– Tökum hann, tökum hann, sagði fílefldur lögregluþjónn um leið og hann og félagi hans hrintu mér yfir ímyndaða línu milli tveggja keilna í Gálgahrauni í morgun. Að þessu voru mörg vitni. Það var ekki búið að strengja nein bönd eða borða, aðeins . henda niður nokkrum röndóttum keilum. Það er álitamál hvort ég var 20 eða 30 sentimetra innan við ímyndaða línu sem enginn sá nema lögreglan. Keilurnar voru síðan færðar því í óðagotinu höfðu þær verið settar rangt niður. Þetta var langt frá öllum vinnuvélum. Meðan löggan var að hóta mér og hrinda gekk Ómar vinur minn Ragnarsson,sem staðið hafði við hliðina á mér óhindrað inn á svæðið, en ekki leið á löngu áður en lögreglan beitti hann ofbeldi og bar hann í burtu. Löggan tók mig fyrst. Kannski er það heiður.
Hann Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra (yfirmaður lögreglunnar , Vegagerðarinnar og dómsmála í landinu) hlýddi flokkssystkinum sínum í bæjarstjórnarmeirihluta Sjálfstæðisflokksins og vegamálastjóra þegar hún sigaði hátt í 40 manna lögregluliði á almenna borgaravið friðsöm mótmæli í morgunsólinni í Gálgahrauni. Lengst af voru lögreglumennirnir fleiri en við mótmælendur. Við búum greinilega ekki í réttaríki heldur lögregluríki þar sem yfirmaður lögreglunnar, sjálfur ráðherrann, skipar lögreglunni að beita ofbeldi gegn friðsemdarfólki. Þetta var mikil lögregluaðgerð og öllum nærliggjandi vegum lokað. Hvað skyldi þetta annars hafa kostað íslenska skattborgara? Mikið, þegar upp er staðið.
Það var með ólíkindum að upplifa þetta í haustblíðunni í morgun í friðsælu hrauninu sem ég gekk um í gær. Það er greinilegt að vegamálastjóri og meirihluti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórninni í Garðabæ hafa gefið verktakanum skipun að eyðileggja eins mikið af hrauninu og mögulegt er á svo skömmum tíma sem unnt er. Ein stærsta jarðýta landsins æðir nú yfir hraunið og veldur eyðileggingu sem aldrei verður bætt. Í kjölfar hennar kemur svo risagrafa. Sennilega verða þeir sem þarna ráða búnir að láta jarðýtuna fara veglínuna á enda annað kvöld. Allt er þetta gert meðan beðið er úrskurðar dómstóla um lögmæti þessarar framkvæmdar og tengd mál. Svo einbeittur er brotaviljinn frá þeim sem hlut eiga að máli allt frá bæjarstjóranum í Garðbætil ráðherradómsmála og samgöngumála.
Hraunið er hægt að brjóta og eyðileggja. En það ólánsfólk sem ber ábyrgð á þessu hrikalega skemmdarverki, þessu níðingsverki gegn náttúrunni og komandi kynslóðum, liggur mér við að segja, hefur hinsvegar með framgöngu sinni reist sér óbrotgjarnan minnisvarða sem standa mun þessu fólkitil háðungar um aldur og ævi. Þetta er svartur dagur í sögu náttúruverndar á Íslandi og sögu íslensks réttarfars.
15 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
28/10/2013 at 09:14 (UTC 0)
Fluttur af af svæðinu gegn vilja sínum. Streittist ekki á móti. Svolítill leikur að orðum.
Viðar Örn skrifar:
28/10/2013 at 08:49 (UTC 0)
“ gekk Ómar vinur minn Ragnarsson,sem staðið hafði við hliðina á mér óhindrað inn á svæðið, en ekki leið á löngu áður en lögreglan beitti hann ofbeldi og bar hann í burtu.“
Ekki veit ég hvort við lásum sömu grein , en ég las greinina sem þú skrifaðir hér að ofan, þetta er tilvitnun í hana. En ekki misskilja mig mér finnst þetta alrangt og er í þínu liði, það er bara flottara að segja rétt frá. Að handtaka mann er eitt, Ómar var handtekinn, reyndar fóttekinn líka. En beittur ofbeldi? Ekki að mér sýnist.
Eiður skrifar:
27/10/2013 at 14:19 (UTC 0)
Ég er ekki að ljúga neinu. Ég tók ekki sérstaklega fram að Ómar hefði verið beittur ofbeldi. Aðrir voru beittir ofbeldi. Nokkrir fengu áverkavottorð eftir harkalegar aðfarir lögreglunnar. Einn var handtekinn, handjárnaður, hent á grúfu og lögregluþjónn setti hnéð í bakið á honum.
Viðar Örn skrifar:
27/10/2013 at 07:37 (UTC 0)
Víst er þetta ekki gott mál og mér þykir þetta mikið miður að verið sé að eyðileggja fallegt land að óþörfu. Hins vegar sá ég myndir af handtöku Ómars Ragnarssonar þar sem hann er tekinn upp hreyfingarlaus af 3 mönnum og borinn frekar ljúflega þarna yfir hraunið. Ég veit ekki hversu oft þú hefur verið handtekinn Eiður en að segja að Ómar hafi verið beittur ofbeldi er ekki í samræmi við það sem fréttamyndirnar sýna. Ég skil vel að þú sért sár og reiður yfir því að verið sé eyðileggja landið okkar. Það gefur þér samt ekki leyfi til þess að ljúga því uppá löglegluna að hún sé að beita ofbeldi. Ég 100%viss um að allir lögreglumenn vita hver Ómar Ragnarsson er og að enginn Íslendingur myndi óska sér þess að geta verið sá sem handtekur hann, þeir eru bara að fara eftir lögum og reglum , eða túlkun þeirra og verða að hlýta fyrirmælum annars missa þeir vinnuna sína.
Vildi bara benda þér á þetta.
Magnus Agustsson skrifar:
23/10/2013 at 07:57 (UTC 0)
Setjja sikur i oliuna a ollum velunum tha braeda thaer urser
Eiður skrifar:
22/10/2013 at 14:02 (UTC 0)
100% sammála, Anna María.
Anna María skrifar:
22/10/2013 at 11:02 (UTC 0)
Þegar löggunni er beitt til að verja lögleysu er fokið í flest skjól. Hvað sem fólki finnst um vegalagninguna og hraunið þá er bara einfaldlega ekki enn ljóst hvort það er leyfilegt að fara í þessar framkvæmdir. Lögreglan hefði átt að vera þarna til að stöðva framkvæmdir en ekki til að handtaka fólk sem sat úti í náttúrunni. Já úti í náttúrunni sem er FRIÐLÝST AÐ LÖGUM……..ENNÞÁ.
Bjarni V Bergmann skrifar:
21/10/2013 at 20:19 (UTC 0)
Það er umhugsunarvert hvernig lögregla tekur ólöglega, afstöðu til mála , þau eru óútkljáð og í meðferð dómstóla.Hraunavinir þið eigið samúð fyrir að þurfa að upplifa ólögmæta handtöku og um leið þakkir skildar fyrir að standa við sína sannfæringu,sem vonandi verður til að lögregla geri sér grein fyrir að svona aðgerðir lögreglu geti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar !
Eiður skrifar:
21/10/2013 at 19:49 (UTC 0)
Kærar þakkir, Valgeir. K kv Eiður
Eiður skrifar:
21/10/2013 at 19:47 (UTC 0)
Kærar þakkir, Örlygur.
vidar Birgisson skrifar:
21/10/2013 at 19:40 (UTC 0)
Eg vil bara benda ykkur à ad løgreglan er ad vinna sina vinnu, thetta ættir thu ad vita sem fyrveranda radherra 🙂
Jón H. Magnússon skrifar:
21/10/2013 at 19:01 (UTC 0)
Mér finnast ummæli Eiðs fyrrverandi ráðherra og sendiherra um ofbeldi lögreglu með ólíkindum. Í hverju felst ofbeldi lögreglunnar? Er það að halda uppi lögum og reglu eða þóknast þeim sem brjóta gegn lögum og reglu, eins og mér finnst hann vilja?
Það eru til leiðir til að ná fram réttlæti, en það gerist ekki með því að hindra löglegar aðgerðir, þó honum og fleirum finnist þær ekki vera þeim að skapi.
Lenti Eiður aldrei í því sem ráðherra að einhverjir væru andsnúnir ákvörðunum hans? Fannst honum þá rétt að þeir næðu sínu fram en hann yrði að lúffa?
Á langri ævi finnst mér ég hafa upplifað það í umræðu á Alþingi og utan þings að það sem stjórnmálamönnum líki persónulega finnist þeim vera það sem þjóðin vilji eða ætti að vilja og sé henni fyrir bestu. Þetta viðhorf finnst mér blasa of oft í pólitískri umræðu, án þess að þeir reyni að rýna í það hvað almenningur vilji.
Guðjón Jensson skrifar:
21/10/2013 at 18:50 (UTC 0)
Eftir að þessi ríkisstjórn tók við völdum höfum við verið að upplifa allt annan raunverleika en við þekkjum hér á landi og Norður Evrópu. Erum við allt í stödd í lögregluríki þar sem mannréttindi eru ekki viðurkennd? Þetta eru sömu aðilarnir sem lögðust gegn nýrri stjórnarskrá og vildu grafa sem fyrst undan allri þeirri merku starfsemi sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur beitti sér fyrir.
Þetta eru sömu aðilarnir sem vildu draga Icesave málið niður í táradal tilfinninga og þjóðarrembingins þó svo að alltaf var vitað að nægir fjármunir myndu verða fyrir hendi.
Þetta eru sömu aðilarnir sem vilja færa náttúruvernd áratugi aftur í tímann.
Og þetta eru sömu aðilarnir sem vilja taka ákvörðuni um framtíð aðildaviðræðna við Evrópusambandið og vilja ekki bera undir þjóðina.
Og svo kunna þeir ekki nöfn á löngu þekktum þjóðríkjum og nefna Kakastan!
Þetta er ríkisstjórn sem byggir tilveru sína á lýðskrumi, bröttum kosningaloforðum°í anda Silvio Berlúskóní og brostnum vonum auðtrúa kjósenda, nema kannski verktakanna!
Búum við í verktakalýðræði?
Valgeir Sigurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:
21/10/2013 at 18:43 (UTC 0)
Hetjur dagsins, þið hraunsins vinir!
Hér gerast málin dökk.
Eiður, Ómar og allir hinir,
ykkur sé lof og þökk.
K kv og þakklæti.
VS.
Örlygur Geirsson skrifar:
21/10/2013 at 17:44 (UTC 0)
Félagi Eiður, þú hefur orðið okkur jafnaðarmönnum til sóma í þessu máli. Mér þykir miður að geta ekki staðið við þína hlið í þessri orrustu !
Kveðja Örlygur