«

»

Molar um málfar og miðla 1345

 

Molalesandi skrifar (04.11.2013): ,,Sæll, – þar sem ég hef ekki pappírsútgáfu af Morgunblaðinu í dag þá get ég ekki fullyrt að frétt sem ég vitna í sé samhljóða þar og í vefútgáfu.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/11/04/segja_uppsagnir_vofa_yfir/ Félagsmenn starfsmanna ríkisstofnana óttast…..Upphafið á fréttinni í vefútgáfunni er óskiljanlegt með öllu.” Molaskrifari þakkar bréfið. Fréttirnar eru samhljóða á mbl.is og í prentaðri útgáfu Morgunblaðsins.

Af mbl.is (04.11.2013): Vagninn hafði hafnað út fyrir veg í mikilli hálku og hvassviðri, þegar vindhviða kom á vagninn. Vagninn hafnaði fyrir utan veg, hefði verið betra orðalag.

Fernanda dregin til vars inn af Garðskaga segir í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (04.11.2013) http://www.ruv.is/frett/fernanda-dregin-til-vars-inn-af-gardskaga Ekki kannast Molaskrifari við orðalagið að draga skip til vars. Venjulegra væri að tala um að draga skip í var, sagt er að skip leiti vars er þeim siglt upp undir land í skjól fyrir hvassviðri og úfnum sjó. Ekki áttar Molaskrifari sig heldur á því hvar inn af Garðskaga sé.

Gunnar skrifaði (04.11.2013)): „Maus koma út úr skápnum,“ stendur á Vísi 4. nóvember, en þar sem Maus er hljómsveit, þá er rétt mál: „Maus kemur út úr skápnum,“ eða „Liðsmenn Mauss koma út úr skápnum.“

Meira frá Gunnari (05.11.2013): ,,Sæll Eiður. Alveg finnst mér það með ólíkindum að stjórnendurnir í Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúsinu í Reykjavík, skuli setja málvillu á aðgöngumiðana sína. Fyrir tónleika, sem hefjast kl. 20:00, stendur: „OPNAR 19:30“. En hið rétta er að það er OPNAÐ kl. 19:30. Salurinn opnar ekki, húsið opnar ekki … salurinn er opnaður og húsið er opnað. Eins er furðulegt að merkingar innanhúss skuli vera á ensku, en ekki á íslensku eða jafnvel báðum tungumálum.
Þetta með tungumálin, minnir mig á sögu um heimsókn Elísabetar Bretadrottningar til Danmerkur, hér um árið. Þá voru fjarlægðar lyftumerkingar alls staðar þar sem hún kom, því algengt var að þar stæði á upplýstum fleti: „I FART“ þegar lyftan var í notkun. Þetta þótti ekki boðlegt fyrir enskumælandi hefðargesti.” Kærar þakkir, Gunnar. Rétt ábending með miðana í Hörpu. Góð saga um Danmerkurheimsókn drottningar

„Íslenska liðinu vantar breidd,“ sagði Guðjón Guðmundsson í íþróttafréttum Stöðvar 2 í dag, 4. nóvember. Liðið vantar breidd, ekki liðinu.” Molaskrifari þakkar Gunnari þessar ábendingar.

Sigurjón Egilsson , þáttastjórnandi á Bylgjunni skrifaði á Fésbók (04.11.2013): Forráðamönnum Aftureldingar bar gæfa til að ráða Atla Eðvaldsson sem þjálfara. Reyndur blaðamaður á að vita betur. Forráðamenn Aftureldingar báru gæfu til að ráða Atla Eðvaldsson sem þjálfara, hefði Molaskrifari haldið að þetta ætti að vera.

Góð umfjöllun Jóns Guðna Kristjánssonar í Speglinum (05.11.2013) um mjög athyglisverða grein í 6. hefti timaritsins Foreign Affairs, eftir Alan B. Sielen , The Devolution of the Seas, undirfyrirsögnin er – afleiðingar eyðileggingar heimshafanna. Þarft verk að vekja athygli á þeirri örlagaríku þróun sem nú á sér stað. Höfundur segir: ,,Maðurinn er að útrýma ljónum og tígrum heimshafanna til að skapa rými fyrir rottur og kakkalakka”. Þessa grein ætti að þýða og hún að fara sem víðast.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eiður,
    Á dv.is í dag er viðtal við Þórhall Gunnarsson undir fyrirsögninni “ Við erum ekki að hvetja til fjárhættuspilunar“. Að hvetja til fjárhættuspils eða fjárhættuspila hefði verið betra. „Fjárhættuspilun“ er bara bull, orðskrípi.
    Kv, Egill

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>