þessari merkingu. Það hefði verið alveg prýðilegt að tala um þetta alþekkta (gull)falllega lag.
Eygló skrifar:
09/05/2009 at 16:46 (UTC 1)
Sammála þér Ásgrímur. Skítt með sletturnar EF fólk veit þá að það er „útlenska“. Beinu þýðingarnar, sem ég þoli ekki, held ég að setji málkenndina í mesta hættu, sbr. „ég er að reikna með hægu veðri…“ „hafðu góðan dag“ „eigðu góða nótt“ (verður flökurt að skrifa þetta) og milljón fleiri dæmi…. Ég er nokkuð góð í þessu en þarf oft að lesa mig til og þykir vænt um að fá leiðbeiningar og fræðslu. Það versta er að ég hugsa að verstu skussarnir hafi engan áhuga á svona pistlum… Jæja, þá það. Nei, aldrei að gefast upp!!!
Ásgrímur Hartmannsson skrifar:
09/05/2009 at 16:03 (UTC 1)
Enskusletturnar angra mig minnst. Frasarnir fara meira í mig. Og málnotkunin: nú er allt „í“ öllu. Menn eru bestir „í“ kjöti, og það er mikið úrval „í“ ljósaperum.
Þessum gaurum hefur undanfarið tekist að fá mig til að halda að ég tali mikið gullaldarmál, þó svo sé ekki.
Sverrir Einarsson skrifar:
09/05/2009 at 14:34 (UTC 1)
Í vinnunni var ég „sakaður um “ af samstarfsmanni (þrítugum) að tala svo „gamalt“ mál (ég er fæddur 1955). Ég spurði viðkomandi í forundran hvort hann hafi lesið Eglu. Og viti menn svarið sem ég fékk var „hvað er það“. Má vera að ég tali „gamalt“ mál. Þá er ég stoltur af því frekar en hitt. Ég las aldrei sem ungur maður Íslendingasögurnar því þær voru mér illskiljanlegar á því ritmáli þá, en mér skilst að það sé búið að gefa þær út (fyrir nokkru) á „nútímamáli“. Kannski ég fari að bera mig eftir þeim til lestrar.
Málfar í útvarpi og sjónvarpi verður aldrei gott meðan ráðið er eftir vina lista eða „réttu“ flokksskýrteini
Eygló skrifar:
09/05/2009 at 13:14 (UTC 1)
Hvað ætli málfarsráðunautar geri? Allavega, ef eitthvað hefur gengið með að aðstoða fjölmiðlafólk…. hvernig var það á fyrir? Má ég þá bara biðja um útlendinga í þessi störf, maður fyrirgæfi þeim þó : )
Takk fyrir. Þú átt mína ómældu þökk og aðdáun fyrir að halda á lofti fána íslensku tungunnar.
Sigurður Grétar Guðmundsson skrifar:
09/05/2009 at 11:20 (UTC 1)
Því miður eru það blaða- og fréttamann, ásamt þeim fjölmörgu sem vinna á auglýsingastofunum, sem ráða þróun íslenskrar tungu. Það væri hægt að benda á fjölmörg dæmi þess að málið er að verða fátæklegra en vissulega finnast hæfir einstaklingar í þessum hópi. Ég ætla að skrifa um þetta á mínu bloggi og ekki síður um hvað það eykst að fólk getur ekki komið fyrir sig orði, auðvitað er það ekki það sama að standa fyrir fram tökuvél eða sitja í fámennum hópi inni í stofu. En algengustu orðin í mörgum viðtölum eru „sko“ og „þarna“. Svo eru það allar erlendu sletturnar sem eru í mikilli framrás í mæltu máli og einnig í auglýsingum og þar bregst Ríkisútvarpið oft á tíðum og er augljóst að málfarsráðunauturinn Aðalsteinn Davíðsson má sín lítils. Hann benti hnyttilega á í viðtali á margar fjólur svo sem þá að ferðamálfrömuður af landbyggðinni sagði að þar yrði framþróunin ekki síst byggð á „lókal fúdd“.
Jón Óskarsson skrifar:
09/05/2009 at 10:32 (UTC 1)
Þegar handvalið er inn á fréttastofuna er að öllum líkindum farið eftir flokks- og vinaböndum og kannski menn hafi stjórnmálafræði í bakgrunni líka. (Minnist þess ekki að auglýst hafi verið eftir fréttamönnum síustu misserin hvað þá að einhver skilyrði hafi verið sett um hæfni).
Það þarf að láta þetta lið sem misbýður hlustendum hvert skipti sem það opnar munninn taka pokann sinn.
Það ætti að ráða fréttamenn eftir því hvort þeir hafi lesið fleiri bækur á móðurmálinu en enskunni.
Að mínu mati er bara einn fréttamaður á RÚV sem eitthvað kann fyrir sér. Bæði hvað varðar meðferð móðurmáls og svo faglegrar rannsóknarblaðamennsku.
Það er Sigrún Davíðsdóttir sem búsett er í London.