«

»

Molar um málfar og miðla 1348

 

Í morgunþætti Rásar tvö á fimmtudag (07.11.2013) var fróðlegt viðtal við Einar Sigurðsson forstjóra Mjólkursamsölunnar um skyrið, framleiðslu og sölu á íslensku skyri erlendis. Einar sagði að allar þjóðir vernduðu sinn landbúnað með tollum. Hvað um þjóðirnar innan ESB? Molaskrifaði saknaði þess að umsjónarmenn, sem ræddu við Einar, skyldu ekki spyrja hann hverju það mundi breyta fyrir framleiðsluna á íslensku skyri ef Ísland væri aðili að Evrópusambandinu. Sú spurning kom hinsvegar aldrei.

 

Í hádegisfréttum á fimmtudag (07.11.2013) spurði Broddi Broddason fréttamaður og þulur, Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur þingfréttamann sem var í alþingishúsinu hvort skýrt hefði komið fram í ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hvernig ætti að aðstoða skuldsett heimili? Jóhanna Vigdís svaraði ekki spurningunni og Broddi gekk ekki eftir svari. Var þó sannarlega ástæða til.

 

 Skaut One Direction myndband er óskiljanleg fyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins á fimmtudag (07.11.2013). Þegar fréttin er lesin kemur í ljós að átt er við, að Magni Ágústsson kvikmyndatökustjóri hafi stjórnað tökum á nýjasta myndbandi hljómsveitarinnar One Direction. Ekki góð fyrirsögn.

 

Trausti bendir á (07.11.2013) að þyngdarlögmálið hafi verið upphafið í DV, en þar segi: ..hann féll tæpa fimm metra neðan úr tré (!!!). Þetta er auðvitað mjög athyglisvert !

 

Sigríður skrifaði frá útlöndum (07.11.2013) og vekur athygli á orðalagi í Monitor, fylgiriti Morgunblaðsins, en þar segir meðal annars: ,, … eingöngu til þess að fá athygli, þó þeim að sjálfsögðu vanti oft athygli.” Hún bendir einnig á viðtal við Þóreyju Birgisdóttur þar sem segir meðal annars:,, Þórey drepur dagana með söngnámi.” Vonandi að engir fleiri bíði bana!. En fleira mætti nefna úr þessu viðtali, sem sýnir skort á gæðaeftirliti með því sem fer á prent. Í þessu stutta viðtali segir einnig: …. að setja sér markmið og ná því sama hvað. Þórey hefur nú þegar framið nokkur góðverk. …. að allir í lyftunni mundu klessa á mig. Ja, hérna.

 

Úr frétt á dv.is (07.11.2013): ,,Sagði hann nokkuð ljóst að Framsóknarflokkurinn yrði stærsti stjórnmálaflokkur á Íslandi ef það tækist og það væri hugsanlega eitthvað sem valdamiklum mönnum í Sjálfstæðisflokknum geti ekki sætt sig við”. Hugsunarlaus skrif. Enginn yfirlestur.

 

Í ágætum Tungutakspistli Morgunblaðinu í dag (09.11.2013) eignar Baldur Hafstað Molaskrifara smíði orðisins fréttabarn, um óreynda fréttamenn. Það er óverðskuldaður heiður. Molaskrifari man ekki betur en orðið hafi fyrst komið fyrir í lesendabréfi til Molanna, nær örugglega frá Bjarna Sigtryggssyni fyrrum blaðamanni.

 

Í Molum gærdagsins (1347) var þeim Loga Bergmann Eiðssyni og fréttamanni á Stöð eignað orðalagið , að draga skip á höfn. Hér ætlaði Molaskrifari að benda á orðalagið að draga skip að höfn sem notað var í fréttum Stöðvar tvö þetta kvöld. Leiðréttist þetta hér með. Rétt skal vera rétt og eru þau beðin velvirðingar á þessar tilvísun, sem var sem sé ekki rétt. Máltilfinning Molaskrifara , sem auðvitað er ekki óbrigðul, segir honum að tala eigi um að draga skip í höfn eða til hafnar, ekki að höfn. Það var það, sem ætlunin var að benda á.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Það er auðvitað mikið rétt, Þorsteinn. Þakka ábendinguna. K kv ESG

  2. Þorsteinn Pétursson skrifar:

    Í Morgunblaðinu 10. nóv. 2013 stendur undir mynd: „Séra V. Á. framkvæmir moldun…“
    Hygg að orðalagið að kasta rekunum lýsi þessari athöfn betur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>