«

»

Molar um málfar og miðla 1342

Fyrrum fréttamaður skrifaði (31.10.2013): ,,Vek athygli á notkun orðskrípisins ,,óásættanlegur“. Man að þetta náði flugi fyrir nokkrum árum og eins og mig minni að forystumenn ASÍ hafi átt heiðurinn að því, en það er aukaatriði. Nú er allt orðið „óásættanlegt“ sem ekki er viðunandi, er óþolandi, ófært, óframbærilegt, slæmt, afleitt o.s.frv. Merkilegt þegar svona ófögnuður nær að skjóta rótum eins og illgresi í málfarinu.” Fyrrum fréttamaður bendir líka á annað orðalag,- einskonar tískufyrirbæri sem æ oftar heyrist og segir: – ,, Ég man ekki hvort þú hefur tekið fyrir í dálkum þínum, óþverrann ,,heilt yfir“ sem er orðin tíska að nota. Nenni ekki að telja upp ótalmörg góð og gild íslensk orð til að nota yfir þetta”. Þetta eru réttar ábendingar frá fyrrum starfsbróður. ,,Heilt yfir” heyrist æ oftar og hefur verið nefnt í þessum dálkum, en góð vísa er aldrei of oft kveðin. Þetta orðalag ættu menn að forðast. Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Stundum er verið að hrósa Ólafi Ragnari Grímssyni fyrir enskukunnáttu. Hann heyrðist tala ensku í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (01.11.2013). Sæmilegur enskukennari í grunnskóla hefði leiðrétt framburðinn hjá honum, – hann gerði engan greinarmun á v og w. Það fer í taugarnar á Englendingum.

 

Rafn skrifaði (31.10.2013): ,,Meðfylgjandi er í viðhengi heilsíðuauglýsing úr Fréttablaðinu í dag. Þar er stór og mikil mynd af bjórflösku með áletruninni „EXPORT BEER“, þannig að vart fer milli mála hvað verið er að auglýsa, ekki sízt þegar við bætist auðkennið „WHISKY BAR“ við nafn auglýsanda. Það vekur hins vegar upp spurninguna, til hvers litla orðið „Léttöl“, sem prentað er við hlið bjórflöskunnar á að vísa. Svo mikið er víst, að ég hefi hvorki heyrt að EXPORT BEER né WHISKY hafi verið nefnd léttöl á íslenzku.

Að auki má benda á mál auglýsingarinnar, yfirskriftina „OFF-VENUE“, nöfn dagskrárliða og stytta mánaðarheitið NOV.” Allt er þetta rétt,sem Rafbn segir og öllum sem að málinu koma til skammar. Hér er auglýsingin:

https://postur.simnet.is/service/home/~/ExportBeer.pdf?auth=co&loc=is&id=189500&part=2

 

Í dag kærði ég fyrir erlendan skjólstæðing minn eiginkonu hans fyrir tvíkvæni, skrifar kunnur lögmaður á fésbók (01.11.2013). Karlar kvænast. Konur giftast.

 

Gunnar skrifaði (31.10.2013): ,,Skrifum á Pressunni er oft sorglega ábótavant; ekki virðist starfandi prófarkalesari á þeim bænum. Í dag, 31. október, stendur t.d.: „Femínistar hafa í dag gagnrýnt að tíu karlar hafi hlotnast þessi heiður en aðeins ein kona.“ Það rétta er að tíu körlum hefur hlotnast heiðurinn og einni konu. Fólk hlotnast ekki heiður, fólki hlotnast hann. Þarna á að vera þágufall.”

Satt og rétt.

 

áttu í engum vandræðum með ÍR, eitthvað á þessa leið var sagt í íþróttafréttum Ríkisútvarpsins á föstudag (01.11.2013). Hefur heyrst áður á þeim bæ. Eðlilegra hefði verið að segja: Áttu ekki í neinum vandræðum með ÍR.

 

Morgunblaðið er aldargamalt í dag 2. nóvember. Það á sér merka sögu. Bar lengi höfuð og herðar yfir aðra fjölmiðla. Enn er blaðið merkur, en mistækur fjölmiðill. Vandað málfar var lengi aðal Morgunblaðsins. Þar eins og víðar hefur verið slakað á kröfum. Í blaðinu á afmælisdaginn er fyrirsögn á hrognamáli: Brandarinn eða ,,punchline“-ið?  Molaskrifari óskar Morgunblaðinu og starfsfólki þess til hamingju með þessi tímamót. Afmælisósk hans til blaðsins er sú að það leggi meiri rækt við móðurmálið á komandi árum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Jú, Linda. Aðal Morgunblaðsins. Sjá íslenska orðabók, 4. útg. bls. 2

  2. Linda skrifar:

    Aðall Morgunblaðsins, ekki aðal Morgunblaðsins 😉

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>