«

»

Molar um málfar og miðla 1264

Yfirmenn Ríkisútvarpsins í Efstaleiti,  og þar með stjórnendur Ríkissjónvarpsins,  sjá enga ástæðu til að sýna viðskiptavinum, sem er  þjóðin öll,  almenna kurteisi.   Í gærkveldi (25.07.2013) riðlaðist dagskrá  Ríkissjónvarpsins (enn einu sinni)  vegna þess  að  erlendur knattspyrnuleikur  (sem að ástæðulausu var látinn snúa dagskránni á hvolf)  dróst á langinn. Við því var lítið að gera úr því sem komið var. Niðursoðna konuröddin sem kynnir dagskrána  sagði okkur hinsvegar  rangt til um framhald kvölddagskrár, þegar hún kynnti dagskrána eftir lok leiksins. Sagði okkur ekki satt. Þátturinn ,,Sönnunargögn´´ (Body of Proof) sem vera átti á dagskrá  fyrir  seinni fréttir  fluttist aftur fyrir fréttirnar. Engin skýring. Engin afsökun. Í tíu fréttum hefði verið hægt að skýra breytinguna á dagskránni. Það var ekki gert.  Ekki einu sinni stuttur skjátexti. Það er ekki boðlegt að allar  dagskrárkynningar í Ríkissjónvarpinu  skuli vera niðursoðnar, teknar upp löngu fyrirfram, og því er ekki  hægt að bregðast við breytingum sem verða á dagskránni. Það er tímabært að gefa niðursoðnu konuröddinni frí. Langt frí.

 

Gunnar sendi eftirfarandi (24.07.2013): „Þar er lag deildarinnar toppurinn á ísjakanum,“ sagði Hjörvar Hafliðason á Stöð 2 í gær, en hann átti við að lagið væri hið besta. Að tala um toppinn á ísjakanum er yfirleitt notað um eitthvað slæmt, þar sem aðeins lítill hluti er sjáanlegur, sbr. tenginguna við borgarísjaka, þar sem innan við 10% þeirra sést á yfirborðinu, sem skapar hættu við siglingar.

Þessa vikuna er Anna Svava Knútsdóttir á Rás 2 á milli kl. 9 og 12, ásamt Þórði Helga. Það mætti halda að allur metnaður hafi verið skilinn eftir utandyra, þegar útsending hefst. Dæmi: „Og þá meldu allir leikarar sig“, „ég þarf að hringja í læknir“, „djís“, „nennirðu að spila …“, auk þess að tala um hvað hún ætlaði að segja í útsendingu, án þess að gera sér grein fyrir að kveikt var á hljóðnemanum.

Mér fannst sérkennilegt að á nokkrum fjölmiðlum var tekið fram: „fjölskyldunni heilsast vel“, eftir fæðingu frumburðar Vilhjálms og Katrínar. Yfirleitt telst heilsufar föður ekki fréttnæmt eftir fæðingu og því oftast orðað: „mæðginunum heilsast vel“.

„Upplifðu „Vámóment“ í allt sumar“, var auglýst á Rás 2.

Þá var talað um „eins kílómeters kafla“ í Bylgjufréttum í dag, í stað „eins kílómetra kafla“.

Að lokum má geta fréttar á visir.is, þar sem haft er eftir svokölluðum „túrstjóra“ áhafnarinnar á Húna: „Ég þarf náttúrlega að eyða hverju einasta skilaboði …“ Skilaboð er fleirtöluorð og ekki til í eintölu, ekki frekar en tónleikar eða verðlaun. –  Molaskrifari þakkar Gunnar sendinguna. Það er því miður af nógu að taka þegar kemur að ambögum í fjölmiðlum.

 

Trausti sendi Molum línu (245.07.2013) og vitnar í frétt á mbl.is: ,, Mörg fyrirtæki gera sér nú veður úr fæðingu breska prinsins og nýta atburðinn til að lífga upp á viðskiptin.
Veðurframleiðsla! Er ekki rétt að ríkisstjórnin hugi að því að laða slíka framleiðendur til landsins í stað erlendra álframleiðenda?”. Góð hugmynd! Hér er ruglað saman orðtökum enn eitt skiptið. Gera veður út af einhverju, – vekja sérstaka athygli á einhverju af heldur litlu tilefni (oft) og að gera sér mat úr einhverju , grípa tækifærið eða nýta stöðuna sér til ábata..

 

Í fréttum Ríkisútvarps klukkan sex að morgni miðvikudags(24.07.2013) var sagt að nýju meti hefði verið slegið upp í aðstoð Alþjóðabankans við þróunarlönd. Í sama fréttatíma var talað um að viðleitni Sameinuðu þjóðanna til að rannsaka hvort efnavopnum hefði verið beitt  í Sýrlandi hefði orðið fyrir höggi, þegar eftirlitsmönnum var meinaður aðgangur að borg þar sem rannsaka átti hvort þar væri að finna merki um að efnavopnum hefði verið beitt. Hvorug fréttin var í fréttunum klukkan sjö og fréttatímann er ekki að finna á vef Ríkisútvarpsins eins og aðra fréttatíma.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Rétt. – esg

  2. Valur skrifar:

    Er ekki málið að íþróttarásin er ekki aðgengileg öllum, heldur bara þeim sem eru með sjónvarp gegnum internetið eða geta tekið á móti stafrænum útsendingum. En ég er sammála, ég ætlaði einmitt að horfa á þennan Body of proof þátt.
    En mér finnst lágmark að það seljist í stúkuna þegar stelpurnar okkar eru að keppa áður en farið er að riðla til auglýstri dagskrá til að sýna það í beinni útsendingu sem fólk hefur ekki einusinni áhuga á að fara á völlinn að sjá. Fyrit utan það að þær voru ekki einu sinni að spila á fimtudaginn, dottnar úr keppni.

  3. Eiður skrifar:

    Rétt , Gunnar, – þetta eru ólíðandi vinnubrögð.

  4. Gunnar skrifar:

    Sjónvarpsþátturinn Body of Proof, sem hafði verið margauglýstur liður á dagskrá fimmtudagskvöldsins, var felldur niður vegna þess að fótboltinn fór 45 yfir auglýstan tíma. Það á að vera nóg að sýna svona boltasprikl á íþróttarásinni, sem Sjónvarpið ræður yfir, en ekki þröngva þessu yfir landslýð með góðu eða illu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>